Fréttablaðið - 21.04.2022, Side 30
FÓKUS Á HJARTA LANDSINS 21. apríl 2022 FIMMTUDAGUR
Á Austurlandi er ógrynni fallegra dala og sumir þekkt-
ari en aðrir. Einn þeirra lítt þekktari er ílangur en snotur
Flugustaðadalur, sem felur sig inn af Álftafirði norðan
Starmýrardals og sunnan Hofsdals. Úr fjarlægð lætur
þessi fallegi og gróni dalur ekki mikið yfir sér, enda
mynni hans þröngt og botninn víðast hvar mjósleginn
með litlu undirlendi. En Flugustaðadalur leynir á sér því
hann teygir sig langleiðina að Lónsöræfum, samtals 14
km leið. Eftir honum endilöngum rennur Suðurá, einn-
ig kölluð Flugustaðaá, sem á upptök sín í svokölluðum
Bláskriðum fyrir botni dalsins, undir snæviþöktum
Tungutindum og Flugustaðatindum. Þeir síðarnefndu
eru einkar tignarlegir og tvímælalaust ókrýndir kon-
ungar Flugustaðadals. Flestir hafa virt þá fyrir sér úr
Lónsöræfum, en þaðan má ganga á þá, til dæmis frá
Egilsskála, eða upp úr Flugustaðadal. Í gegnum Flugu-
staðadal liggur einnig algeng gönguleið á fáfarna Jökul-
gilstinda, en þá er gengið suður eftir litríku Jökulgili
sem liggur upp úr innanverðum Flugustaðadal.
Komist er inn Flugustaðadal eftir torfærum jeppa-
slóða sem víða liggur í grýttum árfarvegi. Til að komast
að slóðanum er ekið fram hjá bæjunum Flugumýri og
Stórhóli en skammt frá þeim síðarnefnda eru Hellrar
þar sem talið er að völvan Fluga hafi hafst við í hell-
um og skýrir Flugu-örnefnin. Skoða má þessa hella en
slóðinn heldur áfram að gangnamannakofanum Mark-
úsarseli. Þar hefst gangan inn dalinn og Suðurá fylgt
sunnan megin, en utar sameinast hún enn vatnsmeiri
Hofsá. Smám saman þrengist Flugustaðadalur og taka
þá tilkomumikil árgljúfur við. Í hliðarám, sem sumar
verður að vaða, leynast víða fallegir fossar. Á bak við
einn þeirra leynist snotur hellisskúti og gaman að virða
fossinn fyrir sér þaðan. Á leiðinni inn Flugustaðadal
verður birkiskógur einnig á leið manns, sem vissulega
má muna sinn fífil fegurri en lífgar engu að síður upp
á umhverfið. Áður en komið er að botni dalsins opnast
Jökulgil á vinstri hönd, handan við svokallað Sultaraf-
réttargil. Ef gengið er upp stöllótt jarðlögin blasa Jökul-
gilstindarnir tveir við eins og hvítklæddir tvíburaturn-
ar. Litadýrð í Jökulgili er mikil, sem þakka má líparíti
en til að magna stemmninguna rennur eftir botni þess
snarbrattur skriðjökull. Ganga inn og út Flugustaðadal
tekur daginn, ekki síst ef einnig er kíkt inn í Jökulgil. Í
Flugustaðadal er sjálfsagt að gefa sér góðan tíma í að
skoða fossana sem tvímælalaust eru á meðal helstu
djásna hans. Síðan er einnig tilvalið að slá upp tjaldi í
ósnortnum dalnum og dást að snævi þöktum tindum
hans. n
Feiminn
Flugustaðadalur
Á meðal helstu djásna Flugustaðadals eru fossar sem steypast niður brattar fjallshlíðar í þröngum giljum. MYNDIR/TG
Horft inn
Flugustaðadal.
Suðurá í for-
grunni og Flugu-
staðatindar
fjær.
Á bak við einn fossinn leynist hellisskúti sem gaman er að skoða.
Ólafur Már
Björnsson
augnlæknir og
ljósmyndari
Tómas
Guðbjartsson
hjartaskurð
læknir og náttúru
unnandi