Fréttabréf Siglfirðingafélagsins í Reykjavík og nágrenni - mai 2022, Síða 4
Siglfirðingablaðið4
Villimannahverfið
Bara nafnið vakti með okkur Suðrábakkaguttum ónot. Ekki
það að við hefðum rekist á marga villóa, heldur voru það
sögurnar, maður minn!
Lífseigasta sagan var sú að einn hafði látið pabba sinn eða
bróður kaupa fyrir sig loftriffil og amk. einn bæjargutti
hafði verið skotinn í lærið! Vá, vá. vá!
Sigga Bjarna, sem var siglfræg kerlingarfrekja átti að
hafa sigað löggunni á þá fyrir kaðlasprang og læti í
Mjölhúsportinu. Villóarnir kenndu kerlu lexíuna og í næsta
matartíma á Túngötu XX skall eitthvað á eldhúsglugga
Siggu. Þegar hún eða Bjarni litu út þá var kötturinn hennar
hengdur, og hafði verið rennt eftir loftnetinu sem bundið
var efst í tankana við Mjölhúsið! VÁ VÁ VÁ!
Strákur úr Útfrábakkahverfinu hafði orðið uppvís að stríða/
pína/einelta smærri villimenn. Villóarnir náðu honum og
bundu hann við svokallaðan píningarstaur (auðvitað!!)
og lögðu dekk og annan eldsmat að honum. Héldu svo á
braut og honum var bjargað af nágrönnum sem gengu á
hljóðin! VÁÁ, VÁ!
Þessar sögur og aðrar mergjaðar voru þess eðlis að menn
sópuðust ekki í Villimannahverfið til að ná sér í vini.
Gylfi Ægis
„Ég ólst upp í villimannahverfinu sem svo var kallað
á Siglufirði. Þangað þorði enginn nema í fylgd annars
villings, ekki einu sinni Þorvaldur Halldórsson söngvari
sem sagði mér það sjálfur. Ég þoli ekki þegar ráðist er
á fólk og minni máttar og er talsmaður þeirra sem geta
ekki borið hönd fyrir höfuð sér. Við strákarnir pössuðum
þannig fuglana á hjöllunum þegar bæjarguttarnir komu og
spýttu upp í ungana. Þá hlupum við eftir tréránum eins
og eftir götunum; við vorum svo vanir að vera þar uppi og
fylgjast með fuglum með nýfædda unga sína. Á endanum
tókum við einn bæjarguttann, bundum hann við staurinn
hjá mömmu, helltum bensíni í kring og kveiktum í með
tilheyrandi sprengingum í nærliggjandi gróðri. Það varð
auðvitað allt vitlaust en þeir lærðu af þessu,“ segir Gylfi.
Leó
„Villimennirnir“ bjuggu í villimannahverfinu sem var
umhverfis en þó aðallega fyrir norðan fótboltavöllinn. Þeir
voru skeinuhættir og að okkar mati alveg stórhættulegir, og
blönduðu sér oft í slaginn í fjallinu. Það var um þetta leyti
að við Steini Þóroddar urðum miklir mátar og eitt sinn á
löngu spjalli datt okkur í hug það snjallræði að sameina
„brekkuguttana“ og „suðurfráguttana“ sem bjuggu í syðsta
hluta bæjarins.
Þetta yrði líklega illvígur her vaskra drengja sem gæti
hreinlega vaðið yfir allt og alla, en fyrst þurfti að finna gott
nafn á hið sameinaða afl.
Það var góður og jákvæður mórall fyrir þessari hugmynd
og margir strákar í báðum hverfum vildu efna til mikils
ófriðarbáls hið allra fyrsta. Við settumst yfir málið og
skrifuðum niður tíu eða tuttugu hugmyndir á blað sem
við rifum úr gamalli stílabók. Mér fannst “Húnar” best
og Steini var sammála því. Við urðum því ásáttir um að
reka harðan áróður fyrir því að það yrði fyrir valinu. Við
báðum síðan alla strákana sem urðu á vegi okkar næstu
daga að setja kross við eitthvert nafnið á blaðinu en helst
Húna því það væri langbest og flestir kysu það. Það voru
líka einhverjir sem áttu ekki upp á pallborðið hjá okkur og
þeim var að sjálfsögðu ekki boðið að kjósa.
(Tekið af síðu Leós Ólasonar)
Hernámið á Siglufirði
(hluti æskuminninga, SK)
Krökkunum í Villimannahverfinu á Siglufirði þótti mikið
ævintýri þegar Bretarnir komu til Siglufjarðar. (hernámið
á stríðsárunum) Þeir komu sér fyrir úti á Siglunesi, uppi
á Brekku neðan Hlíðarvegar á svæðinu sem nú 2011,
tilheyrir Leikskálum.
Siggi Jóns á Eyri sýnir
gamla takta um borð í
síldarflutningaskipinu
Haferninum 1968.