Fréttabréf Siglfirðingafélagsins í Reykjavík og nágrenni - May 2022, Page 20
Siglfirðingablaðið20
Mats Wibe Lund
var í síldinni árið 1956
Mats Wibe Lund þarf vart að kynna fyrir
Íslendingum. Myndir hans og þjóðin hafa
verið samofin í áratugi. Á Cessnu Skyhawk
hefur hann flogið vítt og breitt um landið og
myndað alla helstu þéttbýlisstaðina. Mats varð
85 ára um daginn og við höfðum spurnir af
Siglufjarðarferð hans 1956.
Hann brást vel við að lána myndir og sagði jafnframt
að hann hefði komið hér í síldina og að vinna það sem
bauðst. Ferðin með Búdda norður var viðburðarík. Með
í förinni var Hafnfirðingurinn, Bjarni Guðmundsson,
sem gekk undir listamannanafninu Barrelhouse Blacky.
Hann kom fram í gervi negra og söng rokklög. Skemmti í
Alþýðuhúsinu í þessari ferð.
Mats gisti þetta sumar í Sjómannaheimilinu eldra þar sem
lengi var fiskbúð Eysteins og Abbýjar. Hann fékk fljótlega
vinnu við að mála þakið á ferlíkinu sem gengur undir
nafninu Mjölhúsið. Ekki tókst betur til en það að hann
steig á stiga sem var laus og rúllaði fram af þakinu með
málningarföturnar í fossi yfir sig! Hann var svo leiddur eins
og bronsaður geimfari gegnum bæinn og settur í hendurnar
á líklega Rögnu Bachman sem þvoði hann upp úr efni, sem
hefur haldið honum glansandi fínum síðan! Mats var svo
við uppgröft við Skálholt með Jökli Jakobssyni
ofl. Með Jökli og fleirum tók hann sér á hendur
ferð norður í Mývatnssveit og var svo heillaður
í Gjástykki að hann gætti ekki að sér og steig í
hitahver, kippti upp löppinni og steig í annan
hver með hinn fótinn. Honum var komið í
aðhlynningu í Reynihlíð þar sem húsfreyjan tók
olíudúk af eldhúsborðinu og klippti niður og
bjó um og þaðan fór hann til Húsavíkur. Þá segist Mats
hafa verið kominn það austarlega að hann hafi afráðið að
halda áfram. Þegar hann kom í Lónið að bænum Krossi
þá var honum tjáð að allar ár væru ófærar enda óbrúaðar.
Þegar hann segir gömlu hjónunum hrakfallasögur sínar
tóku þau ekki annað í mál en að hann svæfi í hjónarúminu
en bjuggu sjálf um sig í eldhúsinu!
Mats kom hingað ungur maður og starfaði sem frétta
ritari margra blaða og tímarita í Skandinavíu. Hann
kynntist konu sinni Arndísi Ellertsdóttur (19382015),
geðhjúkrunarfræðingi. Þau kynntust í Osló og fluttu hingað
og giftu sig 1966.
Siglfirðingablaðið þakkar Mats fyrir myndirnar
og spjallið og sendir þessum geðþekka Nossara
glansandi bronskveðjur!
Gaman að sjá þessa mynd af Siglufjarðarprentsmiðjuhúsinu með sínum bogadregnu gluggum og Sjómannaheimilinu.