Morgunblaðið - 10.05.2022, Blaðsíða 10
10
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 10. MAÍ 2022
Smiðjuvegur 68, Kópavogi | S. 587 1350 | bifreidaverkstaedi.is
Höfum sérhæft okkur í Toyota viðgerðum síðan 1995
Fljót, örugg og persónuleg þjónusta
Allar almennar bílaviðgerðir
Engin stór átakamál blasa við fyrir
komandi bæjarstjórnarkosningar í
Mosfellsbæ. Ásgeir Sveinsson odd-
viti Sjálfstæðisflokksins segir fjár-
málin standa nokkuð vel þrátt fyrir
mikið tekjufall í heimsfaraldrinum en
samkvæmt langtímafjárhagsáætlun
verður hægt að greiða upp skuldir
bæjarins samhliða mikilli uppbygg-
ingu.
Sveinn Óskar Sigurðsson oddviti
Miðflokksins er þó ekki á sömu línu
en hann telur bæjarstjórn hafa farið
offari og að ákvarðanataka hennar
líkist þeirri sem var uppi rétt fyrir
hrun. Hann viðurkennir þó að ekki sé
auðsótt að skera niður kostnað og því
mikil áskorun fyrir höndum.
Meirihlutinn staðnaður
Í Mosfellsbæ geta kjósendur valið
milli sjö framboðslista fyrir komandi
bæjarstjórnarkosningar en oddvitar
þeirra sátu fyrir svörum í kosninga-
þáttum Dagmála sem koma út í dag.
Frambjóðendur tókust á um ýmis
málefni en í brennidepli voru skóla-
og skipulagsmál.
Fulltrúar minnihlutans í bæjar-
stjórn segja þreytu komna í íbúa eftir
stjórnarsamstarf Vinstri-grænna og
Sjálfstæðisflokksins sem á rætur að
rekja til ársins 2006. Stöðnun sé farin
að einkenna rekstur bæjarfélagsins
og ákall sé eftir breytingum.
Ásgeir segir samstarfið þó ganga
afar vel og ekkert hafi komið upp í
aðdraganda kosninga sem kalli á
uppstokkun meirihlutans. Þá hafi
samstarf við minnihlutaflokkana
einnig verið gott.
Bærinn vaxi ekki of hratt
Allir oddvitar virðast sammála um
að áhersla á uppbyggingu sé nauð-
synleg enda fjölgi íbúum bæjarins
ört. Þeim ber þó ekki saman um
hvort vel hafi tekist við að hafa hemil
á þessari þróun eða hvort vaxtaverk-
ir séu farnir að segja til sín.
Ásgeir telur innviði hafa náð að
fylgja fjölgun íbúa nokkuð vel. Til að
mynda séu skólamál í góðum farvegi
og dagvistarúrræði fyrir hendi fyrir
öll börn frá 12 mánaða aldri.
Halla Karen Kristjánsdóttir odd-
viti Framsóknar er ekki sammála en
hún telur áherslu bæjarstjórnar á
uppbyggingu hafa gert það að verk-
um að viðhald innviða og þjónusta við
íbúa hafi verið vanrækt. Segir hún
jafnframt mikilvægt að klára fram-
kvæmdir sem þegar séu hafnar áður
en ráðist verður í nýjar.
Hröð afgreiðsla fyrir kosningar
Á mánudaginn í síðustu viku náðist
samkomulag milli Mosfellsbæjar og
dótturfyrirtækis Arion banka, Blika-
staðalands ehf., um uppbyggingu
íbúðabyggðar í Blikastaðalandi, þar
sem gert er ráð fyrir 3.500 til 3.700
nýjum íbúðum.
Fulltrúar meirihlutans töldu já-
kvætt að samkomulagið væri í höfn
enda myndi landeigandi koma að
uppbyggingu innviða á borð við
skólahúsnæði og gatnagerð. „[Land-
eigandi] greiðir einfaldlega í bein-
hörðum peningum fleiri, fleiri millj-
arða,“ segir Bjarki Bjarnason
oddviti Vinstri-grænna.
Það kvað við annan tón hjá minni-
hlutanum sem gagnrýndi harðlega
þá hröðu afgreiðslu sem málið fékk
og þann skamma tíma sem þeim
gafst til að kynna sér efni samnings-
ins. Gagnrýnin beindist fyrst og
fremst að vinnubrögðunum en ekki
samningnum sjálfum.
„Ég var á skipulagsnefndarfundi
föstudeginum áður þar sem fulltrúar
frá Arion banka komu og voru að
kynna fyrir okkur hvað þeir væru
komnir með. Það var ekki hikstað
upp að við ættum von á samningi þar
sem væri búið að ganga frá niður í
smáatriði um allar greiðslur,“ segir
Lovísa Jónsdóttir oddviti Viðreisnar.
Land bæjarstjóra skipulagt
Í þættinum rifjar Sveinn Óskar
jafnframt upp samningagerð um
uppbyggingu lands, sem átti sér stað
fyrir rúmum tíu árum, þar sem hann
telur að ekki hafi verið gætt að jafn-
ræði.
„Ég sagði það í öðrum viðtalsþætti
að þessi tímabil sem ég hef verið í
Mosfellsbæ hafa aðallega gengið út á
það að skipuleggja land tveggja bæj-
arstjóra. Leirvogstungan fyrir
Ragnheiði Ríkharðsdóttur og
Hulduhólarnir fyrir bæjarstjórann.“
Hann segir annað land hafa verið í
boði á sama tíma sem hét Helgafells-
land en eigendur þess hafi verið
frystir úti.
„Þetta gerði það að verkum að þau
gátu hesthúsað fjármagn þegar þeir
náðu að selja þessar lóðir sem þeim
tilheyrðu. Hún átti spildu hún Ragn-
heiður í Leirvogstungu og Hulduhól-
ar eru í eigu fjölskyldu bæjarstjór-
ans. Ég segi einfaldlega að þetta er
því miður að halda áfram.“
Telur hann mikilvægt að brjóta
þetta niður þar sem mikilvægt sé að
fá íbúa með til samráðs við þéttingu.
Bærinn breytist ekki í svefnbæ
Ekki bar mikið á áhyggjum þegar
fulltrúar meirihlutans voru spurðir
út í fyrirhugaðar framkvæmdir á
Sundabraut sem mun leiða hluta um-
ferðar fram hjá bænum.
Samkvæmt greiningu sem var
gerð á kjörtímabilinu halda um 20%
af allri umferð sem fer í gegnum
Mosfellsbæ áfram norður. Oddviti
Sjálfstæðisflokksins telur Mos-
fellsbæ því enn eiga eftir að njóta
góðs af þeim ferðalöngum sem
stefna á að fara Gullna hringinn, þar
sem þeir skipi stóran hluta þeirra
sem eiga leið í gegnum bæinn.
„Við þurfum ekki að hræðast það
að Mosfellsbær breytist í einhvern
svefnbæ þó að Sundabraut komi,“
segir Ásgeir. Áskorunin nú sé að
skapa fleiri spennandi staði í bænum
til að fá ferðamenn til að stoppa.
Í því samhengi benti Anna Sigríð-
ur oddviti Samfylkingarinnar á að til
framtíðar litið væri ekki lífvænlegt
að bensínstöðvar væru í hjarta bæj-
arins.
Öflugt og færanlegt teymi
Málefni skóla komu einnig oft upp
í þættinum en flestir oddvitar voru
sammála um mikilvægi þess að
leggja áherslu á uppbyggingu skóla-
starfs og m.a. finna stærra rými fyrir
Listaskóla Mosfellsbæjar.
Anna Sigríður vakti athygli á því
að erfitt væri fyrir börn að fá aðstoð í
skólum nema læknisfræðileg grein-
ing lægi fyrir, sem oft tæki marga
mánuði að fá. „Við verðum að fara að
grípa börnin okkar miklu fyrr og við
viljum að sveitarfélagið taki það að
sér. Við erum að fara að ná í fólk með
mismunandi sérfræðiþekkingu,
þroskaþjálfa, talmeinafræðinga og
sálfræðinga.“
Dagný Kristinsdóttir, oddviti
framboðslista Vina Mosfellsbæjar,
telur mögulegt að koma á fót öflugu
teymi sérfræðinga sem geta farið á
milli skóla í bæjarfélaginu.
Engin hætta á „svefnbæ“
- Minnihlutinn í Mosfellsbæ segir ákall eftir breytingum - Uppbygging nauðsynleg en ekki má
vanrækja þjónustu - Hröð afgreiðsla rétt fyrir kosningar - Bæjarstjóri hafi skipulagt eigið land
Morgunblaðið/Ágúst Ólíver
Mosfellsbær Oddvitar virtust nokkuð samstiga hvað varðar áherslur flokkanna fyrir næsta kjörtímabil.
Breytingar Oddvitar flokka minnihlutans töldu stjórnarsamstarf meirihlutans hafa runnið sitt skeið.
Alls hafa 10.013 manns greitt at-
kvæði utan kjörfundar í sveitar-
stjórnarkosningunum sem fara
fram núna á laugardaginn. Á höf-
uðborgarsvæðinu hafa 6.576 at-
kvæði verið greidd.
Þetta segir Sigríður Kristins-
dóttir, sýslumaðurinn á höfuðborg-
arsvæðinu, í samtali við Morgun-
blaðið.
Alls höfðu 4.608 manns kosið á
sama tíma í sveitarstjórnarkosning-
unum á höfuðborgarsvæðinu árið
2018. Þannig hafa um 30% fleiri
kosið núna.
Í samtali við Morgunblaðið sagði
Sigríður að talsverð umferð hefði
verið á kjörstað í gær, meiri en um
helgina. Bjóst hún við að við lok
dags hefðu í kringum 7.000 manns
greitt atkvæði á höfuðborgarsvæð-
inu.
Fyrir rúmri viku greindi Morg-
unblaðið frá því að samtals 1.839
hefðu greitt atkvæði hjá sýslu-
manninum á höfuðborgarsvæðinu
en 2.537 á landinu öllu. Því hafa alls
um 7.500 manns kosið síðustu vik-
una.
Utankjörfundaratkvæðagreiðsla
á höfuðborgarsvæðinu er í Holta-
görðum á 2. hæð. Opið er frá 10-22
alla vikuna, en 9-17 á kjördag.
Frekari upplýsingar um kosningu
utan kjörfundar má nálgast hjá
sýslumönnum um land allt.
Rúmlega 10.000 manns kosið
utan kjörfundar á öllu landinu
Morgunblaðið/Árni Sæberg
Holtagarðar Salka Sól söngkona er
búin að kjósa utan kjörfundar.
- 30% fleiri kosið en í sveitarstjórnarkosningum 2018
2022 SVEITARSTJÓRNARKOSNINGAR