Morgunblaðið - 25.05.2022, Blaðsíða 25
MINNINGAR 25
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 25. MAÍ 2022
duglegasti maður sem ég veit um.
Amma fæddist ekki með silf-
urskeið í munni og hafði lært að
spara og nýta hluti og predikaði
mikilvægi þess að eiga fyrir öllu
sem maður kaupir sér. Hún upp-
skar eins og hún sáði, ótrúlega
fallegt og ríkulegt líf sem innihélt
mikið af ferðalögum og svo hélt
hún góðum tengslum við allt sitt
fólk og elskaði að segja okkur
fréttir af fjölskyldunni og hún
varð spenntust allra ef hún fékk
tækifæri til að segja mér glænýj-
ar fréttir eða jafnvel leyndarmál.
Hún lagði einnig mikla áherslu á
að sérvelja allar gjafir fyrir börn
sín og barnabörn og vonaðist
auðvitað til að gjafirnar myndu
hitta í mark sem þær gerðu jú
oftast.
Við amma áttum ótal góðar
stundir sem ég er þakklát fyrir,
fórum saman á opnanir og sýn-
ingar, drukkum hvítvín með
sænska sendiherranum sem
henni fannst ægilega gaman og
svo óteljandi stundir með börnin
mín að horfa á hana hræra í vöffl-
ur og hún að spilla þeim með
súkkulaði og ís.
Amma og Birta Katrín dóttir
mín hlógu þegar þær kysstust
bless, daginn áður en hún kvaddi
þetta líf. Í okkar síðasta samtali
sagði ég henni hvað hún væri
elskuð og rík af góðu fólki. Hún
sagði mér að hún væri með plan
varðandi fjölskylduna og var
fyrsta planinu hennar uppljóstr-
að á hennar dánardegi og fengu
þá öll langömmubörnin umslag
merkt sér með stórum útlenskum
seðli í merkt frá ömmu Dísu. Svo
þau gætu keypt sér eitthvað fal-
legt í ferðalögum erlendis.
Hvíldu í friði og megi öll
heimsins blóm og ást umlykja þig
yndislega og brosmilda amma
mín.
Svana Lovísa
Kristjánsdóttir.
Nú kveð ég elsku vinkonu
mína, Ásdísi Guðbjörgu Konráðs-
dóttur sem alltaf var kölluð Dísa.
Við kynntumst fyrst á Suðurgöt-
unni í Hafnarfirði, síðar í okkar
félagsstarfi og urðum við nánar
vinkonur.
Dísa var glæsileg kona, hlýleg
og skemmtileg, mikill fagurkeri,
enda bar heimili þeirra Kristjáns
þess vel merki. Allt sem hún tók
sér fyrir hendur gerði hún af
miklum myndarskap. Dísa var
dugnaðarforkur sem aldrei féll
verk úr hendi.
Við áttum mörg sameiginleg
áhugamál, nutum þess að sækja
söfn, tónleika og spiluðum fé-
lagsvist. Í strætó fórum við út á
land og sóttum ýmsar hand-
verkssýningar. Öll símtölin sem
við áttum, mikið á ég eftir að
sakna þeirra.
Það eru margar góðar minn-
ingar að ylja sér við nú þegar
Dísa er farin í Sumarlandið.
Elskulega fjölskylda, ég sendi
ykkur mínar innilegustu samúð-
arkveðjur. Minning um yndislega
konu lifir.
Hver minning dýrmæt perla að liðnum
lífsins degi,
hin ljúfu og góðu kynni af alhug þakka
hér.
Þinn kærleikur í verki var gjöf, sem
gleymist eigi,
og gæfa var það öllum, er fengu að
kynnast þér.
(Ingibjörg Sigurðardóttir)
Þín vinkona,
Erna S. Mathiesen.
Það var mikið gæfuspor þegar
við fjölskyldan fluttum á Hring-
brautina í Hafnarfirði og eignuð-
umst okkar góðu nágranna. Ás-
dís var þar fremst í flokki að
öllum öðrum ólöstuðum. Ekki var
hún bara elst okkar kvennanna á
„torfunni“, hún hafði búið þar
lengst, í Laufási, fallega heim-
ilinu sínu.
Hún fékk viðurnefnið Blóma-
Dísa, því hún sá um vinnuflokka
bæjarins sem sáu um að fegra
umhverfi okkar. Þegar hún var
ekki í vinnunni var hún gjarnan í
garðinum sínum og var alltaf
tilbúin til skrafs og ráðgerða og
að leiðbeina okkur nýbúunum.
Eftir því sem kynnin urðu
meiri fjölgaði samverustundun-
um og við nágrannarnir höfðum
grillveislur á sumrin, oftast í
garðinum í Laufási. Þorrablót
voru líka haldin og þá var vandað
vel til verka, allur almennur
þorramatur var á boðstólum auk
þess sem við bökuðum forláta
flatbrauð hjá Dísu, algjört lost-
æti. Allt voru þetta ógleymanleg-
ar veislur sem stóðu í mörg ár.
Að því kom að fólk flutti í
burtu og veislurnar lögðust af.
Dísa flutti í glæsilega íbúð í mið-
bænum þar sem hún bjó ein eftir
að Kristján, maður hennar, féll
frá. Svo var það fyrir nokkrum
árum að Dísa heimsótti mig og
sagði að hún vildi endilega kalla
okkur saman, gömlu nágrannana.
Það voru ekki orðin tóm. Dísa
útbjó einhverja þá glæsilegustu
veislu sem um getur þar sem allt
var meira og minna heimagert og
var hún svo sannarlega í essinu
sínu. Þannig vil ég minnast minn-
ar góðu nágrannakonu.
Sigríður Ágústsdóttir.
„Stórborgir heilla mig,“ sagði
Dísa vinkona mín meðal annars í
viðtali sem að ég tók við hana fyr-
ir jólablað Hamars árið 2005. Það
var gaman að spjalla við hana en
hún fór um víðan völl og sagði þar
frá ferðum sínum og Kristjáns
um heiminn. Heimskortið á ein-
um veggnum í glæsilegri íbúð
hennar var þakið pinnum. Dísa lá
ekki á sólarströnd í fríum heldur
ferðaðist um, skoðaði mannlífið
og framandi menningu. Ferða-
áhugi hennar kviknaði í æsku og
svo bætti í þegar Kristján eigin-
maður hennar sagði henni frá öll-
um ævintýrunum sem hann hafði
kynnst í siglingum um heimsins
höf.
Dísa var ein af þeim konum
sem stóðu sterkar með sjálfum
sér, fjölskyldu sinni og vinum.
Hún ól upp sex börn og gladdist í
gullbrúðkaupi með Kristjáni sín-
um og hennar stóru fjölskyldu
sem hún elskaði svo heitt og var
mjög stolt af. Hún hafði ánægju
af að segja frá því hvað krakk-
arnir væru að gera, læra og upp-
lifa. Fylgdist vel með sínum. Dísa
var flott í tauinu og yngdist með
árunum. Hún tók sér margt fyrir
hendur og vannst henni vel.
Bútasaumsteppin hennar eru
gersemi. Krafturinn, þorið og
gleðin yfir að vera til hélt henni
við efnið. Hún stjórnaði til
margra ára blómaflokki Hafnar-
fjarðarbæjar og má með sanni
segja að þar hafi hún farið fyrir
boðun vorsins í bænum, skart-
andi sínu fallega viðurnefni
Blóma Dísa.
Hreinlyndi Dísu og hispurs-
leysi var aðdáunarvert, hún
keypti sér ekki vinsældir heldur
bjó að þeim vegna mannskosta
sinna. Hún var mikill listunnandi
og sótti allar þær sýningar sem
hún hafði tækifæri til. Dömuboð-
in hennar eru ógleymanleg. Þar
sá Dísa til þess að konur sem
höfðu ekki sést lengi áttu saman
góða stund. Hún var trygglyndur
höfðingi hún Dísa.
Ég minnist Ásdísar Guðbjarg-
ar Konráðsdóttur, kærrar vin-
konu minnar, með virðingu og
þakklæti. Hennar verður saknað.
Kæra fjölskylda, hugheilar
samúðarkveðjur færi ég og fjöl-
skylda mín ykkur vegna andláts
einstakrar ættmóður, sem færði
lífinu lit með ómældum tíma sín-
um, hlýju og gleði.
Valgerður Sigurðardóttir.
Hún Dísa, Blóma-Dísa, er fall-
in frá. Hún og fjölskylda hennar
og fjölskylda mín erum búin að
vera samferða í gegnum lífið frá
því herrans ári 1957. Þá flutti hún
á loftið á Suðurgötu 31 og fjöl-
skylda mín bjó á Suðurgötu 28.
Dísa er mamma bestu vinkonu
minnar, hennar Siggu, og hef ég
notið þess að vera á heimili henn-
ar og einnig unnið undir hennar
verkstjórn. Heima hjá þeim Dísu
og Kristjáni voru alltaf mörg
börn og mikið fjör og er mér
mjög minnisstætt þegar við sát-
um i hring og Dísa skóf rófu ofan
í okkur öll. Alltaf vorum við vel-
komin til þeirra. Hún var dugn-
aðarforkur bæði hvað varðar
heimilið og vinnu. Ég vann með
henni sem unglingur í blóma-
hópnum og einnig í bæjarvinn-
unni. Í blómaflokknum lagði hún
okkur lífsreglurnar með vinnu-
lag, nákvæmni og dugnað. Ef
ekki var vel gert urðum við að
leggja enn meira á okkur eins og
þegar blóm voru ekki nægilega
vel sett niður. Einnig var ekki í
boði að skilja eftir svarta rusla-
poka um bæinn fyrir helgarnar.
Hún var mjög góður yfirmaður,
réttsýn gagnvart okkur og sann-
gjörn. Síðan hafa árin liðið og
alltaf gott samband á milli fjöl-
skyldanna. Árið 2008 fórum við
mamma, Sigga og Dísa til Kaup-
mannahafnar. Við Sigga vorum
að fara að hlaupa og þær fylgdu
okkur eftir í hlaupið og í samveru
þessa daga. Í þeirri ferð vildi hún
Dísa ganga sem mest og þar
speglaðist enn og aftur dugnaður
og eljan í fari hennar. Að lokum
votta ég og fjölskylda mín hennar
fólki dýpstu samúð.
Guðrún Gunnarsdóttir.
Ásdís Guðbjörg Konráðsdóttir
lést hinn 24. apríl síðastliðinn.
Ég hitti hana síðast þegar St.
Jósefsspítali var opnaður á nýjan
leik sem Lífsgæðasetur.
Hún var dyggur stuðnings-
maður Hollvinasamtaka St. Jós-
efsspítala. Hún hafði til fjölda ára
búið með fjölskyldu sinni á Suð-
urgötu í nágrenni við sjúkrahúsið
og starfsemi þess og taldi því
réttast að heilbrigðistengd starf-
semi kæmi aftur í húsið, eins og
Hollvinasamtökin börðust fyrir.
Við vorum glaðar og ánægðar
þegar við gengum um fyrstu
hæðina og sáum þessar góðu
breytingar og þá fjölbreyttu
starfsemi sem var að hefjast und-
ir heiti St. Jósefsspítala sem Lífs-
gæðasetur. Ásdís var alltaf svo
jákvæð og hvetjandi og lá ekki á
skoðunum sínum. Þarna kom hún
til mín og óskaði mér til hamingju
með áfangann. Á þessum tíma-
punkti var barátta Hollvinasam-
takanna búin að standa í rúmlega
fimm ár. Hún var félagi í samtök-
unum frá byrjun, og ég sakna
hennar stuðnings í baráttunni
fram undan; að fá lóð sjúkrahúss-
ins skipulagða fyrir Lífsgæða-
setrið.
Ég var líka á fundi með Ásdísi
þegar hún, ásamt fjölda íbúa í ná-
grenni við Kató, mótmælti
þriggja hæða byggingu sem
byggja átti fyrir neðan Kató og
taka þar með útsýni frá íbúum við
Suðurgötu og víðar. Hún lét
ávallt til sín taka ef henni fannst
ekki verið að gera hlutina rétt.
Ásdís stóð fyrir því að gerður
var steyptur bekkur í Hellis-
gerði. Í mörg ár var hún starf-
andi við gróðursetningu með
flokka úr unglingavinnunni við að
skreyta bæinn og Hellisgerði
með sumarblómum. Þá fékk hún
hið fallega viðurnefni Blóma-
Dísa. Ásdís bauð mér í heimsókn
í íbúðina sína við Þórsplan. Þar
var öllu fyrir komið á fallegan
hátt og listmunir víða, þar á með-
al hennar eigin handverk.
Alltaf naut ég samveru og
samstarfs með Ásdísi, þessari
glæsilegu konu sem við kveðjum
nú. Hún sagði mér frá fjölskyldu-
hittingi heima hjá henni við
Þórsplanið, þar sem börn og
barnabörn mættu reglulega.
Þeirra missir er mikill. Megi Guð
styrkja þau á erfiðri stundu. Ég
sendi mínar innilegustu samúð-
arkveðjur til allra aðstandenda
Ásdísar G. Konráðsdóttur. Bless-
uð sé minning hennar.
Steinunn Guðnadóttir,
formaður stjórnar
Hollvinasamtaka
St. Jósefsspítala.
✝
Oddur Helgi
Bragason
fæddist í Reykja-
vík 16. desember
1963. Hann lést á
heimili sínu, Hlíð-
arhjalla 52, Kópa-
vogi, 26. apríl
2022.
Foreldrar hans
voru séra Bragi
Reynir Frið-
riksson, prófastur
og sóknarprestur í Garðabæ,
f. 15. mars 1927 á Ísafirði, d.
27. maí 2010, og Katrín Eyj-
ólfsdóttir, bankastarfsmaður
og prófastsfrú, f. 6. ágúst
1928 á Eskifirði, d. 4. júní
2021. Systkin Odds: Ingibjörg,
f. 8. apríl 1954, d. 5. febrúar
2017; Eyjólfur Reynir, f. 19.
júní 1955; Auður Soffía, f. 18.
júlí 1958.
Oddur átti eina dóttur,
Gunnhildi Rós, f. 21. júlí 1989.
Móðir hennar er Soffía Dag-
mar Þorleifsdóttir, f. 14. maí
1968.
Oddur ólst upp í Garða-
hreppi og gekk í barna- og
gagnfræðaskóla þar. Hann
dvaldi sumarlangt með for-
eldrum sínum í Íslendinga-
byggðum í Mikley, Kanada,
árið 1977 og í Minnesota um
haustið á meðan
faðir hans var þar
í framhaldsnámi í
guðfræði.
Oddur varði
stórum hluta æv-
innar í þágu
þeirra sem minna
mega sín. Hann
var lengi
meðferðarfulltrúi
hjá SÁÁ og BUGL,
og vann m.a. sem
hópstjóri á meðferðarheim-
ilinu Stuðlum. Þá starfaði
hann einnig sem lögreglu-
þjónn um tíma. Síðar vann
hann um nokkurra ára skeið
sem útfararstjóri hjá Útfar-
arstofu Íslands áður en hann
breytti um stefnu og tók
meirapróf og leiðsögumanna-
próf. Undi hann sér vel í starfi
leiðsögumanns enda naut hann
þess að ferðast um landið með
hóp ferðamanna og kynna
þeim sögu lands og þjóðar.
Oddur var félagslyndur og
naut hestamennsku um árabil.
Hann var frændrækinn og
hafði mikinn áhuga á ættfræði
og sögu.
Útför Odds Helga fer fram
frá Garðakirkju í dag, 25. maí
2022, og hefst athöfnin klukk-
an 13.
„Sæll frændi!“ Þessi orð óma
í höfði mér þegar ég hugsa til
Odds frænda. Svona heilsaði
hann manni alltaf og orðunum
fylgdi glaðhýr svipur og breitt
bros. Hann var ljúfur maður
hann Oddur.
Oddur Helgi Bragason fædd-
ist í Reykjavík 16. desember
1963. Hann var skírður í höfuðið
á ömmu sinni, Oddnýju Jóhönnu
Eyjólfsdóttur, en seinna nafnið,
Helgi, var fengið frá afa hans,
Friðriki Helga Guðjónssyni.
Oddur ólst upp í Garðahreppi
og var sannarlega orkumikill og
uppátækjasamur strákur.
Prakkarastrik hans og vina hans
rötuðu meira að segja í vinsælar
barnabækur. Pabbi hans hét
séra Bragi Friðriksson og var
sóknarpresturinn í hreppnum.
Oddur og félagar nýttu sér oft
skrifstofu prestsins í „erind-
rekstur“ en sögur segja að þeir
hafi falsað skilnaðar- og dán-
arvottorð í gríð og erg. Bless-
unarlega sá presturinn alltaf við
þeim áður en þau fóru í umferð.
Þegar Oddur komst til manns
kviknaði í brjósti hans mikill
áhugi á landi og þjóð. Hann
hafði verið í sveit á Ástjörn í
Þingeyjarsýslu sem barn og þar
átti hann góðar stundir. Á full-
orðinsárum ferðaðist hann víða,
starfaði sem leiðsögumaður og
var mikill hestaunnandi.
Ég á fallegar minningar af
frænda mínum. Hún er t.d.
sterk minningin þegar hann
teymdi mig áfram á skjóttum
hesti í íslenskum sumarblóma.
Ég var ekki hár í lofti, en leið
eins og keisara sem reið um
lönd sín, hnarreistur og mikill.
Frændi minn var glæsimenni
í sjón, hávaxinn og herðabreið-
ur, ljós og fagur. Hann var hlýr
og skemmtilegur og hafði ein-
kennandi hlátur, ekkert ósvip-
uðum þeim sem systir hans
Ingibjörg hafði, sem kvaddi líka
allt of snemma. Barnið í manni
skynjaði hlýleikann sem bjó um
góðlegt hjarta hans. Góðhugur
einkenndi þennan yndislega
mann og lék um bjartan svip
hans og viðmót allt. Hann vildi
öllum vel. Hann var hjarta-
hreinn.
Oddur var frændrækinn.
Hann rækti kynnin við frænd-
fólk sitt og vini alla tíð. Þannig
fór hann margar ferðir norður á
æskuslóðir föður síns í Miðfjörð-
inn og á heimaslóð móður sinnar
á Eskifirði. Hann fékk ættfræ-
ðiáhugann í arf frá föður sínum
og rannsakaði ættina í þaula. Ég
naut góðs af því á margvíslegan
hátt.
Oddur var áhugasamur um
ævisögu föður síns sem ég hef
unnið að undanfarin misseri.
Hann fór í margar ferðir norður
til að nálgast sögur, ljósmyndir
og heimildir. Ein ferðin bar
ríkulegan ávöxt, þegar 97 bréf
sem séra Bragi hafði skrifað frá
10 ára aldri til 50 ára aldurs
fundust á ævintýralegan hátt í
rykföllnum trékistli í Miðfirði
sem læstur hafði verið um ára-
tugaskeið. Það var sem fólkinu
þar hefði verið beint að kistl-
inum af himnum ofan – séra
Bragi virtist leikstýra þessu öllu
saman. Oddur kom með bréfin
til mín og hann var auðsjáanlega
spenntur, því þarna mátti greina
kjarnann í sálu föður hans. Hon-
um var annt um að sagt yrði frá
manneskjunni Braga Reyni og
hvað það var sem skóp þann
mann.
Ég lofaði honum að gera það
og ég mun standa við það í
þakkargjörð við elsku frænda
minn sem var mér svo góður.
Ég bið að Guð varðveiti hann og
blessi. Minningin um góðan og
glaðan frænda lifir.
Hrannar Bragi Eyjólfsson.
Oddur Helgi Bragason er lát-
inn, fallinn frá langt um aldur
fram. Þessi harmafregn barst
okkur fyrrverandi starfsfélögum
Odds á geðdeild Landspítalans á
Kleppi óvænt í liðinni viku. Við
unnum þar saman á árunum
1991 til 1995. Ungir menn sem
allir áttu sínar væntingar og
drauma um framtíðina.
Við þessi ferðalok viljum við
minnast Odds, okkar góða fé-
laga, með nokkrum orðum. Odd-
ur var glæsilegur maður, hávax-
inn, bjartur yfirlitum og bar sig
ávalt vel, stoltur af uppruna sín-
um og fjölskyldu.
Þær eru margar minningarn-
ar þar sem Oddur kemur við
sögu sem allar eiga það sameig-
inlegt að bera vott um mann-
kosti hans á borð við góð-
mennsku, einlægni, hlýju og
húmor sem eins og gefur að
skilja voru gulls ígildi í við-
kvæmu starfsumhverfi þar sem
þessara eiginleika er mest þörf.
Oddur var líka vinur og félagi
okkar utan vinnutíma og bar þar
aldrei skugga á, en mikið grín-
ast og hlegið við mörg eftir-
minnileg tækifæri sem lifa í
minningunni um þann góða fé-
laga sem við kveðjum nú. Upp
úr árinu 1995 fórum við allir
hver í sína áttina, við fylgdumst
samt ætíð hver með öðrum úr
fjarska.
Um leið og við þökkum Oddi
fyrir samfylgdina vottum við
Gunnhildi dóttur hans og skyld-
mennum hans okkar dýpstu
samúð í sorginni.
Daníel Guðjónsson,
Eyþór Brynjólfsson,
Jónatan Karlsson og
Ægir Haraldsson.
Ég trúi því ekki enn að hann
Oddur minn sé farinn. Mikið
mun ég sakna símtalanna sem
byrjuðu yfirleitt sæl kæra vin-
kona, en oftar var það sæl
gamla og svo skellti hann upp
úr, þegar ég minnti hann á að
ég væri yngri.
Við kynntumst árið 2000 þeg-
ar við vorum að vinna saman á
Stuðlum, meðferðarstöð fyrir
unglinga, og urðum strax góðir
félagar. Oddur bjó í næstu götu
við mig í Kópavoginum og datt
honum þá í hug að við færum í
gönguferðir á kvöldin. Þessir
göngutúrar urðu margir og mik-
ið sem við möluðum um allt milli
himins og jarðar. Margir töldu
að ég væri komin með mann
upp á arminn og þóttu þessar
gönguferðir okkar dularfullar,
því sumar voru ansi seint á
kvöldin eftir kvöldvaktir hjá
Oddi, en okkar á milli var alltaf
bara góður vinskapur. Þá var
það bara fínt að fólk héldi það,
enda Oddur frábær. Svo hár og
myndarlegur.
Oddur elskaði Íslandið sitt og
þekkti það vel, enda mikill úti-
vistarmaður og hestamaður.
Hann kynnti mér síðan líka fjöll-
in í kringum Reykjavík og
gönguleiðir allt í kringum höf-
uðborgarsvæðið og þá var oft
stráksi minn líka með í för. Eitt
sinn datt honum í hug að við
stelpurnar í saumaklúbbnum
myndum skella okkur í stóð-
hestaréttir í Húnavatnssýslunni,
sem var auðvitað best, og við
drifum okkur, þvílíka ævintýra-
helgin sem það var.
Ég flutti síðan til Englands
og alltaf hélst gott samband
okkar á milli, en þó hittingarnir
yrðu færri urðu símtölin fleiri.
Hann kom nokkrum sinnum að
heimsækja okkur, enda þótti
honum gott að skreppa frá Ís-
landi. Við kynntumst síðan enn
betur þegar ég fór að vinna í
ferðaþjónustunni í Englandi
2010. Oddur var fljótur að bjóða
fram krafta sína, þá sjálfur bú-
inn að vera að vinna í ferðaþjón-
ustunni heima. Hann tók að sér
allskonar verkefni fyrir mig svo
sem eins og móttöku ferða-
manna, áramótaferðir, einka-
ferðir og norðurljósaferðir og
svo stóð hann vaktina með mér
eitt sinn á bás í London og mik-
ið var nú gaman hjá okkur þá og
mikið hlegið.
Lífið hjá Oddi var oft erfitt,
veikindi hans stoppuðu drauma
hans um allavega hluti sem
hann langaði að gera. Hann
sagði mér að sig langaði svo að
búa í Englandi, spurði mig líka
hvort mig vantaði ekki starfs-
mann á skrifstofuna, en ekkert
varð af því.
Oddur var með þeim fyrstu
að heiman til að hafa samband
og athuga með mig í Covid, þar
sem hann vissi hvernig mér liði
þegar ferðaþjónustan lá niðri.
Þá sjálfur veikur, en mundi
samt eftir vinkonu sinni í Eng-
landi.
Í síðustu samtölum okkar
sagði hann mér að hann væri
mest að vinna því að verða besta
útgáfan af sér.
Innilegar samúðarkveðjur til
dóttur, fjölskyldu og vina.
Takk, elsku vinur, fyrir sam-
veruna, ég mun alltaf sakna þín.
Þín vinkona,
Jórunn.
Oddur Helgi
Bragason