Sjómannablaðið Víkingur - 01.01.2016, Síða 40
40 – Sjómannablaðið Víkingur
Nei. Einu sinni sem oftar fór hann úr
axlarlið þegar við vorum að veiða í stóru
ánni heima í Montana. Handleggurinn
hékk bara slyttislegur niður með síðunni
en vinurinn aumkaði sér ekkert. Menn
finna ekki svo mikið fyrir þessu fyrst en
svo versnar það og er verst þegar hand-
leggnum er troðið aftur í liðinn. Þá öskra
þeir. Þá gráta jafnvel hraustustu karl-
menni.
Þegar hjúkkan var að koma honum
aftur í liðinn þá argaði hann alveg ógur-
lega og hún bað hann að hafa sig hægan,
þetta væri ekki svona agalegt, hann væri
eins og kona við barnsburð. Og þá svar-
aði minn maður: Heyrðu mig, heillin, ég
orgaði eins og kona við barnsburð þegar
ég fór úr lið. Nú er eins og þú sért að
reyna að troða barninu aftur inn í mig og
hvernig heldurðu að konan tæki því?
Ég horfði undrandi á George en fatt-
aði síðan „brandarann“. Hann hló aftur á
móti ógurlega að minningunni, svo inni-
lega að það komu tár í augnkrókana en
síðan fór hann að óa og æa og greip um
fótlegginn á sér.
Er allt í lagi með þig? spurði ég aftur.
Jájá, ekkert að, sagði George hálf-
grenjandi af hlátri eða sársauka.
4.
Þannig vill til að ég á mér einn uppá-
haldsstað í Neðriá og um morguninn
hafði ég orðið var við nokkra laxa þar.
Nú ók ég rakleiðis þangað enda var
farið að húma að svo við máttum engan
tíma missa. Ég yrði að koma karlinum í
lax.
Ég hálf hljóp niður að ánni og George
skakklappaðist á eftir mér, augljóslega
kvalinn í hverju skrefi. Ég setti á réttu
fluguna, sýndi honum hvar hann ætti að
standa, hvert hann ætti að kasta, hvernig
hann ætti að lempa línuna og hvernig
hann skyldi draga. George var fljótur að
ná laginu á þessu og í fjórða kasti gerði
hann allt rétt. Ég vissi að þetta væri
óskastundin og draumakastið. Hann lyfti
stönginni og það strekktist á línunni.
Urgið í fluguhjólinu söng blítt eins og
vorboðinn ljúfur í hausthúminu.
Komdu með hann að landi svo ég geti
háfað hann, sagði ég þegar vinurinn frá
Montana hafði þreytt fiskinn í 20 mín-
útur. Ég hafði mestar áhyggjur af því að
hann myndi sprengja laxinn. Við verðum
að fara að koma honum á land svo hann
lifi þetta af!
Hægan, hægan, hvíslaði George og
þreytti fiskinn áfram.
Eftir um hálftíma náði ég loks undir
kviðinn á 70 sm hæng og lyfti honum
upp á bakkann. Fiskurinn var augljós-
lega örmagna en nú þurfti að taka mynd-
ir, margar myndir. George stillti sér upp
og ég rétti honum laxinn. Þegar nóg var
komið af myndum, setti ég fiskinn aftur
ofan í vatnið og reyndi að koma honum
til lífs. George hélt áfram að kasta en ég
stóð yfir laxinum í á að giska 20 mín-
útur, beitti alls kyns lífgunartilraunum
en allt kom fyrir ekki.
Nú kom karlinn til mín og sagði:
Þetta þýðir ekkert. Dreptu hann. Sem ég
og gerði.
Það var komið myrkur og George
orðinn ánægður. Við héldum af stað
heim til Akureyrar, ég úttaugaður en
George alsæll og þreyttur. Ég bað hann
að hafa engin orð um það að við hefðum
neyðst til að drepa laxinn því bannað
væri að drepa laxa í Neðriá, þar væri ein-
göngu stundað veitt og sleppt.
Ég er þögull sem gröfin, svaraði
George. En góðu fréttirnar eru þá þær að
við náðum laxi og slæmu fréttirnar eru
þær að við náðum laxi.
Hann hló.
5.
Karlinn var sofnaður í framsætinu þegar
við ókum yfir ræsið á Efriá. Í bjarma bíl-
ljósanna sá ég Stinna frænda standa við
veginn með lúkurnar kræktar í tvo risa-
vaxna urriða sem drógust blóðugir eftir
malbikinu. Ég þóttist ekki sjá hann og
vonaði að hann þekkti ekki bílinn.
George umlaði eitthvað um Vísakort upp
úr svefni og ég hækkaði ofurlítið í út-
varpinu þar sem Halldór Laxness las
fyrir mig um skrýtna laxveiðimanninn í
sögunni um Kristnihaldi undir Jökli.
Kátur karl með bleikjutitt á enda línunnar.