Mosfellingur - 03.02.2022, Side 18

Mosfellingur - 03.02.2022, Side 18
 - Mosfellingurinn Ragnheiður Kristín Jóhannesdóttir Thoroddsen18 Myndir: Ruth Örnólfsdóttir og úr einkasafni. Sjúkdómurinn endómetríósa, eða endó eins og hann er gjarnan kall- aður í daglegu tali, var áður betur þekktur sem legslímuflakk. Þetta er krón- ískur fjölkerfa- og fjölgenasjúkdómur sem veldur mismiklum áhrifum á daglegt líf fólks með sjúkdóminn. Ein af þeim sem hefur glímt lengi við þennan sjúkdóm er Ragnheiður K. Jó- hannesdóttir en hún var um fertugt er hún fékk loks greiningu. Hún segir að fordómarnir og skilningsleysið á þessum sjúkdómi sé með ólíkindum og meðferð- arúrræðin lítil sem engin. Ragnheiður fæddist á Fæðingarheimilinu í Reykjavík 1. janúar 1972. Foreldrar hennar eru þau Helga Ragnhildur S. Thoroddsen fv. bankastarfsmaður og Jóhannes Jóhannsson húsgagnasmíðameistari. Ragnheiður á fjögur systkini, Svein f. 1963, Sverri f. 1965, Eyþór Skúla f. 1975 og Helgu Laufeyju f. 1980. Sveitin var einn stór ævintýragarður „Fyrstu þrjú æviár mín bjuggum við fjölskyldan í Reykjavík en svo fluttum við í Mosfellssveitina og ég ólst upp í Teigun- um. Sveitin var einn stór ævintýragarður og maður naut náttúrunnar og frelsisins. Það var mikil samheldi milli krakkanna í hverfinu, á sumrin vorum við „niðri í gili“ á milli Álafosskvosar og Teigahverfisins og á veturna renndum við okkur niður Leifs- brekku. Við vinkonurnar vorum duglegar að fara í sund, rækta grænmeti eða fara í hjólaferðir upp á Hafravatn. Foreldrar mínir hafa alla tíð verið dugleg að ferðast um landið og það eru ófáar minningarnar þar sem við systkinin hossuðumst aftur í í jeppanum á meðan mamma las fróðleik úr Landið þitt Ísland ferðahandbókinni.“ Tók meðvitaða ákvörðun Ragnheiður gekk í Varmárskóla og Gagn- fræðaskóla Mosfellsbæjar og líkaði vel þrátt fyrir að vera pínlega feimin alla grunnskólagönguna eins og hún orðaði það. „Ég átti auðvelt með nám en feimnin háði mér hins vegar töluvert. Þegar ég byrjaði í Menntaskólanum við Sund þá tók ég meðvitaða ákvörðun um að „hætta að vera svona feimin“ og það tókst bara ágætlega og ég fór að njóta mín betur. Á sumrin starfaði ég á Álafossi, Reykja- lundi, Kaupfélagssjoppunni, Svanssjoppu, Ísfugli og með fötluðum börnum.“ Fékk starf í Portúgal Ragnheiður fór út á vinnumarkaðinn eft- ir menntaskólaárin en tók síðar alþjóðlegt diplómanám í Ferðaskóla Flugleiða sem þá var og hét og fékk í kjölfarið sumarstarf á söluskrifstofu félagsins. „Ég fann að ég var komin á rétta hillu og fékk í framhaldi starf hjá Úrval-Útsýn. Þar starfaði ég í rúm níu ár við hin ýmsu störf. Eftir árabil sótti ég um að fá að starfa sem fararstjóri í Portúgal en ég hafði tekið ástfóstri við landið eftir fyrstu heimsókn þangað. Í Portúgal kynntist ég barnsföður mínum, Antonio, við eignuðumst dóttur saman, Katrínu Noemiu f. 1999. Við Antonio slitum samvistum og við Katrín fluttum heim þegar hún var 2 ára. Árið 2001 kynntist ég eiginmanni mín- um, Hafþóri Ólasyni en hann er faðir yngri dóttur minnar, Birnu Hlínar f. 2004. Við slitum samvistum árið 2009. Við mæðgur höfum gaman af því að ferðast og erum líka duglegar að fara í stuttar dagsferðir.“ Skellti sér í háskólanám „Ég skellti mér í háskólanám um þrítugt, tók B.S í ferðamálafræði með viðskipta- fræði sem aukagrein. Eftir útskrift 2006 fór ég að vinna hjá Valitor í alþjóðaviðskiptum. Starfinu fylgdu rétt eins og starfinu í ferða- geiranum reglulegar vinnuferðir erlendis sem hentaði ferðasjúku mér mjög vel,“ segir Ragnheiður og hlær. „Þetta var gríðarlega skemmtilegt og krefjandi starf.“ Gerði allt sem í mínu valdi stóð „Vorið 2011 sá ég umfjöllun í dagblaði um sjúkdóminn endómetríósu sem vægast sagt vakti athygli mína. Ég var á þessum tíma búin að vera með hita upp á hvern einasta dag í rúm 2 ár og átti fullt í fangi með að halda mér gangandi í daglegu lífi. Ég var búin að ganga á milli lækna og gera allt sem í mínu valdi stóð til að ná betri heilsu, nefndu það, ég var búin að prófa það,“ segir Ragnheiður alvarleg á svip. „Ég hef oft fengið að heyra það frá læknum að ég sé ímyndunarveik, móðursjúk, kvíðin eða þunglynd, ég hef ekki tölu á því og á það meira að segja skriflegt. Heilsu minni hélt áfram að hraka og lík- aminn orðinn undirlagður af verkjum. Ég þurfti að skipuleggja allt mitt líf í kringum blæðingarnar hjá mér og veikinda- dögunum í vinnunni fjölgaði á ógna- hraða.“ Það var engin meðhöndlun „Ég komst loks að í kviðarholsspegl- un en það var eina leið mín til að fá stað- festingu á því hvort ég væri með þennan sjúkdóm. Þarna var ég að verða fertug og búin að glíma við langan lista af einkennum í áraraðir, sumt síðan ég var barn. Mamma fór með mig fyrst til læknis þegar ég var 13 ára og aldrei minntist nokkur læknir á þennan sjúkdóm. Niðurstaða speglunarinnar leiddi í ljós að ég var með sjúkdóminn en ég fékk enga meðhöndlun, engar ráðleggingar, ekkert. Ég fór aftur í vinnuna og hélt áfram á síð- ustu blóðdropunum þangað til ári síðar að ég „krassaði“ algjörlega og var send í veik- indaleyfi. Þetta veikindaleyfi átti að vera einn mánuður en er nú orðin rúm átta ár.“ Glími við verki flesta daga „Ég fékk meðhöndlun fjórum árum eftir fyrstu speglun sem tókst ekki betur en svo að það var skilið eftir eitt stykki endómetrí- ósuæxli á ristlinum á mér því læknirinn sá það ekki, en það var búið að vaxa þarna í nokkur ár. Æxlið var ekki tekið fyrr en tveimur hræðilegum og mjög kvalafullum árum seinna og þá þurfti að stytta ristilinn um 15 cm auk þess sem endó var búið að dreifa sér um kviðarholið. Ég er með skaddaða þvagblöðru, ristil og búin að missa kvenlíffærin mín. Ég glími við verki flesta daga og er búin að berjast fyrir því að fá að komast í aðgerð en þangað til núna í haust var enginn sérfræðingur í sjúkdómnum hér á landi. Einn slíkur hóf nýlega störf en ég kemst ekki í aðgerð hjá honum þar sem hann fær ekki samning við Sjúkratryggingar. Ég hef sótt um að komast utan í aðgerð en fengið synjun.“ Þetta er grafalvarlegt ástand „Ég var alin upp í að vera samviskusöm og fara fram úr væntingum í vinnu og hef lagt mig fram við það frá 12 ára aldri. Mig langar ekkert meira en að geta verið út á vinnumarkaðnum. Það er sárt að vera „hent í ruslið“ þegar maður veikist og fá ekki þá heilbrigðisþjónustu sem maður á rétt á samkvæmt lögum. Maður skilur ekki þetta reikningsdæmi hjá yfirvöldum að hafa fólk frekar á örorku en að veita því læknishjálp,“ segir Ragnheiður og hristir höfuðið. „Það er heldur ekkert grín að lifa á lífeyri sem nær ekki lágmarkslaunum. Skilningsleysið og fordómarnir fyrir þessum sjúkdómi er með ólíkindum og meðferðarúrræðin hér á landi lítil sem eng- in. Þetta er grafalvarlegt ástand, fjöldinn allur af konum glímir við miklar kvalir án þess að fá neina hjálp. Ég veit um nokkrar á þrítugsaldri sem eru komnar á örorku Ég hef unnið töluvert með Samtökum um endómetríósu og á eigin spýtur til að vekja athygli á sjúkdómnum með von um betri heilbrigðisþjónustu og skilning. Ef mín saga getur hjálpað þó ekki sé nema einni konu, þá er tilganginum náð.“ Ef saga mín getur hjálpað þó ekki sé nema einni konu, þá er tilganginum náð. Mæðgurnar Katrín, Birna Hlín og Ragnheiður. MOSFELLINGURINN Eftir Ruth Örnólfsdóttur ruth@mosfellingur.is Sárt að vera hent í ruslið Ragnheiður Kristín Jóhannesdóttir Thoroddsen hefur glímt við sjúkdóminn endómetríósu í 37 ár tveggja ára með helgu móður sinni fararstjóri í mexíkó 2001 HIN HLIÐIN Hver myndi leika þig í bíómynd? Helga systir. Það besta við Ísland? Náttúrufegurðin og fjölbreytileikinn í henni, fæ ekki nóg af því að ferðast innanlands. Hver kom þér síðast á óvart og hvernig? Vinkonur mínar sem mættu til mín með afmælistertu sl. nýársdag, daginn sem ég varð 50 ára. Besta ákvörðun sem þú hefur tekið? Að „hætta að vera feimin“. Hvað drífur þig áfram? Fólkið í lífi mínu og að berjast fyrir óréttlæti og betri heilbrigðisþjónustu fyrir endósjúklinga. Hvað myndir þú aldrei borða? Kæsta skötu, hákarl, snigla, ostrur, froska. Ertu A eða B manneskja? B fram í fingurgóma, alveg frá fæðingu. Hvað gleður þig mest? Dætur mínar.

x

Mosfellingur

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Mosfellingur
https://timarit.is/publication/1311

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.