Mosfellingur - 11.03.2022, Blaðsíða 24

Mosfellingur - 11.03.2022, Blaðsíða 24
Hæ Dagga, kölluðu börnin úr öllum áttum er við Dagbjört, eða Dagga eins og hún er ávallt kölluð, fengum okkur göngutúr í bænum einn góðviðrisdaginn. Það sést langar leiðir að Dagga hefur unun af því að vera í návist barna, hún hefur lengi sinnt yngstu kynslóðinni hér í bæ bæði sem stuðningsfulltrúi og sem forstöðumaður Frístundasels. Í dag sinnir hún drekaskátunum hjá skátafélaginu Mosverjum ásamt því að veita félaginu forstöðu. Náttúran er þeirra leikvöllur og börnunum er kennt að tengjast orkunni sem í henni býr. Dagbjört fæddist í Reykjavík 7. desember 1973. Foreldrar hennar eru þau Guðrún Kristinsdóttir bókari og Brynjar Vatnsdal Dagbjartsson smiður. Dagbjört á tvo bræður, þá Dagbjart Krist- in f. 1971 og Þorleif Jón f. 1978. Lékum okkur í skóginum alla daga Dagbjört ólst upp í Hafnarfirði en fjöl- skyldan fluttist búferlum til Svíþjóðar þegar hún var sex ára. Þau bjuggu fyrst í Helsing- borg en svo byggðu foreldrar hennar sér hús í miðjum skóginum á Hallandsásn- um. „Við systkinin lékum okkur frjáls í skóg- inum alla daga með fullt af villtum dýrum í kringum okkur. Ég upplifði mig svolítið eins og Ronju Ræningjadóttur þegar hún strauk að heiman. Afi okkar, Kristinn Halls- son kom oft í heimsókn til okkar í tengslum við fundi. Hann kom iðulega með stútfull- ar ferðatöskur af alls kyns góðgæti eins og Cheerios, harðfiski og öðrum íslenskum gersemum. Ég gekk í skátana og lærði að lifa í nátt- úrunni, elska hana og virða. Náttúran hefur síðan verið minn griðastaður og þangað fer ég til að endurnæra mig. En með aldrinum verð ég að viðurkenna að það er samt alltaf gott að sofa í rúminu heima líka,“ segir Dagga og brosir. Of þrjósk til að láta það gerast „Sumarið 1985 fór ég til Íslands í fyrsta sinn síðan við fluttum og þá uppgötvaði ég hvað landið er frábrugðið Svíþjóð. Allt hraunið frá flug- vellinum, fossarnir, fjöllin og lítið af trjám. Ég fékk að sjá Geysi gjósa það sumar og þá vaknaði ást mín á íslenskri náttúru. Ég gekk í skóla í Svíþjóð öll mín grunn- skólaár og flutti svo heim til Íslands 1989 en þá var ég búin að koma hingað nokkur sum- ur til að vinna. Ég var vel talandi á íslensku en hafði hvorki lært íslenska réttritun né málfræði. Það gekk því pínu brösulega í íslenskuáföngunum í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti. Ég féll þó aldrei, var einfaldlega of þrjósk til að láta það gerast.“ Keyptu sér húsbíl Dagga er gift Páli Sigurði Magnússyni vélfræðingi sem lengst af hefur starfað við sjó- mennsku en starfar í dag hjá Lambhaga. Þau eiga tvær dætur, Andreu Dagbjörtu f. 1998 og Guðrúnu Ísafold f. 2000 „Foreldrar okkar Palla kynntust í skát- unum og við líka svo ósjálfrátt snýst líf okkar mikið um skátastarf. Við höfum líka gaman af því að ferðast og síðastliðið sumar keyptum við okkur húsbíl sem við skírðum Benna. Við erum dugleg að fara í göngutúra og skoða okkur um, að njóta frekar en að þjóta er okkar.“ Starfið var bæði gefandi og krefjandi Dagga hefur starfað hjá ýmsum fyrirtækj- um í gegnum tíðina, hún var í gróðurhúsa- vinnu í Hveragerði, var leikskólastarfsmað- ur í Hafnarfirði og svo var hún bókari og sölufulltrúi hjá rafverktaka annars vegar og bólstrara hins vegar. Hún var stuðningsfull- trúi í Lágafellsskóla og tók síðan við stöðu forstöðumanns Frístundaselsins. „Eftir að ég hætti í skólanum þá fór ég að starfa hjá Bandalagi íslenskra skáta sem verkefnastjóri dagskrár- og fræðslumála, það starf var rosalega gefandi en líka krefj- andi. Þar kynntist ég Ólafi Proppé fv. rektor Kennaraháskólans og hann hvatti mig til þess að fara í háskólanám sem ég og gerði. Ég tók diplómanám í viðburðastjórnun við Háskólann á Hólum og fyrst ég var komin á bragðið þá tók ég leiðsögumanninn í Leiðsöguskóla Íslands.“ Grunnurinn er alltaf sá sami „Skátastarfið í Svíþjóð var svolítið frá- brugðið því sem er hér þótt grunnurinn sé í raun alltaf sá sami. Að upplifa ævintýri og takast á við áskoranir í hópi vina sem þú treystir. Eftir að ég flutti til landsins þá var það í skátunum sem ég eignaðist vini en ekki í skólanum og þá vini er ég enn í tengslum við. Ég var búin að búa hér í Mosó í tvö ár þegar Gunnar Atlason fékk mig til að koma og aðstoða sig við yngstu skátana því þeim hafði fjölgað mikið. Hálfu ári síðar fór hann í önnur störf innan félagsins og ég tók því yfir með þau yngstu og er þar enn. Núna kallast þau drekaskátar en hétu áður ylf- ingar.“ Gaman að hitta börnin á förnum vegi „Það eru nokkur hundruð börn sem hafa komið við hjá mér í skátastarfinu. Mörg hver eru komin með fjölskyldu sjálf og sum þeirra starfa enn með okkur. Það er svo gaman að hitta börn á förnum vegi sem eru ekki lengur hjá okkur, þau heilsa manni alltaf og jafnvel knúsa. Fyrir nokkrum árum tók ég sæti í stjórn Mosverja og varð svo aðstoðarfélagsforingi en í dag starfa ég sem félagsforingi og hef verið það síðastliðin fimm ár. Félagsforingi er formaður stjórnar félagsins en með mér í stjórn eru sjö flottir sjálfboðaliðar sem deila með mér ábyrgðinni. Þá eru ekki taldir upp allir hinir foringjarnir sem starfa í félaginu, þetta væri sko ekki hægt án þeirra, þau eru á aldrinum 15-60 ára og öll jafn ung og frábær.“ Þau gera ekki greinarmun á fólki Ég spyr Döggu út í börnin. „Börn eru svo einlæg og hreinskilin, það skiptir þau engu máli hvernig fólk er klætt eða hversu flott- an bíl maður á. Þau gera ekki greinarmun á fólki eftir útliti heldur líta til hins innri manns og ef þú ert með gott hjarta þá færðu kærleikann frá þeim og virðinguna. Börn þurfa að fá að vera forvitin og detta í mölinni og meiða sig, fara í drullupoll, klifra í trjám og læra að pissa úti. Þau þurfa einfaldlega að fá að njóta en ekki þjóta. Foreldrar gleyma þessu oft í amstri dagsins því það er allt of mikið að gera hjá þeim, vinnan, ræktin, félagslífið og áhugamálin. Stærri hús, flottari bíll, þetta kostar pen- inga og þá þarf að vinna meira sem þýðir minni tími fyrir börnin, þessi tími kemur ekki aftur og sumir foreldrar átta sig á þessu allt of seint, því miður,“ segir Dagga alvarleg á svip. Við lærum á lífið sjálft „Í skátunum kennum við börnunum að upplifa, takast á við áskoranir og setja sér markmið. Við lærum á lífið sjálft, hvernig við gerum það besta úr okkur sjálfum því öll geta tekist á við stærstu áskoranirnar í hópi vina sem þau treysta. Náttúran er okkar leikvöllur því þar tengjumst við svo vel orkunni sem í henni býr. Það má í raun segja að í huga og hjarta sérhvers barns býr sá kraftur sem þarf til að breyta heiminum, svo einfalt er það,“ segir Dagga að lokum. Við lærum á lífið sjálft, hvernig við gerum það besta úr okkur sjálfum því öll geta tekist á við stærstu áskoranirnar í hópi vina sem þau treysta. MOSFELLINGURINN Eftir Ruth Örnólfsdóttur ruth@mosfellingur.is HIN HLIÐIN Eftirminnilegasta ferðalagið? Skáta- útilega í Dalakoti þar sem ég kynntist manninum sem varð svo maðurinn minn, barnsfaðir og besti vinur. Hvernig dekrar þú við sjálfa þig? Notaleg náttúrulaug í óbyggðum. Fjallganga eða fjöruferð? Fjallganga á mosfellsku fellunum. Áttu gæludýr? Já, hef alltaf átt ketti og á núna tvo. Það besta við Ísland? Náttúran og fegurðin. Hver er þín óvenjulegasta lífsreynsla? Að sofa í tjaldi í skrúðgarði í Monaco á skátamóti með Mosverjum. Draumaborgin? Borgir heilla mig ekki nema fjallaborgir eða álfaborgir. Hvað myndir þú taka með þér á eyðieyju? Vini og eldfæri. Á brúðkaupsdaginn árið 2003, Dagbjört, Páll Sigurður, Andrea Dagbjört og Guðrún Ísafold. Börn eru svo einlæg og hreinskilin Dagbjört Vatnsdal Brynjarsdóttir leiðsögumaður og viðburðastjóri er félagsforingi Skátafélagsins Mosverja vigdís færir dagbjörtu forsetamerki - Mosfellingurinn Dagbjört Vatnsdal Brynjarsdóttir24 Myndir: Ruth Örnólfsdóttir og úr einkasafni. fyrsta skátamótið 1984

x

Mosfellingur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Mosfellingur
https://timarit.is/publication/1311

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.