Austurglugginn


Austurglugginn - 15.04.2021, Page 6

Austurglugginn - 15.04.2021, Page 6
6 Fimmtudagur 15. apríl AUSTUR · GLUGGINN Sagan er það góð að hana verður að segja fyrst. Hún fjallar um hvernig pilturinn Stefán Eiríksson, fæddur að Fremraseli í Hróarstungu en alinn upp á heiðarbýlum á þar síðustu öld, varð maðurinn sem rannsóknarprófessorinn Goddur segir að hafi… „lagt grunninn að íslenskum sjónmenntum á seinni tímum.“ Sagan hefst á veiðiþjófnaði. Eiríkur, faðir drengsins sem var góð skytta, hafði „lent í því“ að skjóta fimm hreindýr á heiðinni eftir áramót. Á þeim tíma, um það leyti sem stjórnarskráin barst okkur frá Kristjáni 9. Danakóngi var bannað að skjóta hreindýr eftir áramót. Vitað var að veiðivörðurinn, prófasturinn á Valþjófsstað, vildi kæra verknaðinn. Stefán, ungur að árum, tekur sig til, smíðar og sker út kistil, fer síðan um vorið til eiginkonu prófastsins, Soffíu Emilíu Einarsdóttur, og gefur henni gripinn. Vonast þannig til að geta mildað málsmeðferðina í máli föðurs síns. Prófasturinn sjálfur er lítt hrifinn af þessu tiltæki en frú hans sér strax hvaða hæfileika strákurinn hefur að bera. Enda hefur hún búið um skeið í Cambridge hjá eldri systur sinni, Sigríði, og á þeim tíma verið ein besta vinkona dóttur William Morris sem var stofnandi breska Verkamannaflokksins og ötull talsmaður þess að hefja alþýðulist til vegs og virðingar. Soffía tekur sig til og safnar fé fyrir Stefán svo hann geti komist í nám í útskurði og teikningu í Kaupmannahöfn. Hann fer til Kaupmannahafnar 1890, klárar námið og er strax ráðinn til starfa hjá versluninni og fabrikkunni C.B. Hansen við Kongens Nytorv. Á þessum tíma var C.B. Hansen svipuð verslun og Magasin du Nord í nútímanum. Þar komu ekki aðrir inn en aðallinn og stóreignamenn sem höfðu efni á þeim munum sem voru í boði. Þar sat Stefán og skar út hluti eftir teikningum. Þegar hann fékk sjálfur að ráða notaði hann mikið forn norrænar fyrirmyndir. Hannaði fyrstu hlutabréf Eimskips Goddur, eða Guðmundur Oddur Magnússon, er einn af þekktustu listamönnum landsins og þó einkum sem grafíker. Hann hélt nýlega athyglisverðan fyrirlestur á Óbyggðasetrinu í Fljótsdal. Efnið var m.a. áhrif heiðarbýlanna á Jökuldal á sjónmennt Íslendinga frá upphafi tuttugustu aldarinnar og allt fram á vora daga. Við hittum Godd á núverandi vinnustofu/heimili hans í gömlu áburðarverksmiðjunni í Gufunesi. Húsið sem um ræðir heitir Sýruhúsið og var eitt sinn mikilvægur hlekkur í árburðarframleiðslukeðjunni í Gufunesi. Goddur bendir á listaverkin sem hanga um alla veggi og segir: „Þú sérð að öll verkin hér eru í stíl við nafnið á húsinu,“ segir hann og brosir. Nágrannar hans eru heldur ekki af verri endanum eða kvikmyndafyrirtæki á borð við Kukl, Baltasar er með stúdíó þarna og nýlega var sett á fót sköpunarmiðstöð í næsta húsi á vegum borgarinnar. Goddur telur að 50 til 60 ungmenni séu þegar mætt þar til leiks. Þegar við ræðum við Godd um Stefán Eirksson, strákinn frá heiðarbýlinu, er greinilegt að hann hefur ástríðu fyrir viðfangsefninu. Meðan á samtali okkar stendur er Goddur með fartölvuna sína opna og bregður þar upp ýmsum myndum og upplýsingum sem hann hefur safnað saman um verk Stefáns. Ef við ættum að fara í gegnum það allt væri verið að skrifa þessa grein fram á vor. Eitt af verkum Stefáns eftir heimkomuna frá Kaupmannahöfn var að teikna og hanna fyrsta hlutabréfið sem Eimskip gaf út 1914. Bréfið sem slíkt er afar fallegt miðað við tíðarandann og ef glöggt er gáð má sjá forn norræn áhrif um allt, ekki bara gömlu goðin heldur ýmis drekamótív og fleira. Eitt af verkum Stefáns eftir að hann kom heim frá Kaupmannahöfn og settist að í Reykjavík árið 1898 var að stofna skóla til að kenna útskurð og teikningu (hagnýta grafík). Hann kom að vísu ekki beint til Reykjavíkur því fyrst þurfti hann að sækja sér konu að bænum Fossi í Hofsárdal. Og það gekk ekki þrautalaust. Ekki mann sem tálgar spýtur Goddur segir að meðan Stefán dvaldi í Kaupmannahöfn, og síðar í Leipzig og Berlín, hafi hann verið í bréfaskriftum við Sigrúnu Gestsdóttur, heimasætuna á Fossi. Stóðu þau bréfaskipti í sjö ár. Stefán var ákveðinn í að hún yrði konan sín. „Það vill svo til að hvernig þetta fór kemur fram í tveimur skáldverkum Gunnars Gunnarssonar, Heiðar- harmi og Sálumessu“ segir Goddur.“ En í þessum verkum eru allar persónurnar undir dulnefnum að sjálfsögðu.“ Til að gera langa sögu stutta varð bóndinn, Gestur á Fossi (Brandur á Bjargi hjá Gunnari), lítt hrifinn af bónorði Stefáns (Nonna á Litlalæk). Sagði að hann ætlaði ekki að fara að gifta dóttur sína einhverjum dúdda sem tálgaði spýtur fyrir lifibrauð. Eða eitthvað á þann hátt er samskiptunum lýst. Dóttirin, með hjálp móður sinnar sem taldi að Stefán hefði lykla að hurðum himmnaríkis í fingum sínum, stóð hinsvegar fast á sínu og brátt voru þau orðin hjón. Stefán kemur heim árið 1897 og þau Soffía setjast að í húsi í Grjótagötunni í Reykjavík sem stendur enn. Á neðri hæð húsins kom Stefán sér upp skóla en hann var einnig fengin til að kenna í Iðnskólanum og Kvennaskólanum. Skóla sinn rak hann fram í andlátið 1922. Goddur um Stefán Eiríksson Lagði grunninn að íslenskum sjónmenntum Mynd: FRI

x

Austurglugginn

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Austurglugginn
https://timarit.is/publication/1687

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.