Austurglugginn - 14.08.2008, Blaðsíða 5
Fimmtudagur 14. ágúst AUSTUR · GLUGGINN 5
Múlastofa, sýning og sögustofa til-
einkuð bræðrunum Jóni Múla og
Jónasi Árnasonum, var opnuð á efri
hæð Kaupvangs á Vopnafirði á laugar-
dag. Bræðurnir fæddust á Vopnafirði
og hús foreldra þeirra, Kirkjuból,
stendur þar enn. Dóttir Jóns Múla segir
aðstandendur einstaklega ánægða.
„Ég þori að fullyrða fyrir hönd fjöl-
skyldna bræðranna að við erum
stolt og ánægð með Múlastofu á
Vopnafirði. Það er vel að öllu staðið.
Við þökkum Vopnfirðingum fyrir
að sýna þeim þennan heiður. Ég er
viss um að Kúddi og Lóli, eins og
þeir voru kallaðir þegar þeir áttu
heima hér, hefðu verið ánægðir líka,“
sagði Ragnheiður Gyða Jónsdóttir,
dóttir Jóns Múla, í samtali við
Austurgluggann.
Haldið áfram
Hugmyndir um Múlastofu hafa lengi
verið uppi en aukinn kraftur var
settur í að framkvæma þær árið 2002.
„Hugmyndir um setur til minningar
um þá og til að halda verkum þeirra
á lofti höfðu lengi verið í gangi. Við
réðumst í að fleyta hugmyndinni
áfram og könnuðum hug aðstandenda
þeirra. Við náðum tali af Jóni Múla
sem tók vel í hugmyndina og sagði að
Vopnafjörður ætti ávallt stað í hjarta
sínu,“ sagði Þorsteinn Steinsson,
sveitarstjóri Vopnafjarðarhrepps við
opnunina. Hann sagði að starfsemin
í Múlastofu yrði efld. „Ég er sann-
færður um að hún verður mikil lyfti-
stöng fyrir ferðaiðnað og menningar-
mál á Vopnafirði. Við munum halda
áfram, taka nýja áfanga í notkun og
stefnum að ráða sérstakan starfskraft
að stofunni.“
Þrír fætur alþýðunnar
Björn G. Björnsson hannaði sýn-
inguna. Hann hóf mál sitt á gátu. „Af
hverju smíðaði alþýða manna stóla
sína með þremur fótum en aðall-
inn með fjórum? Svarið er augljóst
- því gólfið hjá alþýðunni var svo
óslétt að fæturnir þrír stóðu betur.
Múlastofa stendur þremur fótum
í jarðvegi alþýðunnar,“ sagði hann
og vísaði til setursins, sýningarinnar
og tónlistarhátíðarinnar, Einu sinni
á ágústkvöldi sem haldin var um
helgina í fyrsta sinn. Bæði hljóð-
og myndmiðlun er ríkulega beitt á
sýningunni. „Það munaði minnstu að
við spiluðum á öll skilningarvitin því
Ragnheiður Ásta ætlaði að lána mér
rakspírann hans Jóns Múla.“
Beðinn um að
syngja lægra
Kristján Möller, samgöngumála-
ráðherra, var nýkominn heim af
ráðstefnu norrænna sveitarstjórna
ráðherra í Finnlandi. „Ég hlustaði á
Papana flytja lög bræðranna í flug-
vélinni á leiðinni heim. Flugfreyjan
kom til mín og bað mig um að syngja
lægra því fólkið aftur í væri að reyna
að fara að sofa,“ sagði Kristján. Hvert
land lagði fram þrjú lög í kvöld-
skemmtun. Einu sinni á ágúst-
kvöldi var meðal þeirra laga sem
Ísland lagði fram. „Það var hressi-
lega tekið undir og gaman að heyra
þessa perlu íslenskra sönglaga flutta
svo fjarri heimabyggð. Ég held að
lagið hafi verið tekið fimm sinnum
um kvöldið og Finnarnir voru orðnir
déskoti góðir í íslenskunni.“
Myndir og texti: GG
Múlastofa opnuð á Vopnafirði
„Kúddi og Lóli hefðu
verið ánægðir líka“
Kristján L. Möller, samgöngumálaráðherra, kom frá Finnlandi kvöldið fyrir opnunina.
Ragnheiður Ásta Pétursdóttir, eftirlifandi eiginkona Jóns Múla, klippti á borða og opnaði Múlastofu formlega.
Glatt á hjalla. Einar Már Sigurðarson og Helga Steinsson skemmtu sér ásamt öðrum gestum.Þingmaðurinn horfir á bræðurna. Björn G. Björnsson leiðsegir Steingrími J. Sigfússyni um sýninguna.