Austurglugginn


Austurglugginn - 05.12.2019, Qupperneq 8

Austurglugginn - 05.12.2019, Qupperneq 8
8 Fimmtudagur 5. desember AUSTUR · GLUGGINN Yfir 90% þeirra nemenda sem útskrifuðust frá Menntaskólanum á Egilsstöðum á árunum 2014- 2016 segja upplifun sína af náminu í skólanum hafa verið jákvæða og þeir geti mælt með skólanum við aðra. Mikil ánægja mælist með spannakerfið í nýrri könnun. „Það vilja allir skólar fá jákvæð viðbrögð á sitt starf og kerfi. Þessi könnun er sjálfsskoðun, við vildum fá fólkið okkar til að meta hvað skólinn hefði gefið því,“ segir Jón Ingi Sigurbjörnsson, sem vann könnunina ásamt Degi Skírni Óðinssyni, en báðir kenna þeir félagsfræði við skólann. Sendur var spurningalisti á stúdentana sem voru 183 árin þrjú. Alls bárust 142 svör sem gerir svarhlutfallið 78%. Þeim var fylgt eftir með viðtölum við 10 nemendur sem endurspegluðu þýðið. Niðurstöður könnunarinnar voru fyrst opinberaðar á 40 ára afmælishátíð skólans í lok október. Í henni var meðal annars spurt út í ánægju með skólann og námið, reynslu af spannakerfi og hvert leið nemenda hefði legið eftir stúdentspróf. Svör voru greind eftir bæði kyni og námsbrautum. Spannakerfið mælist vel fyrir Sem fyrr segir sögðu 94% nemenda upplifun sína af því að vera nemandi í ME jákvæða eða mjög jákvæða og rúm 90% sögðu líklegt eða mjög líklegt að þau myndu mæla með skólanum við einhvern sem væri á leið í framhaldsskóla. Fyrir um áratug var svokallað spannakerfi tekið upp í skólanum. Hver spönn varir í átta vikur og eru nemendur á þeim tíma í færri áföngum en á 16 vikna hefðbundnum önnum. Tæplega 94% svarenda sögðu reynslu sína af spannakerfinu hafa verið jákvæða eða mjög jákvæða. „Þessi ánægja kemur mér ekki á óvart. Við veltum spannakerfinu mikið fyrir okkur áður en við fórum í það. Við sjáum meðal annars í viðtölunum að það hjálpar nemendum sem eiga erfitt með að einbeita sér að ákveðnu viðfangsefni, það er betra að vera í færri áföngum en hlaupandi á milli sex áfanga. Við heyrum hins vegar líka gagnrýni, sem við vorum viðbúin, um að spannakerfið henti ekki ákveðnum þungum áföngum eins og í stærðfræði,“ segir Jón Ingi. Dagur bendir á að nemendum í fjarnámi við ME hafi fjölgað, meðal annars vegna spannakerfisins. Slíkt sé skólanum dýrmætt á sama tíma og nemendum í dagskóla fækki meðal annars vegna styttingu námstíma til stúdentsprófs. Í könnuninni var spurt út í námstíma stúdentanna en þeir hófu allir nám meðan miðað var við fjögurra ára námstíma. Um 45% luku námi á fjórum árum, um 10% á þremur árum og um 20% á þremur og hálfu ári. Um tíu prósent voru fimm ár eða lengur í skólanum. Jón Ingi bendir á að skólar með áfangakerfi, eins og ME, hafi alltaf boðið upp á sveigjanleika í námi og yfirleitt hafi um 10% nemenda útskrifast á þremur árum. Algengur námstími sé enn þrjú og hálft ár þó eftir eigi að meta áhrif styttingarinnar. Hins vegar virðist sem þátttaka nemenda í félagslífi fari dvínandi. Flestir í nám í heilbrigðisvísindum Í könnuninni var spurt út í hvaða leið nemendur hefðu valið eftir stúdentspróf og hversu meðvitaðir þeir hefðu verið um framtíð sína þegar þeir hófu nám í ME. Rúmur helmingur valdi ekki námsbraut með framhaldsnám í huga. Það er þó misjafnt eftir brautum, yfir 60% nemenda á náttúrufræðibraut valdi hana með ákveðið framhaldsnám í huga. Stúdentar af þeirri braut virðast skiptast nokkuð jafnt milli raungreina og heilbrigðisvísinda í framhaldsnámi en nemendur af félagsfræðibraut dreifast mun víðar. Athygli vekur hve mikilla vinsælda nám í heilbrigðisvísindum nýtur meðal stúdenta frá ME. Flestar þeirra stúlkna sem útskrifast frá skólanum, eða rúmur fjórðungur, velur það og það er í öðru sæti á eftir raungreinanámi meðal drengja, en 15% þeirra völdu heilbrigðisnámið. Jón Ingi bendir á að það kunni að hafa áhrif að hægt sé að fara í slíkt nám við Háskólann á Akureyri, bæði í staðar- og fjarnámi. Þetta sé hins vegar breyting því fyrir 20 árum hafi menntavísindi verið vinsælust meðal stúdenta úr ME. „Við framleiddum mikið af kennurum. Það eru allar kennarastofur fjórðungsins fullar af fyrrverandi ME-ingum,“ segir hann. Þrátt fyrir að nemendur hafi ekki vitað hvert þau stefndu þegar þau hófu nám segja yfir 67% að námsleið þeirra í ME hafi undirbúið þau vel eða nokkuð vel fyrir frekara nám. „Framhaldsskólaárin eru mikil mótunarár og eins og kemur fram þá skrá krakkarnir sig oft bara á einhverja braut fyrst,“ segir Jón Ingi. Í viðtölunum var smæð skólans og mikil nánd við kennara, starfsfólk og aðra nemendur nefnd sem kostur. „Yfirgnæfandi meirihluti segir góða hluti um skólann og þetta eru þeir kostir sem flestir nefndu. Sumir töldu spannakerfið útflutningsvöru. Þessar niðurstöður segja okkur að kerfin okkar virki og skólinn standi sig í að undirbúa nemendur fyrir áframhaldandi nám. Hins vegar erum við alltaf í naflaskoðun og ME hefur alltaf verið óhræddur við að fara sínar eigin leiðir,“ segir Jón Ingi. GG Menntaskólinn á Egilsstöðum Yfirgnæfandi meirihluti stúdenta ánægður með námið Mynd: GG

x

Austurglugginn

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Austurglugginn
https://timarit.is/publication/1687

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.