Austurglugginn


Austurglugginn - 05.12.2019, Side 14

Austurglugginn - 05.12.2019, Side 14
14 Fimmtudagur 5. desember AUSTUR · GLUGGINN Vopnafjarðarhreppur stendur í samningaviðræðum við Kolvið um að leggja til land undir skógrækt með það að markmiði að sveitarfélagið verið kolefnishlutlaust. Þá eru hafnar tilraunir í skógrækt og landgræðslu meðfram Selá á vegum Veiðiklúbbsins Strengs til að bæta lífríki laxveiðiáa. Verkefnisstjóri hjá hreppnum segir Vopnfirðinga sýna aukinn áhuga á skógrækt. „Við héldum fund í síðustu viku þar sem við buðum íbúum að ræða ýmis mál varðandi skógrækt, svo sem hvar við viljum hafa skóg og hvar ekki. Þar fengum við meðal annars mjög gott innlegg frá Þresti Eysteinssyni, skógræktarstjóra. Það komu 25 manns, fólk var almennt jákvætt og umræðurnar uppbyggilegar. Mér finnst Vopnfirðingar almennt jákvæðir fyrir skógrækt. Þeir eru alltaf til sem ekki vilja breyta ásýnd lands eða staðargróðri en þeim fækkar. Skilningur á skógrækt hefur aukist. Þetta var líka eitt af því sem kom fram í verkefninu Veljum Vopnafjörð að fólk vildi grænna umhverfi, meiri skóg og skjól,“ segir Else Möller, verkefnisstjóri í skógrækt og garðyrkju hjá Vopnafjarðarhreppi. Hún segir sveitarstjórann, Þór Steinarsson, eiga mikinn þátt í auknum krafti í skógræktinni á Vopnafirði. „Hann skilur mikilvægi þess að byggja upp aðra auðlind hér á staðnum en bara fiskinn og landbúnaðinn. Við getum ræktað land og það er synd að nýta það ekki. Þór skilur líka að það er mikilvægt að hafa sérfræðing á staðnum sem getur ýtt á eftir málum og tekið af skarið.“ Samningur við Kolvið á lokametrunum Else, sem er menntaður skógfræðingur, kom til starfa þann 1. júní. Hún hefur síðan þá unnið með bæði sjálfboðaliðum Seeds og unglingum úr bæjarvinnunni að tiltekt í sveitarfélaginu og skógrækt, með stofnunum og félagasamtökum að umhirðu skóga í hreppnum, að hugmyndum um kolefnisjöfnun í sveitarfélaginu og verkefninu með Streng. Sveitarstjórn Vopnafjarðarhrepps tók nýverið fyrir drög að samningi við Kolvið. Samkvæmt honum leggur hreppurinn til 4 hektara lands undir skógrækt. „Hreppurinn á mikið land sem hægt er að nýta undir skógrækt. Við reiknum með að fara af stað með fjóra hektara en bæta við þegar þörf er á. Hér eru að minnsta kosti 150 hektarar lands í eigu sveitarfélagsins sem hægt er að rækta skóg á. Aðalmarkmiðið er að hreppurinn og fyrirtæki hér geti kolefnisjafnað sig í heimabyggð. Síðan höfum við verið í viðræðum við Brim um kolefnisjöfnun þess fyrirtækis.“ Fleiri bændaskógar í bígerð Else segir að Vopnafjörður henti vel undir skógrækt. „Við erum með frjósamt land, sérstaklega þegar komið er aðeins frá sjónum. Það eru tæp 100 ár síðan Oddný Metúsalemsdóttir byrjaði að rækta tré og runna, fyrst á Bustarfelli og síðan að Ytri-Hlíð, og sýndi hvað væri hægt að rækta hér. Síðan var skógræktin lengi að taka við sér, hér var mikið af sauðfé og nauðsynlegt að girða af svæði þannig að skógur gæti náð sér af stað.“ Vopnafjarðarhreppur er 1.903 ferkílómetrar að flatarmáli og þar af eru 687 ferkílómetrar undir 400 metra hæð. Skógur er á 1.001 hektara láglendis, eða 1,4%. Í dag eru í gildi samningar við Skógræktina um skógrækt á níu jörðum, alls 779 hekturum, en Else segir viðræður í gangi um skógrækt á 5-6 jörðum í viðbót. Bændaskógrækt hófst á Fremri-Nýpum árið 1998 en fimm árum fyrr hófst skógræktar- og landgræðslufélagið Landbót á Vopnafirði handa á Þorbrandsstöðum, sem er jörð í eigu hreppsins. Árið 2005 var samið við Héraðs- og Austurlandsskóga um ræktun þar á 144 hekturum. „Vonandi verður bætt við skógrækt á þeirri jörð,“ segir Else. Hvaða áhrif hefur skógrækt á laxveiðiárnar? Else hefur í sumar starfað með Veiðiklúbbnum Streng að tilraunum með bætt búsetuskilyrði fyrir lax í sex ám á Norðausturlandi. Verkefnið getur orðið hið umfangsmesta í landgræðslu og skógrækt sem unnið hefur verið með einkaaðila hérlendis. Tilraunir hófust með gróðursetningu við Selá í sumar. „Við settum upp tilraun í sumar og erum þar með fjórar tegundir, birki, lerki, loðvíði og gulvíði. Reitirnir eru á mismunandi stöðum í mismunandi hæð meðfram Selá. Meðan þessar plöntur dafna ætlum við að byrja landgræðslu í kringum ána og planta meðfram hliðarám. Markmiðið er að efla lífríkið í ánum og bæta skilyrði fyrir laxinn. Við vitum að það hefur yfirleitt neikvæðar afleiðingar á lífríkið þegar skógar eru fjarlægðir en við vitum minna um hvað gerist þegar skógar eru ræktaðir upp. Vatnið er frekar kalt í ánum, mun til dæmis hlýna í ánum ef trén veita skjól?“ Einnig er horft á leiðir til að græða upp land meðfram ánni. „Landið er illa farið á mörgum stöðum og mikil þörf á uppgræðslu og landgræðslu inn til landsins til dæmis uppi undir Mælifelli. Þar eru nokkrar aðferðir í boði. Þetta eru allt langtímaverkefni en ef hugmyndirnar ganga eftir þá mun þetta skapa mikla vinnu fyrir verktaka og aðra sem tengjast skógrækt og landgræðslu.“ Veiðiklúbburinn, sem er í meirihlutaeigu breska auðkýfingsins Jim Ratcliffe, hefur að undanförnu eignast fjölda jarða í Vopnafirði. „Það er spennandi ef svona maður vill hjálpa landi og þjóð til að bæta landgæði. Hvort hann heitir Jón Jónsson eða Jim Ratcliffe skiptir ekki höfuðmáli í stóra samhenginu,“ segir Else. Fyrsta jólatrjásalan Ráðning Else rennur út um áramótin og bíður hún þessa dagana fregna af því hvort framhald verði á starfinu. Ýmis verkefni eru framundan sem vart næst að ljúka á þessu ári, svo sem að undirbúa frekari gróðursetningu, finna til þess plöntur og starfsfólk og vinna áfram með Streng og Kolviði. Næst á dagskránni er að Landbót ætlar að bjóða Vopnfirðingum að koma í Þorbrandsstaði og velja sér þar jólatré úr skógræktinni. Það verður í fyrsta sinn laugardaginn 14. desember. „Við ætlum að nota ágóðann af sölunni til að kaupa aspir sem í samvinnu við Ungmennafélagið Einherja verða gróðursettar við fótboltavöllinn til að búa þar til skjól,“ segir Else. GG Skógrækt Stefnt að kolefnishlutleysi Vopnafjarðarhrepps Else Möller, verkefnisstjóri skógræktar og garðyrkju á Vopnafirði. Mynd: GG Núverandi skóglendi innan marka Vopnafjarðarhrepps. Mynd: Skógræktin

x

Austurglugginn

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Austurglugginn
https://timarit.is/publication/1687

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.