Austurglugginn


Austurglugginn - 26.11.2020, Side 11

Austurglugginn - 26.11.2020, Side 11
 AUSTUR · GLUGGINN Fimmtudagur 26. nóvember 11 Eitt mikilvægasta hlutverk heimastjórna eða hverfisráða er að koma rödd almennra íbúa á framfæri við sveitarstjórn þannig að hægt sé að bregðast við. Stjórnmálafræðingur segir að áhugavert verði að fylgjast með hvernig heimastjórnir Múlaþings komi til með að þróast. Heimastjórnirnar fjórar innan Múlaþings hafa nú allar fundað einu sinni. Alltaf hefur verið vitað að þetta fyrsta kjörtímabil færi í að þróa og móta heimastjórnirnar. Strax á fyrsta mánuðinum hafa komið atriði sem að einhverju leyti voru fyrirsjáanleg. Skipulagsmál hafa verið fyrirferðamikil á fundum heimastjórnanna og á öðrum fundi heimastjórnar Djúpavogs kom til atkvæðagreiðslu þar sem fulltrúi sveitarstjórnarinnar greiddi atkvæði gegn fulltrúum heimamanna. Miklar væntingar voru gerðar til heimastjórnanna og mátti heyra í aðdraganda sameiningar að þær væru forsenda margra íbúa fyrir að þeir styddu sameiningu. Austurglugginn heyrði í Evu Maríu Hlynsdóttur, dósent við Háskóla Íslands, sem hefur kannað heimastjórnir eða hverfisráð víða um heim og veitti undirbúningsstjórn að stofnum Múlaþings ráðgjöf, til að forvitnast um reynsluna annars staðar frá og hvers mætti vænta af heimastjórnum eystra. Sveitarstjórn heyri hvað brennur á íbúum „Svona heimastjórnir ættu að geta verið staðbundnar málpípur inn í stærra stjórnkerfi þannig að áhyggjur fólks á ákveðnum svæðum séu teknar til greina. Sveitarstjórnin á líka að geta búist við að það sem brennur á íbúum þessa svæðis skili sér til þeirra. Einna mikilvægasti þátturinn er að draga úr þeirri upplifun íbúa að þeir séu jaðarbyggð og rödd þeirra heyrist aldrei. Síðan geta þær haft áhrif á málefni sem byggja á hefðum, menningu eða sérþörfum einnar byggðar en skipta þá sem búa annars staðar minna máli,“ segir Eva Marín. Þetta getur hins vegar leitt til árekstra. Hún útskýrir að þessar séróskir þýði að ekki sitji allir við sama borð í ákveðnum málum. Upp kemur hefðbundin togstreita milli miðstýringar, valddreifingar og jafnréttis sem íbúar landsbyggðanna þekkja oft til í baráttu sinni við ríkisvaldið sem heldur til í höfuðborginni. „Við erum stórt land með fátt fólk og það er dýrt að halda slíku landi uppi. Margt fólk upplifir að skattpeningarnir þeirra séu minna virði út af búsetunni. Það verður hins vegar að hafa það í huga að það er alveg jafn erfitt fyrir þann sem býr á Djúpavogi að borga útsvarið og þann sem býr á Egilsstöðum,“ segir Eva Marín. Lykilatriði að íbúarnir velji sína fulltrúa Heimastjórnirnar eða hverfisráð eru í fræðunum flokkaðar sem stjórnvald undir sveitarfélögunum eða „sub-municipal governance“ á ensku. „Við erum með einingar innan sveitarfélaganna sem hafa áhrif yfir afmörkuðu landssvæði innan sveitarfélagsins, en er ekki sjálfstætt stjórnvald með einræði yfir viðkomandi landssvæði. Heimastjórnin er ekki stjórnvald í skilningi þess hugtaks þótt sveitarstjórn feli henni vald eða verkefni,“ útskýrir Eva Marín. Hún segir lykilatriði að hverfisráðunum sé stjórnað af fulltrúum sem eru lýðræðislega kjörnir af íbúum og bera þá einhverja ábyrgð gagnvart þeim. Slík er reyndin í Múlaþingi en afar misjafnt er hvernig að þessu er staðið. „Í Póllandi ákveða borgarstjórnirnar hvernig kosið er í þessi ráð,“ segir hún. Reynslan erlendis frá Að halda úti hverfisráðum eftir miklar sameiningar sveitarfélaga þekkist víða um heim og nefnir Eva Marín meðal annars dæmi frá Grikklandi, Þýskalandi, Bretlandi og Nýja-Sjálandi. Alls staðar virðist valddreifingin verða stærsta úrlausnarefnið. „Í Grikklandi var gengið langt í að útfæra svona undireiningar í sameinuðum sveitarfélögum. Í rannsóknum sem ég hef séð þaðan var kvartað yfir valdabaráttu milli nýju sveitarstjórnarinnar og þessara undireininga. Fulltrúar í heimastjórnunum upplifðu að það væri litið á þá sem annars flokks fulltrúa, jafnvel innan stjórnsýslunnar þar sem þeir fengu ekki eðlilega fyrirgreiðslu. Þeir kvörtuðu líka yfir tregðu hjá yfirstjórn sveitarfélagsins að láta af hendi verkefni, einkum lokaákvarðanir. Þetta virðist þó ekki hafa verið alslæmt. Íbúarnir virtust þokkalega ánægðir. Þótt heimastjórnin væri í reynd frekar táknræn en raunverulegt valdatæki styrkti hún sjálfsmynd þeirra. Nýsjálendingar endurskipulögðu sveitarstjórnarstigið frá grunni fyrir 25 árum og stækkuðu sveitarfélögin en héldu þó í svona einingar. Sú gagnrýni sem ég hef séð þaðan var að það hefði aukið flækjustigið á sveitarstjórnarstiginu, meðal annars því kjósa þurfti sérstaklega í sveitarstjórn annars vegar og hverfisráð hins vegar. Í Þýskalandi er hefð fyrir þátttökustjórnmálum og þar eru hverfisráðin ein birtingarmynd þess að draga fleiri að borðinu. Gagnrýnin þar er að hverfisráðin hafi tilhneigingu til að verða rökræðuklúbbar þeirra sem þangað veljast inn sem oft er gamla elítan í samfélögunum, eldri karlar sem njóta virðingar. Í Bretlandi er við lýði nefndakerfi sem byggir á gömlu sóknunum. Ég hef heyrt á fólki sem ég kannast við úr svona einingum að þau slást oft við yfirstjórnina um að fá peninga fyrir verkefnum sem þeim er falið að vinna að og eru þá farin að lobbýa fyrir þeim inni í aðalsveitarstjórninni.“ Íslensk sveitarfélög sjálfstæð Á Íslandi er það svo að lagalega hefur sveitarstjórn alltaf lokaorðið um að staðfesta gjörðir heimastjórnar. Slíkt getur valdið ágreiningi. „Hættan er alltaf sú að ekki gangi allir í takt. Ef heimastjórninni eru falin verkefni sem geta orðið til þess að hún ákveður eitthvað sem stangast á við stefnu sveitarstjórnar geta komið upp vandræði. Í svona hverfisráðum er líka hætta á að upp komi NIMBY-ismi (stendur fyrir „not in my backyard“), þar sem ætlast er til að aðrir taki eitthvað erfitt en nauðsynlegt að sér.“ Þessi vandamál skjóta þó upp kollinum víðar en innan stakra sveitarstjórna og bendir Eva Marín á að íslensk sveitarfélög séu tiltölulega sjálfstæð. „Íslenska ríkið fylgir því ekki fast eftir í mörgum stefnumálum að sveitarfélögin fari eftir hennar stefnu. Við færum verkefnin til þeirra þannig að þau geti unnið á sjálfstæðan hátt meðan annars staðar þekkist að þótt verkefnunum sé dreift hafi sveitarfélögin ekki mikið að segja um útfærsluna.“ Hérlendis þekkjast hverfisráðin aðallega innan Reykjavíkurborgar. Eva Marín bendir þó á að þar, sem í erlendum stórborgum, séu mörk hverfanna ógreinilegri heldur en í Múlaþingi þar sem fjallgarðar og forsagan myndi mörkin. „Kosturinn við þetta, og ástæðan fyrir að þetta er gert, er að þá minnka líkurnar á að fólk, hvort sem það býr í stórborgum eða landfræðilega stórum sveitarfélögum, upplifi firringu, það er að sambandið rofni.“ Engin ástæða til að ætla annað en vel takist til Eva Marín segir að áhugavert verði að fylgjast með hvernig gangi með heimastjórnirnar í Múlaþingi og þeim áskorunum sem þær virðist þegar vera byrjaðar að lenda í. „Eitt er að gefa nefndunum vald til að stjórna hlutum eins og skipulagi en annað að drekkja þeim í forminu. Hættan er að starfið verið tæknilegt, flókið og erfitt þannig að þetta staðbundna detti út. Það er ekki það sem fólkið sækist eftir. Maður sér frá öðrum löndum að það verður að forðast að búa til þannig kerfi að togstreita myndist milli hverfisstjórnar og sveitarstjórnar. Auðvitað verða fulltrúar þeirra ekki alltaf sammála en það er mikilvægt að kerfið leiði ekki sjálfkrafa til átaka. Ég hef trú á að þetta eigi eftir að slípast til þegar reynslan kemur. Þetta er spennandi tilraun sem er vel þess virði að skoða og engin ástæða til annars en að hún muni ganga vel. Af hverju eiga þessar heimastjórnir ekki að geta gengið rétt eins og hverfisráðin í Reykjavík sem hafa verið til lengi?“ GG Eva Marín Hlynsdóttir, dósent í stjórnmálafræði. Mynd: Háskóli Íslands/Kristinn Ingvarsson Heimastjórnir málpípur íbúa inn í stærra stjórnkerfi Sveitarstjórnarmál

x

Austurglugginn

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Austurglugginn
https://timarit.is/publication/1687

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.