Morgunblaðið - 02.09.2022, Qupperneq 21

Morgunblaðið - 02.09.2022, Qupperneq 21
MINNINGAR 21 MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 2. SEPTEMBER 2022 þótt hann væri ekki alltaf í takti við Geirfuglakórinn, eða kórinn við hann. Hann var og frumkvöðull í læknisstörfum sínum. Við erum að kveðja góðan vin og skemmtilegan félaga með söknuði. Við vottum öllum ættingjum og vinum Sigurgeirs djúpa samúð. Ingunn og Högni. Að hafa átt Sigurgeir fyrir vin er dýrmæt gjöf. Við Sigurgeir út- skrifuðumst úr læknadeild á hvor á sínu árinu, 1964 og 1965, og fórum báðir til sérnáms í Bandaríkjunum. Sigurgeir og Halla komu í heim- sókn til okkar Jónu í Rochester, Minnesota. Síðar áttum við Sigur- geir eftir að starfa saman á Landa- koti í áratug þegar heim var komið. Landakot var mjög sérstakur vinnustaður. Hver og einn fann til mjög persónulegrar ábyrgðar gagnvart sjúklingum sínum. Það lét enginn vakthafandi lækni ráða fram úr vandræðum ef einhver voru eftir að svokallaðri dagvinnu lauk. Við vorum þrír sem deildum með okkur bráðavöktum, og eðli málsins samkvæmt þurfti oft að grípa til bráðra aðgerða að næt- urlagi, og stundum var ekki alveg ljóst hvernig best væri að halda áfram eftir að kviður hafði verið opnaður. Það kom fyrir að ég hringdi í Sigurgeir um miðja nótt og ræddi við hann um vandamál sem ég stóð gagnvart með opinn kvið sjúklings og 4. árs læknanema sem aðstoðarmann. Við ræddum besta framgangsmáta á lausn verksins og við kvöddumst í síman- um. Ég hélt áfram verki. Eftir ótrúlega skamma stund fann ég heitan andardrátt á bak við mig og heyrði að sagt var „viltu að ég skrúbbi mig og rétti þér hjálpar- hönd“. Hér var Sigurgeir kominn og þannig var hann alla tíð, hjálp- samur og var í raun sama hvert verkefnið var. Sigurgeir var ekki sporlatur maður, hann hefði líka hlaupið til og grafið með þér skurð ef það hefði verið eitthvað sem þú stóðst í við sumarbústað eða heimili. Sig- urgeir var virkur þátttakandi á þingum Skurðlæknafélags Íslands, gegndi formannsstarfi í félaginu og varð heiðursfélagi Skurðlækna- félags Íslands á 50 ára afmæli fé- lagsins árið 2007. Utan starfa okkar á Landakoti áttum við Jóna margar góðar stundir saman með þeim hjónum, Höllu og Sigurgeir. Fórum við oft saman í góðra vina hópi á skíði í Hlíðarfjalli á Akureyri eða í Ölp- unum í Austurríki og þar var oft farið dálítið hraðar en færnin leyfði, en ef til vill var það hluti af ánægjunni að standa niður krefj- andi brekku. Fyrir Sigurgeir voru áskoranir, hvort sem var í leik eða starfi læknis, eitthvað sem hann tókst á við af einurð og fullum krafti eins og áföll síðar í lífinu sjálfu. Í október 2007 var friðarsúla í minningu John Lennons vígð í Við- ey, en þetta var örlagadagur fyrir vin minn Sigurgeir. Þann dag var hann að huga að húsi sem hann var að byggja í Kópavogi. Sigurgeir féll af annarri hæð hússins og lenti á bakið ofan á malarkamb og hlaut alvarlegan skaða á hrygg og mænu, lamaðist frá mitti og var háður hjólastól upp frá því. Jafnaðargeð Sigurgeirs var mikið, aldrei heyrði ég hann tala af beiskju um þetta hlutskipti sitt né varð hann meir í okkar samtölum. „Ég tek þessu eins og það er,“ sagði hann snemma í okkar sam- tölum og tók síðan þátt í öllu sem aðstæður hans leyfðu, ók rafstól til að komast á fundi hjá Öldunga- deild lækna eða keyrði sérútbúinn bíl ef veður voru válynd eða vega- lengdir langar. Síðustu æviár sín átti Sigurgeir með þriðju konu sinni, Jóhönnu. Sigurgeir var lamaður og Jóhanna var ekkja þegar þau hófu sinn bú- skap. Þau vissu bæði að hverju þau gengu. Þegar Sigurgeir fékk erfið legusár annaðist Jóhanna Sigur- geir af mikilli natni og umhyggju og skapaði þeim báðum gleði- stundir inn á milli erfiðari tíma. Sigurgeir gaf af sér, og það voru forréttindi að vera vinur Sigur- geirs. Meira á www.mbl.is/andlat Sigurður E. Þorvaldsson, Jóna Þorleifsdóttir. Traustur vinur til margra ára, Sigurgeir Kjartansson, er látinn, hefur skipt um íverustað. Í huga mínum er þakklæti fyrir fjölmarg- ar góðar stundir sem við, fjöl- skylda mín og ég, áttum með Sig- urgeiri, hans góðu konu Höllu og börnum þeirra, Elínu og Aðal- steini. Kunningsskapur okkar, sem þróaðist upp í vináttu, hófst fyrir tilviljun laugardagsmorgun einn þegar Sigurgeir hafði farið með börn sín ung, rétt eins og ég með son minn ungan, til að skoða sig um. Við hittumst þarna í leik- fangabúð í Boston. Á þessum ár- um bjuggu fjölskyldur beggja á þessum slóðum. Samskipti okkar voru mikil og góð, vináttan varð traust og gef- andi. Oftar en ekki var Sigurgeir sá sem gaf, veitti okkur af mikilli þekkingu sinni og færni. Mig lang- ar enn einu sinni að þakka honum alla samúð og hjálp sem hann veitti okkur þegar heilsa eigin- manns míns bilaði. Síðustu æviár Sigurgeirs voru honum mótdræg, missir mætrar eiginkonu og alvarlegt slys sem hann varð fyrir. Þessu mótlæti mætti hann með aðdáunarverðu jafnaðargeði og hugprýði. Við börnin mín þökkum Sigur- geiri samfylgdina og sendum börnum hans og fjölskyldu inni- legar samúðarkveðjur. Bryndís Víglundsdóttir. Látinn er kær vinur, samstarfs- maður og félagi, Sigurgeir Kjart- ansson skurðlæknir, eftir margra ára glímu við ýmis veikindi sem mörg voru afleiðingar slyss. Kynni okkar Sigurgeirs hófust fyrst þeg- ar ég kom 1984 sem skurðlæknir til sumarafleysinga á Landakots- spítala, en ári síðar var ég fastráð- inn skurðlæknir þar. Það kom fljótt í ljós að við áttum mjög auð- velt með að starfa saman. Hann tók mér strax sem félaga og jafn- ingja þótt reynsla hans í almenn- um skurðlækningum væri meiri, enda hafði ég starfað í öðrum geira síðustu 8-9 árin. Samstarfið þróaðist svo þannig að við gerðum að heita má allar stærri aðgerðir sem einn maður og fjölgaði þeim jafnt og þétt þau 10 ár sem við unnum þarna saman eða þangað til Landakoti var lokað sem almennu og bráðasjúkrahúsi. Við gerðum til að mynda minnst jafnmargar stórar æðaaðgerðir og Landspítalinn. Okkur tókst að tak- ast á við mjög breitt svið skurð- lækninga vegna mismunandi bak- grunns okkar og unnum mjög vel saman. Sigurgeir var framsækinn, far- sæll og góður fagmaður í sínu starfi og var fyrstur til að gera kviðarholsaðgerðir með speglun- artækni á Íslandi eftir að hafa út- vegað sér tæki og aðbúnað til þess. Ekki vantaði heldur atorkuna og dugnaðinn, en sögur voru um að hann hefði gengist í að skúra gólfið á skurðstofunni milli aðgerða til að spara tíma og því nánast fengið á sig kæru frá viðkomandi stéttar- félagi fyrir að fara út fyrir sitt verksvið! Þetta voru mjög skemmtilegir og spennandi tímar sem ég mun alltaf minnast. Þegar Landakotsspítala var svo endanlega lokað breyttist okkar samband, því ég fór í fulla vinnu á Landspítala við Hringbraut á hjarta- og lungnaskurðdeildinni þar sem ég var áður í hálfri vinnu, en Sigurgeir fluttist á Landspítal- ann í Fossvogi á almennu skurð- deildina. Við vorum þó alltaf í góðu sam- bandi og þegar Sigurgeir hringdi í mig og spurði hvort ég hefði hug á að kaupa með honum og þremur öðrum góðum félögum seglskút- una Mílu þurfti ég ekki langan um- hugsunarfrest. Þá hófst nýr kafli í okkar félagsskap með siglingum og oft var kastað út línu til fisk- veiða þótt árangurinn væri mis- jafn. Á því varð auðvitað mikil breyt- ing þegar hann varð hjólastóls- bundinn eftir slysið, en hann tók á þeirri lífsreynslu með ótrúlegum styrk og æðruleysi. Við fórum þó áfram í allnokkrar siglingar sam- an, hann var bara hífður um borð, settur fastur og síðan siglt! Við Sigurgeir höfum átt margar góðar spjallstundir síðustu árin um heima og geima og samstarfsárin okkar á Landakoti og aldrei borið skugga á okkar góðu vináttu og fé- lagsskap. Við Rannveig sendum Jóhönnu og allri fjölskyldu Sigurgeirs okkar innilegustu samúðarkveðjur og megi minning ykkar um góðan dreng styrkja ykkur í sorginni. Þórarinn Arnórsson og Rannveig Þorvarðardóttir. Okkur langar til þess að minn- ast Sigurgeirs í fáeinum orðum. Við kynntumst honum vel hin síð- ustu ár, eftir að hann giftist síðari konu sinni, henni Hönnu, og þau dvöldu oft í húsi sínu, Sólvöllum, á Hvammstanga. Við hittum þau fyrir um mánuði og var hann þá hress. Því kom það á óvart að fá upphringingu um að hann væri fallinn frá. Sigurgeir var áður þekktur skurðlæknir, fyrir færni sína í þeim málum og með þeim albestu á landinu og var einna fyrstur til að tileinka sér nýjungar með holsjár- tækni, sem kom fram á þeim tíma. Hefur hann bætt og lagfært heilsu fjölda manns og var jafnan svo, að ef hann tók að sér aðgerð, þá þótti vel skipað og bati vís. Var því tilvalið nafn á æviminn- ingabók hans „Sigurgeir skar- ’ann“, en svo var jafnan haft á orði um aðgerðir hans sem tókust vel og var álitið nokkurs konar ábyrgðartrygging. Hann var áður fyrr í skamman tíma eftir próf 1965 starfandi sem aðstoðarlæknir hjá Sigursteini á Blönduósi og þótti góður og flinkur við allar aðgerðir sem hægt var að gera þar og bættu heilsu og líðan fjölmargra. Sem læknir í víðlendu bænda- héraði kom fyrir að hann var beð- inn að líta á búfé, sem tókst mjög vel hjá honum, enda hafði búskap- ur alltaf blundað með honum sem sveitamanni úr Mýrdalnum, en forlögin höfðu annað í huga. Eftir að við fluttum norður í bú- skap barst stundum í tal við bænd- ur þar að þeir minntust á það að svona ættu læknar að vera; geta bæði sinnt mönnum og málleys- ingjum. Nú er þvíumlíkt löngu liðið, enda komnir dýralæknar. Við hjónin þökkum Sigurgeiri fyrir góð kynni og sendum öllum aðstandendum innilegar samúðar- kveðjur. Því miður höfum við ekki tök á því að mæta við útförina, sem fer fram frá Bústaðakirkju. Hlíf og Agnar. Í dag kveðjum við félaga okkar og vin til margra ára, Sigurgeir Kjartansson, sem við bundumst vinaböndum í litlu „Íslendinganý- lendunni“ í Nýja-Englandi í lok sjöunda áratugar síðustu aldar. Kynnin hófust skömmu eftir að Halla og Sigurgeir komu til Wor- cester í Massachusetts árið 1966. Smá pakki að heiman, sem þurfti að koma til skila til Sigurgeirs, varð til þess að gott samband myndaðist og ævilöng vinátta fylgdi í kjölfarið. Ferðir okkar og annarra í nýlendunni til Worcester urðu margar í áranna rás enda voru þau hjón vel í sveit sett og höfðingjar heim að sækja. Það eina sem skyggði á var að Sigurgeir var jafnan á löngum og erfiðum spít- alavöktum. En alltaf fann hann stund til að hitta gesti til að spjalla og hyggja að læknisfræðilegum þörfum þeirra, ef því var að skipta. Enda ástríðufullur að hjálpa vin- um sínum á því sviði ekki síður en öðrum og það átti ekki síður við um Höllu. Þau voru ófá vanda- málin sem þannig voru leyst í heimsóknum til Worcester auk þess að njóta samveru við gott fólk. Það hélst áfram þegar aftur var snúið til fósturjarðarinnar. En Sigurgeir var ekki aðeins boðinn og búinn að hjálpa vinum sínum. Það átti einnig við um óskylda. Minnisstæð er ferð til Gloucester sumarið 1968, þegar ís- lensk fiskiskip voru gerð út frá þessum sögufræga stað. Þar hitti Sigurgeir fyrir íslenskan sjómann, sem hafði orðið fyrir handarmeini við störf sín um borð. Skipti eng- um togum að hafin var aðgerð á hendi viðkomandi í þröngum messanum á skipinu. Tókst hún vel enda flinkur skurðlæknir að verki. Ekki liðu margir dagar þar til viðkomandi var kominn á vakt- ina og farinn að draga fisk úr sjó. Síðar skipulagði Sigurgeir heim- sókn sér ókunnugs manns austan af Héraði, sem kom til Boston til að leita lækninga við blindu, leið- sagði honum og virkjaði Íslend- inga á svæðinu til að leggja hönd á plóginn. Fyrir um fjórum áratugum ákvað hópur vina, Halla og Sigur- geir þar með talin, að verja einni viku á sumri hverju til ferðalaga um landið. Í mörg ár lögðu Geir- fuglarnir land undir fót og upplifðu töfra og stundum vosbúð Íslands. Síðar var haldið í gönguferðir í Evrópu. Á þessum tímamótum koma upp í huga okkar Geir- fuglanna atburðir frá liðnum ár- um, sem skýra þá mynd sem við höfum gert okkur af Sigurgeiri. Í huga okkar kemur fram hugljúf mynd af einstökum manni, bros- hýrum, spaugsömum, hjálpsöm- um, miklum dýravini og áköfum í öllu sem hann tók sér fyrir hendur hvort sem það voru silungsveiðar eða siglingar. Síðast en ekki síst var Sigurgeir læknirinn, sem hafði mikla tilfinningu og samkennd með öllu lifandi, bæði mönnum og dýrum, og var þrautseigur á raunastund. Hann var frábær ferðafélagi og vinur. Oft er erfitt að lýsa góðum manni með fáum orðum en við munum varðveita þau með okkur svo lengi sem við lifum. Við Geirfuglarnir vitum að harmur Jóhönnu, Aðalsteins og Elínar og fjölskyldna þeirra er mikill við fráfall Sigurgeirs. Hugur okkar er með þeim á þessari stundu og við biðjum að ljúfar minningar um Sigurgeir veiti þeim styrk. Þorgeir og Anna, Geir og Kristín. Kvaddur er í dag góður vinur og merkur læknir Sigurgeir Kjart- ansson. Mér eru efst í huga sam- skipti yfir árin, hjálpsemi og gam- ansemi. Kynni okkar hófust á námsár- unum. Við Sigurgeir í læknisfræði, Halla kona hans í tannlækningum og Heiður kona mín kenndi. Þau Halla bjuggu á Leifsgötunni. Við Heiður á Skeggjagötu. Heimsókn- ir og barnagæsla voru gagnkvæm. Halla og Sigurgeir fylgdu okk- ur við brottför í ársbyrjun 1966 þegar haldið var til sérnáms í Bandaríkjunum og við tókum á móti þeim við komu þeirra til Bandaríkjanna og ókum upp í Worcester í Massachusetts, þar sem Sigurgeir hóf sitt sérnám og Halla aflaði sér frekari reynslu í tannlækningum. Sigurgeir lauk síðan sérnámi sínu með stöðu á Massachusetts General Hospital, einu fremsta sjúkrahúsi í Banda- ríkjunum. Sigurgeir tók myndir af skírnarathöfn Sigrúnar dóttur okkar og varð guðfaðir hennar. Ég varð svo fyrstur til að taka myndir af Elínu dóttur þeirra nýfæddri í fangi móður sinnar. Ásamt þriðju læknisfjölskyld- unni var farið í útilegur í ríkisgarð í Connecticut. Sigurgeir spaugaði oft með að hann væri bara hand- laginn sveitastrákur. Á æskuárum var hann í símavinnu og klippti hár vinnufélaga. Ég naut þessarar snilli hans einu sinni í útilegu. Minnugur fornra gamansagna um uppruna skurðlækninga bauð ég honum að gera honum skilti sem auglýsti hárskurðinn og skurð- lækningar. Hann var fljótur að gera mér gagntilboð. Afstaða Sigurgeirs til tóbaks var skemmtilega mótsagnakennd. Hann varð snemma andsnúinn sígarettureykingum en þótti sjálf- um viðhöfn að fá stöku sinnum tóbakskorn í nös. Foreldrar mínir komu eitt sinn í heimsókn og ætl- aði faðir minn að leggja af neftób- aksneyslu en varð fljótlega við- þolslaus. Sigurgeir nánast hljóp um alla Boston til að finna tóbak sem væri nefi föður míns þóknan- legt. Við hjónin og börn dvöldum lengur vestra en Sigurgeir og Halla. Að sjálfsögðu voru keypt heimilistæki og send með skipi til Íslands. Vorum við fjölskyldan síð- an í nokkrar vikur á ferðalagi um Bandaríkin áður en haldið var heim. Sigurgeir hafði þá óumbeðið komið öllu okkar dóti upp á aðra hæð í íbúð okkar í fjölbýlishúsi. Eftir heimkomu héldust áfram heimsóknir og ferðalög. Sú hefð myndaðist að á gamlárskvöld var haldið á „Langó“ til Höllu og Sig- urgeirs og áramótum fagnað. Halla lést árið 2002 og var öllum harmdauði. Sigurgeir giftist síðar Hildi Stefánsdóttur. Þau hófu húsbygg- ingu í Kópavogi. Sigurgeir varð þá fyrir því óláni að detta af vinnu- palli og hryggbrotna illa og lamast neðan mittis. Eftir endurhæfingu náði hann aftur að aka bíl og gat tekið þátt í ferðalögum hópsins innanlands sem utan. Síðar komu upp alvarlegir fylgikvillar sem gerðu umönnun erfiða og kröfðust frekari aðgerða. Þau Hildur skildu. Leiðir hans og Jóhönnu Hall- dórsdóttur æskuvinkonu lágu síð- ar saman og þau giftust. Jóhanna annaðist Sigurgeir af miklum dugnaði og alúð og gerði honum kleift að búa heima í eigin húsi til æviloka. Ég votta Jóhönnu aðdáun mína og öllum ættingjum samúð okkar hjóna. Þessa minnisstæða litríka samferðamanns verður sárt sakn- að. Birgir Guðjónsson. Kveðja frá Skurðlæknafélagi Íslands Genginn er mætur maður og skurðlæknir, Sigurgeir Kjartans- son, sem sárt verður saknað. Hann var einn af reyndustu skurðlækn- um landsins og hefur komið að þjálfun flestra skurðlækna sem nú eru starfandi. Hann var fær í höndunum og handbragði við skurðaðgerðir og hefur verið einn allra fjölhæfasti skurðlæknir landsins. Sigurgeir var fyrsti æðaskurðlæknirinn á Ís- landi og kom að og framkvæmdi margar nýjungar við aðgerðir á ís- lenskum sjúklingum, fyrst á Landakoti, en síðar á Borgarspít- alanum og Landspítalanum. Árið 1990 komst hann í kynni við alveg nýja tækni við aðgerðir í kviðarholi, svokallaðar holsjárað- gerðir (laparoscopy), á alþjóðlegu skurðlæknaþingi í Bandaríkjun- um. Þessa tækni vildi Sigurgeir taka hingað til lands, en erfiðlega gekk að fá fjárveitingu til kaupa á búnaðinum. Með harðfylgni sinni og hjálp Rauða krossins tókst hon- um að kaupa það sem þurfti og gerði í framhaldinu fyrstu gall- blöðrutöku landsins með þessari nýju tækni. Í framhaldinu fór hann að taka botnlanga, æxli og ýmislegt annað í kviðarholi. Áður en hann framkvæmdi fyrstu hol- sjáraðgerðina æfði hann sig í myrkvuðu skoti, gerði göt á tóman pappakassa og kroppaði í slátur- stykki. Sigurgeir varð stúdent frá Menntaskólanum á Laugarvatni 1958 og fór eftir það í læknisfræði við Háskóla Íslands. Þetta var fyr- ir tíma námslána og fjármagnaði hann námið með símamastravinnu og sjómennsku. Að læknanámi loknu hélt hann til frekara náms í Worchester í Massachusess í Bandaríkjunum, þar sem hann fékk þjálfun í almennum skurð- lækningum og síðar æðaskurð- lækningum í Boston. Heim til Ís- lands flutti hann 1972 og tók þá við stöðu skurðlæknis við Landakots- spítala, þar sem hann starfaði í 25 ár. Hann var dósent í klínískri handlæknisfræði við HÍ 1977-94. Fyrir allmörgum árum síðan féll Sigurgeir af stillansa í vinnu á frítíma og var bundinn við hjólastól eftir það. Það hindraði hann þó ekki að sækja ráðstefnur og fundi Skurðlæknafélags Íslands þar sem hann tók virkan þátt í félagsstarfi þar til fyrir örfáum árum. Sigurgeir var yfirleitt skýr í ráð- um sínum til yngri kollega: „Dóm- greind og handverk eru mikilvægir eiginleikar í skurðlækningum, og munið að sumum fer betur að vinna með höndunum – heldur en alfarið með heilanum.“ Skurðlæknafélag Íslands þakk- ar Sigurgeiri samfylgdina og þátt hans í framþróun skurðlækninga á landinu. Andri Már Þórarinsson ritari Skurðlækna- félagsins. Enn kveður einn af gömlu skólafélögunum frá ML, Sigurgeir Kjartansson, kollega og vinur. Með honum er mikill forkur fallinn frá. Sigurgeir var góður námsmað- ur og óragur við að takast á við hlutina og sóttist því læknanámið við HÍ vel og ekki síður sérfræði- nám í skurðlækningum í BNA. Gat sér strax góðan orðstír sem skurð- læknir við Landakotsspítalann vegna færni og atorkusemi og var alltaf fljótur til hjálpar ef til hans var leitað, eins og eftirfarandi saga segir: Soffía dóttir okkar, þá senni- lega sjö ára gömul, var í heimsókn hjá ömmu sinni og afa sem bjuggu á Bárugötunni í Reykjavík. Hún veiktist snögglega með kviðverkj- um og ógleði. Ég varð auðvitað áhyggjufullur, búandi norður í landi. Hringdi í minn gamla skóla- bróður, Sigurgeir, og bar upp áhyggjur mínar. Og auðvitað varð hann strax við bón minni, skokkaði frá Landakoti niður á Bárugötuna. Og eftir skoðun á Soffíu tók hann hana í fangið og bar hana upp á Landakotsspítala. „Og varstu ekki óttaslegin?“ spurði ég Soffíu mörg- um árum seinna. „Nei, ég fylltist frekar öryggi og leið vel í fanginu á honum Sigurgeir,“ var svarið. Og botnlanginn var fjarlægður án taf- ar. Gott er að eiga góða að. Því miður gengu hlutirnir ekki eins hratt fyrir sig þegar Sigurgeir lenti í botnlangabólgu 40 árum seinna, en það er önnur saga. Sigurgeir var nánast með fullt starfsþrek þegar hann lenti í alvar- legu slysi 69 ára að aldri, en eftir það var hann lamaður neðan mittis og bundinn við hjólastól. Það var sárt að fylgjast með þessum atorkumanni svo illa fötluðum. En vorkunnsemi hentaði Sigurgeir ekki og hann tókst á við þennan nýja veruleika af sinni alkunnu karlmennsku, lét fátt stoppa sig. Sinnti ættingjum og vinum sem áð- ur og t.d. voru fáar Laugvetninga- ferðirnar sem hann lét sig vanta í, jafnvel þótt um öræfaferðir væri að ræða. Sneri sér að öðrum við- fangsefnum þegar dró úr líkam- legu þreki og skráði þá ævisögu sína. Þar sýndi hann bæði næga djörfung og einlægni til að lýsa hlutunum eins og þeir komu hon- um fyrir sjónir, engin skrúðmælgi eða tvíræðni. Ekki öllum gefið að „expónera“ sjálfan sig á þennan hátt. Sannarleg þakkarvert. Með Sigurgeiri er góður dreng- ur og mikill kappi fallinn frá. Minn- ing hans mun lifa. Við Kata vottum Jóhönnu, börn- um Sigurgeirs og öllum nákomn- um okkar dýpstu samúð. Gísli G. Auðunsson.

x

Morgunblaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.