Morgunblaðið - 29.10.2022, Blaðsíða 38

Morgunblaðið - 29.10.2022, Blaðsíða 38
MENNING38 MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 29. OKTÓBER 2022 Kannski dettur vinum þínum og vandamönnum sjaldan í hug að gera eitthvað fyrir sjálfa sig þó að þeir eigi það svo sannarlega skilið. Þá er tilvalið að gefa þeim Óskaskrín. Skoðaðu úrvalið af skrínum á vefsíðu okkar, oskaskrin.is. Fæst í Pennanum Eymundsson, Hagkaup og á oskaskrin.is. 577 5600 | info@oskaskrin.is | oskaskrin.is TÖFRAR ÓSKASKRÍNS – FELAST Í UPPLIFUN TIL AÐ NJÓTA Flytja verk Sjostakovitsjs og Dohnányis Á tónleikum á dagskrá Sígildra sunnudaga í Norður- ljósasal Hörpu, á morgun klukkan 16, mun hljóma kammertónlist fyrir píanó, strengi og blásara eftir Sjostakovitsj og Dohnányi. Í tilkynningu segir að flytjendurnir séu allir virkir á hinum ýmsu sviðum íslensks tónlistarlífs og koma saman til að leika tónlist fulla af krafti og húmor. Flutt verða tvö kraftmikil kammerverk sem ekki hafa verið flutt oft á Íslandi á síðustu árum. Eftir að hafa unnið náið með færustu strengjakvartettum Sovét- ríkjanna samdi Sjostakovitsj sinn eina píanókvintett til að hafa verk til að spila með þeim sjálfur. Verkið er innhverft og íhugult, algjör andstæða sextetts Dohnányis sem fluttur verður eftir hlé. Hann sótti innblástur allt frá Brahms til djass en er með fágæta hljóðfæraskipan sem gerir tónlistina sérstaklega litríka. Dimitri Sjostakovitsj Pierre Soulages látinn, 102 ára gamall Franski myndlistarmaðurinn Pierre Soulages er látinn, 102 ára að aldri. Soulages hefur síðan ummiðja síðustu öld verið meðal dáðustu listamanna Frakka og iðulega nefndur í hópi helstu myndlistarmanna samtímans. Lengst af sínum ferli málaði hann abstraktverk og aðeins með svörtum litum, verk sem nutu hylli, jafnt meðal almennings sem safnara. Rómuð sýning á grafík- verkum Soulages var sett upp í Listasafni Íslands árið 1988. Fyrir átta árum var opnað í fæðingarbæ Soulages, Rodez í Suður-Frakklandi, safn um líf hans og feril. Listamaðurinn gaf yfir 500 myndverk frá öllum ferlinum til safnsins, þar á meðal fjölda verka sem listfræðingar telja til lykilverka frá ferlinum. Soulages sýndi myndverk sín fyrst árið 1947 og vöktu þau strax mikla athygli og á næstu árum voru settar upp sýningar með verkum hans víðar í Evrópu. Frá því um 1950 vann hann nær eingöngumeð svarta liti. Virtur Soulages við opnun sýningar- innar í Listasafni Íslands árið 1988. Elva Dögg Hafberg Gunnarsdóttir frumsýnir uppistandseinleikinn Madame Tourette í Tjarnarbíói á sunnudag. Eins og titillinn gefur til kynna er Elva með Tourette-röskun sem hefur sett rækilegt mark á líf hennar. Elva kynntist uppistandi fyrir rúmum áratug og segir hún að það hafi hálfpartinn gerst óvart. Þá hafði Ágústa Skúladóttir, sem er leikstjóri sýningarinnar, séð hana halda ræðu og sagði: „Það er nú einhver uppistandari í þér“. Í kjölfarið tók Elva þátt í sýningu uppistandshópsins Hjólastólasveit- arinnar. Hún segir sýninguna hafa tekist mjög vel og því hafi hún haldið áfram að koma fram með hópnum. „Eftir það fór fólk að hringja í mig og þannig þróaðist þetta bara. En þetta var svo fjarri öllu sem ég hafði nokkurn tímann pælt í.“ Hún tók þátt í uppistandssýning- unni My Voices Have Tourettes á fyrstu Fringe-hátíðinni í Reykjavík 2018. Nú samanstendur sá hópur af fjórum einstaklingum, sem allir hafa einhverjar geð- eða taugarask- anir, og hafa þau farið með sýninguna víða, bæði hér á landi og erlendis. Þær Ágústa hafa rætt það sín á milli að setja upp leiksýningu í nokkur ár og hafa nú látið loks verða af því. Madame Tourette var forsýnd á Listahátíð í Reykjavík í sumar. Fíllinn í stofunni „Ég kemst ekkert upp með það að vera með sýningu og fjalla ekki um Tourettið mitt. Það væri bara aðeins of stór fíll í stofunni ef ég myndi ekki nefna það. Þannig að sýningin fjallar um Tourettið og alls konar uppákomur í sambandi við það.“ Kækirnir sem fylgja Tourette gera ekki boð á undan sér og því verða engar tvær sýningar eins. Elva segist yfirleitt vera fljót að hugsa og geti því brugðist við þeim þegar þeir koma. Það geti verið skemmtilegt að spinna út frá þeim og oft verði nýjar hugmyndir til þannig. „Svo fjallar sýningin um það að vera öryrki og bara hversu illa er komið fram við okkur,“ segir Elva og tekur undir að í verkinu felist viss ádeila. „Ég er þarna með nokkrar hugmyndir um hvernig má leysa málin. Fyrir mér hefur uppistand aldrei bara verið uppistand. Það er alltaf vottur af hugsjón þarna líka. Fræðsla skiptir svo miklu máli.“ Hún segir mikilvægt að hafa fræðsluna í skemmtilegum bún- ingi og að bæði þeir sem þekkja Tourette vel og þeir sem þekki röskunina ekkert verði sáttir. “Ég er ekki að gera lítið úr mínum upplifunum eða neitt svoleiðis. Mér finnst það rosa mikilvægt. Það er munur á að gera lítið úr sér eða að valdefla sjálfan sig. Og það er þannig sem ég upplifi uppistandið,“ segir Elva. “Narratívan er mín. Ég stjórna hvað ég segi og hvernig aðrir sjá mig í stað þess að ég sé að fela mig, sem hefur alveg komið fyrir hjá mér. Þær stundir eru alltaf að verða færri og færri því þetta er, eins og ég segi, rosalega valdeflandi. Sjálfsmyndin mín var mjög beygluð og brotin þegar ég byrjaði í þessu en ég hef séð hvernig hún hefur verið að rétta úr kútnum samfara uppistandinu og því sem ég hef verið að gera þar.“ Gerir þetta fyrir soninn Í sýningunni fjallar Elva meðal annars um aðgerð á heila sem hún gekkst undir fyrir ellefu árum og fólst í því að rafskautum var komið fyrir djúpt í heila hennar til þess að örva hann með rafmagnsstuðum. Spurð hvort henni þyki ekkert erfitt að berskjalda sig á þennan hátt fyrir áhorfendum og fjalla um málefni sem standi hjartanu nærri segir Elva: „Ég kem úr fjölskyldu þar sem er tekist á við hluti með húmor. Ég er vön þessu. Svo hefur mér ekkert fundist þetta erfitt af því ég er að gera þetta á mínum forsendum.“ Við þetta bætir hún: „Svo hef ég ástæðu sem er stærri en ég. Það er að sonur minn er með sömu rask- anir og ég, reyndar rosalega lítið Tourette, það sést eiginlega ekkert. En allt sem ég geri í sambandi við þessa hluti er ég að gera fyrir hann, þannig að það verði auðveldara fyrir hann að vera í heiminum heldur en það var fyrir mig. Ég ætla að normalísera þessa hluti.“ Elva hefur gaman af því að ögra áhorfendum. „Bara með því að vera uppi á sviði þá er ég að ögra. Okkur er kennt að við eigum ekki að glápa en þarna kemst fólk ekki hjá því að horfa á alla kækina mína og horfa á fatlaða manneskju.“ En við þá sem þykir óþægilegt að horfa á hana segist hún segja: „Leiðinlegt fyrir ykkur að þurfa að horfa á þetta. Ég þarf alltaf að vera svona.“ “Ég hef alltaf verið svolítið póli- tísk og það er alltaf svolítill mótþrói í mér. Mér finnst uppistand eiga að vera samfélagsrýni. Gott uppistand tæklar einhverja hluti.“ Fá tækifæri fyrir fatlaða Mikil umræða hefur skapast undanfarið um stöðu fatlaðra innan sviðslistaheimsins og fer vel á því að Elva haldi sýningu sína núna. „Það var tilviljun. Við vorum löngu búnar að fá þessar dagsetn- ingar hérna. En ég trúi ekki á tilvilj- anir. Þetta er auðvitað frábær tími til þess að segja að fatlaðir megi víst vera uppi á sviði,“ segir Elva. „Mér finnst þetta frábær um- ræða. Ég persónulega sé ekkert að því að ófatlaðir leiki fatlaða en fyrir mér snýst þetta um tækifæri fatl- aðra til þess að vera með. Ófatlaðir leika fatlaða af því að fatlaðir hafa ekki kost á menntun eða neinu. Það er vandamálið.“ Verkið kalla aðstandendurnir uppistandseinleik enda er það á mörkum uppstands og einleiks- formsins. Leikmyndin, hönnuð af Þórunni Maríu Jónsdóttur, er létt og meðfærileg og segir leikstjórinn Ágústa það með ráðum gert. Það geri þeim auðveldara að ferðast um með sýninguna. Ágústu dreymir um að hægt verði að ferðast með þessa sýningu, bæði um landið og út fyrir landsteinana, og þannig geti hún öðlast framhaldslíf. Efst á listanum væri að fara með Madame Tourette á Fringe-hátíðina í Edinborg og Avignon-hátíðina í Frakklandi. lUppistandarinnElvaDögg sýnirMadameTourette í TjarnarbíóilFjallar um lífiðmeð Tourette-röskun og aðstæður öryrkjansl„Mér finnst uppistand eiga að vera samfélagsrýni“ Tæklar Tourette með húmornum Morgunblaðið/Hákon Uppistand „Bara með því að vera uppi á sviði þá er ég að ögra. Okkur er kennt að við eigum ekki að glápa en þarna kemst fólk ekki hjá því að horfa á alla kækina mína og horfa á fatlaða manneskju,“ segir Elva Dögg. Ragnheiður Birgisdóttir ragnheidurb@mbl.is

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.