Morgunblaðið - 01.11.2022, Side 13
FRÉTTIR 13Erlent
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 1. NÓVEMBER 2022
Skeifan 3 • 108 Reykjavík • Sími 581 2333 • rafver.is • rafver@rafver.is
K 7 Premium
Smart Control
Háþrýstidæla
Stór hluti Kænugarðs varð raf-
magns- og vatnslaus í gær eftir hrinu
loftárása Rússa sem beindu flug-
skeytum að mikilvægum rafmagns-
skotmörkum í borginni. Her Úkra-
ínumanna sagði að fleiri en 50
flugskeytum hefði rignt yfir borgina
aðeins tveimur dögum eftir að Rúss-
ar sökuðu Úkraínu um að gera
drónaárás á flota þeirra í Svartahafi.
Denís Smíhal, forsætisráðherra,
sagði að flugskeytin hefðu orsakað
rafmagnsleysi á hundruðum svæða í
sjö héruðum Úkraínu.
Margar sprengingar heyrðust í
Kænugarði og eftir árásirnar sagði
Vitalí Klitsjkó, borgarstjóri, að að
um 80% borgarbúa væru án vatns og
350 þúsund heimili væru án raf-
magns. Síðar um daginn hafði sú tala
lækkað niður í 270 þúsund heimili.
Fréttamaður AFP sá fjölda fólks
með tóma plastbrúsa að reyna að
nálgast vatn úr vatnshana í almenn-
ingsgarði í vesturhluta Kænugarðs
eftir sprengingarnar.
„Rússneskir hryðjuverkamenn
hafa enn og aftur gert árás á innviði
borgarinnar með sprengingum og
einbeita sér að rafmagninu,“ sagði
talsmaður Úkraínuforseta, Kíríló Tí-
mósjenkó. Utanríkisráðherrann
Dmítró Kúleba tók í sama streng á
Twitter og sagði Rússa enn og aftur
einbeita sér að stríðsrekstri gegn al-
menningi. Hann bætti við í annarri
færslu að búist væri við búnaði til að
laga skemmdirnar frá tólf þjóðum.
Árásin á mánudag kemur í kjölfar
þess að Rússar drógu sig út úr samn-
ingi sem tryggði flutninga á korni frá
Úkraínu til umheimsins. Þeir sögðu
ástæðuna vera drónaárás á höfuð-
stöðvar flota þeirra í Svartahafi sem
eru staðsettar á Krímskaga. Samn-
ingurinn, sem tókst fyrir tilstilli
Tyrkja og Sameinuðu þjóðanna,
gegnir lykilhlutverki í að létta á
matvælakreppu heimsins vegna
átakanna. Rússar lýstu yfir ábyrgð á
árásunum og sögðust hafa náð mark-
miðum sínum og sprengt öll sín skot-
mörk.
Talsmaður Kremlar, Dmitrí Pes-
kov, varaði við því að flytja korn frá
Úkraínu án samþykkis Rússa. „Það
verður miklu áhættusamara og
hættulegra,“ sagði hann. Í gær barst
einnig krafa frá utanríkisráðuneyti
Rússa um viðbótarskuldbindingar
frá Úkraínu ef samningurinn ætti að
standa.
Volodimír Selenskí, Úkraínufor-
seti, sagðist myndu standa við skuld-
bindingar sínar um kornútflutning
til umheimsins. Þrátt fyrir ákvörðun
Rússa fóru að minnsta kosti tíu
flutningaskip, hlaðin korni og öðrum
landbúnaðarafurðum, frá úkraínsk-
um höfnum í gær.
AFP/Sergei Chuzavkov
Vatnsskortur Íbúar ná sér í vatn, en stór hluti Kænugarðs er vatnslaus.
Sprengjum rigndi í gær
- Rafmagns- og vatnslaust í Kænugarði eftir eldflaugaárásir - Rúmlega 50 flug-
skeyti - Rússar slitu samningi um kornútflutning - Tíu skip með korni fóru í gær
Innan við tveggja prósenta munur
var á milli sitjandi forseta, Bolson-
aros, og áskorandans Lula í kosning-
unum í Brasilíu, en Lula hlaut 50,83%
gegn 49,17% Bolsonaros þegar at-
kvæði voru talin í Brasilíu á sunnu-
dagskvöld. Kjörstjórn Brasilíu hefur
lýst Lula sigurvegara kosninganna
og er það í fyrsta sinn í sögu landsins
sem fyrrverandi forseti er endurkjör-
inn til embættis.
Endurkomu Lula í stjórnmálin má
telja ótrúlega, en hann var dæmdur
til tólf ára fangelsisvistar vegna fjár-
spillingar og var sleppt úr fangelsi ár-
ið 2019 eftir að hafa setið tæp tvö ár
inni. Þegar úrslit voru orðin kunn á
sunnudagskvöld sagði Lula í ræðu
sinni að hann myndi þjóna 215 millj-
ónum íbúa Brasilíu og ekki bara þeim
sem kusu hann. „Við erum ein þjóð,
ein frábær þjóð.“
Lula bárust kveðjur frá mörgum
leiðtogum heimsins vegna sigursins í
gær með óskum um góða samvinnu.
Bolsonaro var þó hvorki búinn að
hafa samband né viðurkenna úrslitin.
Í gær lokuðu stuðningsmenn Bol-
sonaros nokkrum hraðbrautum í
Brasilíu til að mótmæla niðurstöðum
kosninganna. Í gær var reynt að
leysa upp mótmælin, en í gærkvöldi
voru enn 30 mótmælendur nálægt
Parana í suðurhluta landsins.
Frá Bandaríkjunum fékk Bolson-
aro stuðning margra hægrimanna
sem enn telja Biden ólöglegan forseta
heima fyrir. Steve Bannon sagði að
Bolsonaro gæti ekki viðurkennt úr-
slitin í viðtali á vefmiðlinum Rumble.
Búast má við að farið verði fram á
endurtalningu atkvæða vegna þess
hve lítið bar á milli, en ekkert var þó
komið frá herbúðum Bolsonaros þess
efnis í gær.
Naumur sigur
Lula í Brasilíu
- Ekkert heyrst frá Bolsonaro enn
AFP/Nelson Almeida
Endurkoma Luiz Inacio Lula da
Silva eftir að úrslit voru gerð kunn.
Í gær voru átta umhverfissinnar
handteknir í London eftir að þeir
slettu appelsínugulri málningu á
fjórar þekktar byggingar borgar-
innar meðal annars.
Sex mótmælendur voru hand-
teknir eftir að málningu var skvett
á byggingu innanríkisráðuneyt-
isins, á höfuðstöðvar M15 og bygg-
ingu fjölmiðlarisans Roberts Mur-
dochs í borginni. Tveir aðrir voru
handteknir við sömu iðju við Eng-
landsbanka í hjarta fjármálahverfis
borgarinnar.
Hópurinn „Just Stop Oil“ lýsti sig
ábyrgan fyrir spjöllunum og sagði
mótmælin táknræn því ríkissjóður,
öryggis-, fjármála- og fjölmiðla-
geirinn viðhéldi olíuhagkerfinu.
BRETLAND
AFP/Isabel Infantes
Mótmæli Málningarslettur í London.
Átta handteknir fyr-
ir málningarslettur
Jonas Gahr
Støre, forsætis-
ráðherra Nor-
egs, tilkynnti í
gær að ákveðið
hefði verið að
hækka viðbún-
aðarstig norska
hersins frá og
með deginum í
dag. Hann tók þó
fram að ákvörð-
unin væri ekki byggð á yfirvofandi
ógn heldur þyrfti Noregur að vera
á varðbergi eins og önnur ríki Atl-
antshafsbandalagsins.
Í síðustu viku var maður hand-
tekinn, talinn vera rússneskur út-
sendari, og heyrst hefur af rúss-
neskum drónum í norskri land-
helgi. Norðmenn hafa tekið við af
Rússum sem helstu útflytjendur
eldsneytis í Evrópu.
NOREGUR
Viðbúnaðarstig
hersins hækkað
Jonas Gahr
Støre
Spennan hefur stigmagnast undan-
farna daga í Danmörku fyrir kosn-
ingarnar í dag. Tveir andstæðir pól-
ar 14 flokka berjast um völdin og
samkvæmt skoðanakönnunum mun
hvorugur póllinn ná 90 sæta meiri-
hluta í þinginu sem telur 179 sæti.
Vinstri armurinn, sem er undir
forystu Mette Frederiksen, forsæt-
isráðherra Jafnaðarmanna, gæti náð
85 sætum, eða 49,1% miðað við skoð-
anakannanir, en hægri armurinn
fær í nýjustu skoðanakönnunum 72
sæti. Það þýðir að valdamiðjan fær-
ist bókstaflega til miðjunnar sem á
nú möguleika á sterkri samnings-
stöðu við báðar hreyfingarnar.
Flokkurinn sem er á miðju póli-
tíska litrófsins í Danmörku er Mod-
eraterne sem Lars Løkke Rasm-
ussen, fyrrverandi forsætisráðherra
Venstre, stofnaði í fyrra. Nú er talið
að flokkur hans gæti náð 18 sætum,
eða 10 prósentum atkvæða.
Reynsluboltinn Rasmussen segist
vinna með öllum sem vilja ráðast í
lagfæringar á þeirra málaflokkum
sem eru heilbrigðis- og lífeyr-
ismálin.
Sósíaldemókratar eru einnig að
reyna að höfða til miðjukjósenda og
segjast nú horfa til samsteypu-
stjórnar. Þeirra sterkasta útspil er
að reyna að höfða til kjósenda sem
stærsti flokkur landsins, sem á
óvissutímum sé öruggasti kosturinn
til að leiða ríkisstjórn.
Búist er við miklum samninga-
viðræðum eftir kosningar. Það gæti
komið sér vel fyrir Rasmussen, sem
er slyngur samningamaður. Gár-
ungarnir segja að atburðarásin gæti
eins verið sprottin úr pólitísku
þáttaröðinni Borgen þar sem leið-
togi ímyndaðs miðjuflokks nýtir sér
aðstæður til að ná völdum.
En stór hluti Dana er enn ekki
búinn að gera upp hug sinn svo allt
getur gerst þegar dregið verður upp
úr kjörkössunum.
Allt getur gerst í dönsku kosningunum
- Enginn skýr meirihluti - Margir
óákveðnir - Rasmussen gæti hagnast
AFP/Jonathan Nackstrand
Áróður Auglýsingaspjöld eru nú úti
um allt í Kaupmannahöfn.