Morgunblaðið - 18.10.2022, Blaðsíða 10
10 MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 18. OKTÓBER 2022
ELTAK sérhæfir sig
í sölu og þjónustu
á vogum
Bjóðum MESTA úrval
á Íslandi af smáum
og stórum vogum
Ásgeir Ingvarsson
ai@mbl.is
Þ
ví miður er útlit fyrir að
kræklingarækt á Íslandi
muni senn heyra sögunni
til. Bergsveinn Reynisson
hjá Nesskel segir að þau
fáu fyrirtæki sem starfa í þessari
grein hafi frá upphafi þurft að
standa straum af kostnaðarsömum
sýnatökum og mælingum og að ný-
lega hafi breytt vinnubrögð og
flækjur vegna Brexit gert það ill-
mögulegt að sinna þessum hluta
starfseminnar þannig að reksturinn
nái að ganga eðlilega fyrir sig. Sjálf-
ur hefur Berg-
sveinn sett neta-
pokana á hilluna
um sinn og snúið
sér að sauðfjár-
rækt, a.m.k. þar
til rekstrarum-
hverfi bláskelja-
bænda batnar.
„Nú síðast kom
upp vandamál
tengt styrkleika
kadmíns í ís-
lenskum kræklingi. Úti í heimi er
kadmín flokkað sem mengunarefni
en á Íslandi er kadmín í kræklingi
náttúrulegt fyrirbæri. Það er
breytilegt eftir löndum hversu mik-
ið kadmín má mælast í kræklingi,
og hér á Íslandi höfum við yfirleitt
verið rétt undir evrópskum við-
miðum sem eru töluvert strangari
en þau viðmið sem gilda í Banda-
ríkjunum. Er kadmínhlutfallið yf-
irleitt mælt á veturna þegar það er
lægst og fá niðurstöðurnar að gilda í
tvö ár. En svo gerðist það að eft-
irlitsaðili frá Evrópu heimsótti
MAST og einhver þar á bæ fékk þá
hugmynd að það þyrfti að taka ný
sýni í júlí í fyrra, og gáfu sýnin þá
niðurstöðu að kadmín væri yfir við-
miðunarmörkum.“
Bergsveinn segir margar tengdar
greinar í svipuðum vanda og óvíst
með framhaldið hjá fyrirtækjum
sem nýta sæbjúgu, kúfisk, hörpu-
disk, ígulker, þang, þara og krabba.
„Allar þessar vörur gætu verið al-
veg á mörkunum, og vert að skoða
hvort kadmínviðmiðin séu eðlileg í
ljósi þess að þetta efni berst út í ís-
lenskan sjó með náttúrulegum ferl-
um,“ útskýrir Bergsveinn en sjálfur
slapp hann vel í síðustu mælingu.
„Ég fékk vægt áfall þegar ég sá
niðurstöðurnar og sýndist styrk-
urinn vera 3,5 en hann var þá 0,35
og leyfilegt hámark er 1,0.“
Sýnin stoppuð í tollinum
Það sem fékk Bergsvein til að
hætta kræklingarækt voru vand-
kvæði tengd þörungamælingum.
„Senda þarf sýni af hverju nýting-
arsvæði í hverri viku á meðan
framleiðsla stendur yfir og kostar
tugi þúsunda í hvert skipti. Alls
staðar í Evrópu er þessi vöktun
fjármögnuð af stjórnvöldum og lit-
ið þannig á að um sé að ræða um-
hverfisvöktun fyrir neytendur, og
þau fyrirtæki sem við keppum við
borga því ekki krónu fyrir,“ út-
skýrir Bergsteinn. „Hafði tekist að
koma á því verklagi á að við send-
um sýnin til Bretlands og gátum
fengið niðurstöðurnar tiltölulega
hratt, en eftir Brexit fór það að
gerast að sýnin töfðust í tolli. Var
lítið um svör þegar Matvælastofn-
un var beðin um að reyna að liðka
fyrir og stóðu framleiðendur ítrek-
að frammi fyrir því að geta ekki af-
hent vöru á réttum tíma þar eð
þörungamælingar lágu ekki fyrir.
Yfirkokkar eru ekki geðbestu menn
í heimi og getur fólk rétt ímyndað
sér hversu óskemmtilegt það er að
geta ekki staðið við þá afhending-
artíma sem viðskiptavinirnir gera
ráð fyrir.“
Segir Bergsveinn að hljóðið í ís-
lenskum kræklingabændum sé
þannig að þeir séu ekki hættir fyrir
fullt og allt, en muni ekki byrja
starfsemi á ný fyrr en búið er að
laga sýnatökumálin. „Það merkilega
er að íslensk stjórnvöld fengu á sín-
um tíma háan styrk frá Evrópu til
að koma upp greiningarbúnaði hér
á landi og voru keypt mælitæki og
starfsmaður þjálfaður sérstaklega
til að sinna þessum mælingum. En
svo bilaði tækið og enginn vilji var
fyrir hendi að kaupa nýtt.“
Fór frekar til Úkraínu
Er leitt að ekki skuli hafa tekist að
bæta úr þessum vanda og auðvelda
greininni að vaxa og segir Berg-
sveinn að ef stjórnvöld tækju sig á
myndi það verða lyftistöng fyrir at-
vinnulífið í minni byggðum víðs-
vegar um landið. „Árið 2017 var er-
lendur fjárfestir langt kominn með
að koma af krafti inn í íslenska
kræklingarækt og voru gerðar
metnaðarfullar áætlanir, en eftir ít-
arlega skoðun leist þessum fjárfesti
ekki á stjórnsýsluumhverfið og
þann litla stuðning sem greinin nýt-
ur. Hann fann því annað land þar
sem rekstrarumhverfið væri betra
og öruggara en á Íslandi, og það
land var Úkraína. Það segir allt
sem segja þarf að honum fannst
skynsamlegra að setja sína millj-
arða í kræklingarækt í Svartahafi
heldur en á Íslandi.“
Þykir Bergsveini leiðinlegt að
ekki hafi fyrir löngu verið bætt úr
vanköntunum. „Á sínum tíma var
starfshópur settur á laggirnar til að
fara yfir þessi mál og áttu þar sæti
fulltrúar kræklingabænda, Mat-
vælastofnunar og ráðuneyta, og var
skoðað mjög ítarlega hvernig önnur
lönd halda á þessum málum. Niður-
stöðurnar af vinnu hópsins liggja
fyrir, en síðan hefur ekkert meira
verið gert og gæti kræklingarækt
samt verið nokkuð öflug atvinnu-
grein með rétta umgjörð. Eftir-
spurnin er góð og er þetta ein
grænasta matvælaframleiðsla í
heimi enda nærist kræklingurinn á
svifþörungum neðst í fæðukeðjunni.
Að þessari atvinnugrein skuli vera
leyft að deyja á vakt Vinstri
grænna finnst mér alveg afleitt, og
efast ég stórlega um að ég láti þann
flokk hafa mitt atkvæði aftur.“
Rekstrarumhverfi
kræklingaræktar er
mun betra í öðrum
löndum. Hátt flækju-
stig og kostnaður
vegna sýnatöku hefur
gert út af við greinina.
AFP/Boris Horvat
Franskur kræklingabóndi hugar að uppskerunni í tjörn skammt frá Montpellier. Bergsveinn segir það vera reglu í evrópskri kræklingarækt að stjórnvöld fjármagni allar þörungamælingar.
Morgunblaðið/Sverrir
Kræklingur er herramannsmatur og gæti framleiðslan á Íslandi orðið mun meiri ef aðstæður bötnuðu.
Bergsveinn
Reynisson
Fjárfestir fór til Úkraínu frekar
en að rækta krækling á Íslandi