Borgfirðingabók - 01.12.2009, Side 9
9Borgfirðingabók 2009
en eftir átta ár. – Lítill torfbær, byggður upp úr aldamótum, var þá á
Laxfossi, og átti ég þar heima tvö fyrstu árin, en timburhús sem enn
stendur (2008) var byggt sumarið 1927.
Þorsteinn Snorrason reiddi mig fyrir framan sig úr Borgarnesi
fram að Laxfossi, líklega á Sporði, gæðingi sínum. Ég hef óljósa
en þægilega endurminningu um komuna að Laxfossi, og er Snorri
afi minn þar í forgrunni. Hann var þá rúmlega sjötugur (f. 1853) og
næstum steinblindur. Hann hafði gengist undir aðgerð í Reykjavík
hjá Andrési Fjeldsted augnlækni, en hún bar ekki árangur. (Enn í dag
gengur augnlæknum misjafnlega að ráða við glákuna sem því miður
hefur borið niður víðar í okkar ætt). Ég undi mér strax vel, enda fóru
systurnar, Ella og Stína, að sinna þörfum mínum. Mest hélt ég mig
samt í námunda við afa og ömmu. Bræðurnir skiptu sér lítið af mér
fyrstu árin. Við afi náðum mjög vel saman. Ég leit mikið upp til hans
og tók hann mér til fyrirmyndar. Hann var hæglátur og lágvær í tali
(ólíkt afkomendunum!) og virtist glaðlyndur þrátt fyrir blinduna og
slæman lungnasjúkdóm sem hann hafði lengi verið illa haldinn af
og fékk aldrei neina bót á. Hann kom varla nokkurn tímann út fyrir
hússins dyr og líklega enn sjaldnar eftir að nýja húsið var byggt 1927,
því að baðstofan var á efri hæð og um brattan stiga að fara.
Sjaldan var hann verklaus. Stundum var hann að vinna hrosshár
í reiptögl og hnappheldur. Hann fékkst líka talsvert við að ríða net,
líklega aðallega silunganet. Oft var hann að telgja ýmsa smáhluti til
heimilisþarfa, svo sem hagldir á reipi eða sköft á gæruhnífa, jafnvel
eldhúsáhöld eins og sleifar og þvörur. Einu sinni gaf hann mér spýtukall
sem ég hélt mikið upp á og átti lengi. Hann kenndi mér gömul spil og
leiktöfl sem ég er því miður búinn að gleyma. Eitt hét að elta stelpu
og var teningaspil. Taflborðið var bakhliðin á tóbaksfjölinni hans og
taflmennirnir tómar patrónur undan haglaskotum.
Snorri var ekki talinn sérlegur hagleiksmaður til smíða eins og
margir Húsfellingar höfðu verið, en þó lagvirkur og ágætur verkmaður,
orðlagður sláttumaður og ágæt skytta.
Áður en hann fór að búa fór hann til sjóróðra á vetrarvertíð eins og
flestir borgfirskir bændasynir. Þeir bræður, Kristleifur og Snorri, reru
á Vatnsleysuströnd hjá útvegsbóndanum Guðmundi Guðmundssyni á
Auðnum. Til er á prenti merkileg frásögn Kristleifs bróður hans um
ferð þeirra tveggja gangandi í verið frostaveturinn mikla 1882. Gefur
sú frásögn glögga innsýn í harða lífsbaráttu fyrri kynslóða.