Borgfirðingabók - 01.12.2009, Page 13
1Borgfirðingabók 2009
var alltaf mjög neyslugrönn, en var engan veginn sama um hvað var á
borðum, hafði megna óbeit á hrossaketi, og lauklykt þoldi hún ekki.
Sparsemi og nýtni voru dyggðir sem hún hafði mjög í heiðri og
hefur áreiðanlega þurft þeirra við lengst af í sinni búskapartíð. Hún ól
upp sjö börn, og tvö fósturbörn voru langdvölum á hennar vegum.
Hún klæddist allajafna óbrotnum hversdagsfötum, dagtreyju, vað-
málspilsi og einskeftusvuntu, með þríhyrnu um herðar og á þynnku-
skóm. Örsjaldan bjóst hún peysufötunum sem hún átti niðri í kistu.
Guðrún var alvörugefin og hafði að sögn barna sinna verið all-
strangur uppalandi, en umbar barnabörnunum meira en eigin börn-
um.Okkur var hún hlý þótt hún vandaði stundum um við okkur. Kjass
og gælur voru henni lítt að skapi. Allt fas hennar og tal var agað
og hófstillt og yfir henni reisn og virðuleiki. Hversdagslega var hún
fámál, stundum jafnvel þegjandaleg, en gat verið skemmtin í tali og
ræðin, til dæmis þegar hún gaf sig á tal við gesti, sem oft bar við,
því að gestkvæmt var á Laxfossi og gestrisni mikil. Hún kom ágæt-
lega fyrir sig orði; manni fannst hún einlægt rata fyrirhafnarlaust á
rétta orðalagið um hvaðeina sem talað var um. Hún var orðvör og
umtalsfróm (ólíkt sumum afkomendum sínum) og átti það til að taka
óstinnt upp ef henni fannst kenna dómhörku í garð náungans – og fór
þá stundum með vísu Sigurðar Breiðfjörðs:
Einn þótt gangi illan veg
augum fyrir mínum
máske hann stríði meir en ég
móti brestum sínum.
Henni var ekki heldur gefið um hávært og lítt ígrundað tal og gerði
þá stundum þessi orð Þorskabíts að sínum:
…mælgin og fáviskan hafa svo hátt
það heyrist ei neitt hvað vitið segir.
Guðrún las ekki mikið á efri árum enda hafði hún ekki mikinn
bókakost undir höndum, en hún fylgdist allvel með þjóðmálaumræðu
í þeim blöðum sem komu á heimilið (það voru Tíminn og Ísafold
& Vörður). Hún fylgdi Framsóknarflokknum að málum og var
mikill aðdáandi Jónasar frá Hriflu. Henni ofbauð hatur og ofsóknir