Borgfirðingabók - 01.12.2009, Page 14
14 Borgfirðingabók 2009
pólitískra andstæðinga í hans garð. Ekki hugnaðist henni alltjent að
gangi heimsmála og vitnaði þá sem oftar í Þorskabít:
Ekki er að furða, þó á hlaupi snurða
vorn örlagaþráðinn,
þá hrekkvísir slinnar og hópar af flónum
á heimsrokkinn spinna með öfugum klónum.
Vestur-Íslendingurinn Þorbjörn Bjarnarson, sem tók sér skáld-
nafnið Þorskabítur, var eitt af hennar uppáhaldsskáldum. Þau voru
nær jafnaldra og hafa ef til vill kynnst í Borgarfirði áður en hann
fluttist til Vesturheims.
Guðrún hafði mjög fastmótaðar skoðanir á flestum hlutum – okkur
þeim yngri fannst hún vera nokkuð íhaldssöm og stældum stundum
við hana í góðu um hitt og þetta. (Kannski værum við sammála henni
um ýmislegt núna.)
Þó að Guðrún hefði miklar mætur á Hallgrími Péturssyni og kynni
margt eftir hann gætti ekki hjá henni mikillar trúhneigðar, að minnsta
kosti flíkaði hún ekki trú sinni hversdagslega. Hún virtist öldungis
laus við hjátrú og hindurvitni, því að hún sagði stundum kátlegar
sögur af fólki sem þóttist hafa orðið vart dularfullra fyrirbrigða sem
reyndust þegar til kom eiga sér náttúrlegar skýringar.
Guðrún var vel látin og virt af öllum sem kynntust henni,
nágrönnum sem og vinnuhjúum. Þegar Jón Helgason ritstjóri sótti
heim Íslendingabyggðir vestanhafs á fimmta áratug fyrri aldar
hitti hann í Mikley á Winnipegvatni gamla konu sem hafði flust úr
Borgarfirði vestur um haf fyrir aldamót. Eina persónan sem gamla
konan spurðist fyrir um og bað fyrir kveðju til var Guðrún á Laxfossi.
Þessi gamla kona hafði þá ekki hugmynd um að Jón var systursonur
Guðrúnar, en hún hafði á unga aldri verið í vist á Laxfossi og unað
sér vel. Kveðjunni skilaði Jón eftir að heim kom, er hann heimsótti
frænku sína að Laxfossi.
Torfbærinn gamli á Laxfossi
Torfbærinn á Laxfossi sem myndin sýnir hefur líklega verið byggður
skömmu eftir aldamótin 1900. Smiður að tréverki var Jón yngri
Sigurðsson frá Efstabæ, oft kenndur við Vindhæli á Akranesi. Jón
var bróðir Guðrúnar, þáverandi húsfreyju á Laxfossi, konu Snorra