Borgfirðingabók - 01.12.2009, Page 15
15Borgfirðingabók 2009
Þorsteinssonar bónda. Þessi bær var rifinn nokkru eftir að byggt
var timburhús það sem enn stendur (2007), aðeins ofar (vestar) á
bæjarhólnum (Hjallhólnum). Húsið var byggt sumarið 1927.Vestan
við bæinn sést skúr með hallandi þaki. Þar voru geymd reipi, reiðingar
og áhöld ýmiss konar, líka saltfiskur, harðfiskur og þorskhausar. Þessi
skúr var rifinn áður en húsið var byggt, og kom gamli bærinn að
nokkru leyti í hans stað sem geymsla.
Bærinn snýr stöfnum í landsuður. Lengst til vinstri var baðstofan,
12 x 6 álnir, á þrepi, undir skarsúð. Í þessu húsi innst var múrföst
eldavél til daglegrar matseldar. Eldað var við tað og birki því að
nýtilegt mótak var ekki í Laxfosslandi. Stafnþilið í miðið er fyrir
bæjargöngunum sem voru hellulögð, en innar af þeim var hlóðaeldhús
með moldargólfi. Þar var t.d. soðið slátur og reykt ket, bjúgu, lax og
þess háttar. Þar héngu líka uppi húðir og skæðaskinn og geymdust
vel í reyknum. Í þessum hluta var búrið þar sem súrmeti var geymt
í tunnum og annað matarkyns. Þar mun hafa verið gert skyr. Stór
kornbyrða fyrir mélvöru stóð frammi í göngunum (hún er nú í
Byggðasafni Borgarfjarðar). Lengst til hægri var stofan (gestastofan),
blámáluð, fremur sjaldan notuð, því að kunnugum gestum var yfirleitt
boðið til baðstofu.Uppi yfir stofunni var geymsluloft og lá þangað
mjór tréstigi.