Borgfirðingabók - 01.12.2009, Síða 28
28 Borgfirðingabók 2009
Með honum í hinni örlagaríku ferð var unglingspiltur, Magnús
Guðbjarnason í Straumfirði. Það hefur mikið reynt á hinn unga pilt
að halda ró sinni og gera það eina rétta í hans stöðu að ríða sem
mest hann mátti að Grenjum og sækja hjálp. Innan tilvitnunarmerkja
er brot úr kafla sem ég skrifaði í Áfanga II, sem eru leiðarlýsingar
fyrir hestamenn um Mýrasýslu: ,,Sveinn var mikill unnandi fjalla
og fjallferða, enda fjallkóngur Álfthreppinga í mörg ár. Hann þekkti
fjöllin á afréttinum í hásumardýrð og hausthretum. Það var því vel
við hæfi, þegar nokkrir vinir úr hópi fjallleitarmanna tóku sig til og
reistu honum minnisvarða á þeim stað sem hann féll frá í fang þeirrar
náttúru og fjalladýrðar, sem hann þekkti svo vel og unni mest og
best.”
Hugleiðingar
Strax eftir hið sviplega fráfall fórum við nánir vinir Sveins úr
fjallleitum að ræða um hvað við gætum gert til að halda minningu
hans á lofti.
Eftir nokkrar vangaveltur var ákveðið að hlaða vörðu úr hraungrýti
með áföstum og áletruðum koparskildi, helst nálægt þeim stað sem
hinn sviplegi atburður gerðist. Ári seinna, um mánaðamótin júní og
júli árið 1956, var þessu hrint í framkvæmd.
Þessir menn unnu við að hlaða vörðuna taldir í þeirri röð sem ég
tel að þeir hafi komið að málinu, framgangi þess, undirbúningi og
framkvæmd:
Þiðrik Baldvinsson, bóndi Grenjum,
Haukur Þorsteinsson, bóndi Háhóli,
Geir Þorleifsson, múrari Borgarnesi og
Árni Guðmundsson, bóndi Beigalda.
Vera kann að það verði talið mér til fordildar að leggja metnað í að
forða frá gleymsku hverjir stóðu að þessu verki þar sem ég var einn
þeirra. En ég tel að upp geti komið spurningar um það en þá verði
vitneskja um það glötuð.