Borgfirðingabók - 01.12.2009, Síða 41
41Borgfirðingabók 2009
Það er ekki að orðlengja það, ég fékk mjög gott próf þarna á
námskeiðinu og á prófskírteinið enn í dag.
Mjólkurbílstjóri
Ég var svo hjá Vegagerðinni það sem eftir lifði vetrar og tók við
stærri veghefli um vorið og var þar fram í júní, en þá hóf ég störf hjá
Kaupfélagi Borgfirðinga sem mjólkurbílstjóri og ók þar í 8 ár, til vors
1954. Mest ók ég í Lundarreykjadal og Skorradal. Þó ók ég tvö sumur
í Norðurárdal, annan hvorn dag á móti Lundarreykjadalnum. Þá var
endastöð í Norðurárdal í Sveinatungu. Þar var húsfreyja Andrína
Kristleifsdóttir frá Stóra-Kroppi, ákaflega hugulsöm og ágæt kona á
alla grein. Einnig leysti ég Berg Sigurðsson frá Kolsstöðum nokkrum
sinnum af í Hvítársíðu og Þverárhlíð, þrjár til fjórar vikur í hvert sinn.
Var þá farið úr Borgarnesi seinnipart dags og gist í Fljótstungu oftast.
Var það mjög notalegt. Bergur var mjög ljúfur og góður starfsfélagi.
Í fyrsta skipti sem ég leysti Berg af þarna fór ég úr Borgarnesi að
morgni dags og stansaði á Kirkjubóli hjá þeim hjónum Ingibjörgu
Sigurðardóttur og Guðmundi Böðvarssyni. Bauð hann mér inn,
og drakk ég kaffi hjá þeim hjónum nokkra morgna. Þá komu þeir
bræður, Sigurður 9 ára, seinna bóndi á Kirkjubóli, og Böðvar, þá 7
ára, síðar skáld og rithöfundur, með mér í bílnum inn að Fljótstungu
og opnuðu hlið á þeirri leið, sem mig minnir að þá hafi verið tvö á
Bjarnastöðum, þar sem farið var gegnum túnið. Annars voru mörg
hlið sem þá þurfti að opna og loka, fjölmörg í Hvítársíðu neðan
Bjarnastaða. Á þessum árum var mjólk framleidd til sölu á flestum
bæjum sem voru í akvegasambandi. Gerðist það eftir að mæðiveikin
fór að geisa, og var það bændum til talsverðra bóta. Vegir voru þá
misjafnlega mikið uppbyggðir, en þá var mikil uppbygging í gangi.
Meðal annars fór svokallaður stríðsgróði talsvert í vegabætur.
Bílar
Fyrsti bíllinn sem ég ók hjá K. B. var Chevrolet árgerð 1941 með
sex manna húsi og vörupalli. Kristján Gestsson flutti hann inn og
notaði sem mjólkurbíl í Norðurárdal áður hann seldi Kaupfélaginu.
Þennan bíl keypti seinna Guðmundur Pétursson á Mel í Hraunhreppi.
Annar bíll sem ég ók var Ford árgerð 1937, yfirbyggður á sama