Borgfirðingabók - 01.12.2009, Page 60
60 Borgfirðingabók 2009
út í tilefni af 100 ára verslunarafmæli Borgarness árið 1967, má lesa
eftirfarandi (bls. 53):
,,Smiðurinn var ungur Norðmaður, Ole Johan Haldorsen að nafni,
ættaður frá Norður-Sille á Hörðalandi. Hafði Jón haft hann á skipi
með sér frá Björgvin.”
Síðan lýsir Jón Helgason þessum atorkusama smið, bæði útliti
hans og skapgerð og hvernig hann byggir hin fyrstu hús sem rísa í
Borgarnesi, ,,með iðni og elju.“
Síðar í bók sinni segir Jón (60): „En viðloða var hann í Borgarfirði
hin næstu misseri og kom víða við. Mun hann hafa starfað að
smíðum á bæjum í héraði, meðal annars á Stóra-Fjalli, Kárastöðum
og í Galtarholti. Voru borgfirskir bændur þá farnir að hefja byggingar
húsa úr norska timbrinu og þörfnuðist mjög smiða.“ Áður hafði hann
byggt kirkjuna í Norðtungu.
Þessi norskættuðu íbúðarhús voru sveitarprýði þar sem þau stóðu,
yfirleitt á hlöðnum kjallara, portbyggð með mansardþaki (brotaþaki),
og má þar nefna til dæmis hús sem byggð voru á Hofsstöðum á
Mýrum, Stóra-Fjalli Borgarhreppi og í Norðtungu í Þverárhlíð. Þessi
hús hafa nú öll verið rifin, síðast húsið á Hofsstöðum.
Nefna má tvö hús frá þessum árum sem hafa verið gerð upp í sinni
upprunalegu mynd, hús sem byggt var sem íbúðarhús að Langárfossi
Álftaneshreppi árið 1884, nú hluti Ensku húsanna svokölluðu, og
íbúðarhús í Galtarholti Borgarhreppi, byggt 1895. Bæði þessi hús eru
gott dæmi um norsku húsin, sérstaklega þó Galtarholtshúsið.
Það var orðið býsna illa farið eftir áratuga vanhirðu þegar viðgerð
á því hófst, og höfðu vatn og vindar leikið það grátt. Þak hússins var
fallið að hluta, útveggjagrindur fúnar og signar, allir gluggar ónýtir
os.frv. Við nánari skoðun reyndist þó margt heilt og upprunalegt, svo
sem innanhússpanill, allar hurðir, hluti gólfa og burðarbitar.
Ensku húsin,mynd tekin 2007.
Ljósm. Gísli Einarsson.