Borgfirðingabók - 01.12.2009, Page 66
66 Borgfirðingabók 2009
Á engjum
Eitt af því sem ávallt fylgdi áliðnu sumri var engjaslátturinn. Hans
var beðið með nokkurri eftirvæntingu, í það minnsta hjá þeim yngri,
enda var hann nokkur tilbreyting frá túnaslættinum, sem alltaf varð
að ljúka áður. Hann hafði þá staðið yfir í mismunandi margar vikur,
en það réðst mest af veðráttu og sprettu. Fullorðna fólkið fór á engjar í
býtið að morgni, og ekki var komið heim fyrr en að kvöldi, oftast eftir
langan og samfelldan vinnudag. Á engjunum var matast og drukkið í
tjaldi og hvílst skamma stund eftir máltíðir. Og ávallt var það einhver
unglingurinn sem hafði það embætti með höndum að færa matinn á
engjarnar. Það varð að gerast á ákveðnum tíma dag hvern, og ekki
mátti vera lengur í förum en frekast var unnt, sérstaklega þegar heitur
matur var inni í nestispokunum.
Þá var líka áríðandi að gleyma engu heima, því að þá varð ekki
undan því vikist að hlaupa í blóðspreng eftir því sem vantaði og til
baka aftur eins og byssubrenndur til þess að matartími fólksins færi
ekki allur úr tímamörkunum. Og þá var nú eins gott að steypast ekki
á hausinn með mjólkurflösku í sokk eða heitan pott í skýluklút, þótt
mikið lægi á. Ef það bættist ofan á sauðarskap og gleymsku að brjóta
flösku eða hella úr skál þá gat tekið langan tíma að ná upp aftur áunnu
sjálfsáliti, sérstaklega ef fyrirfannst einhver annar vitorðsmaður á
svipuðu reki til þess að notfæra sér þetta í kvikindisskap á viðkvæmri
stundu síðar. Minna þurfti oft til þess að kveikja í hnippingum
og pústrum þegar strákar áttu í hlut. En þrátt fyrir að farið væri að
örla á skyldum og kvöðum lífsins svo snemma á vori þess, þá voru
PÁLL JÓNSSON