Borgfirðingabók - 01.12.2009, Page 69
69Borgfirðingabók 2009
fullorðna fólksins fór snarlega forgörðum, það þusti út úr tjaldinu og
skyggndist til himins.
Einhver nefndi flugvél þó að hún hefði hvorki sést né heyrst áður,
en hins vegar var búið að fréttast um einhvern ofurhuga sem hugðist
fljúga á milli landa í flugvél, svo trúlegt sem það gat nú verið. Það
hlaut að hafa staðið í Tímanum úr því að einhver maður þorði að trúa
því. Þetta hlýtur að vera flugvél át hver eftir öðrum þótt enginn hefði
séð svoleiðis fyrr.
Og það var staðið og horft til himins á eftir flugvélinni lengi lengi
eftir að hún var horfin sjónum norðaustur af Þrívörðunum.
Næstu daga á eftir var ekki um annað rætt manna á milli en þessa
flugvél og flugkappann Lindberg sem þarna hafði verið á ferð norður
yfir Ísland. Öllum var mikið kappsmál að hafa séð flugvélina með
eigin augum, og haft var eftir einhverjum að hann hefði séð hana
hérumbil; hann heyrði í henni, hélt hann.
En það þurfti ekki alltaf heimatilbúna draumóra né ofurhuga frá
öðrum löndum til þess að gæða tilveruna frábreytilegu litum og lífi.
Minnisverðir atburðir gátu orðið til við hvaða fótmál sem var ef að
var gáð. Þannig var það eitt sinn þegar ég var búinn að koma mér
sem makindalegast fyrir við lækinn minn, að kallað var til mín, og
í þetta sinn var það Bergur kaupamaður. Það var ekki venjulegt að
hann truflaði athafnir mínar með athugasemdum eða kvabbi, svo að
nú þurfti ekki að kalla nema einu sinni til þess að ég gegndi. Hann
sagðist hafa gleymt reykjarpípunni og tóbakinu sínu heima í baðstofu
í morgun og mundi verða alveg ómögulegur í allan dag ef hann gæti
ekki fengið sér að reykja eftir matinn.
Ég var fljótur á sprettinn þegar Bergur var annars vegar því að
mér fannst hann vera búinn að leggja inn fyrir einum smágreiða, svo
oft sem hann hafði tekið svari mínu og sýnt mér margvíslega vináttu.
Á örskotsstund var ég kominn heim og búinn að finna tóbakið og
pípuna og lagður af stað á engjarnar aftur. Mér fannst ég vera búinn
að vera svo fljótur að saklaust ætti nú að vera að fara örlítið aðra og
lengri leið til baka og kanna um leið nokkur nývirki sem þar var að
finna.
Fyrir skömmu var búið að leggja síma um sveitina, og staurarnir,
sem stóðu í röðum og náðu hálfa leið upp í himininn voru sannarlega
þess virði að skoða þá í leiðinni. Það var líka svo nýstárleg og góð