Borgfirðingabók - 01.12.2009, Page 74
74 Borgfirðingabók 2009
hennar geðjaðist vel að. Virtist henni því búin örugg framtíð. Sumarið
eftir Reykjavíkurdvölina hitti hún ungan mann úr sveitinni. Sama
haust flutti hann ásamt móður sinni til Vesturheims og settist að í
Winnipeg, en hugðist fá sér útmælt land til búskapar svo sem flestir
landar þar um slóðir gerðu.
Sumarið 1900 kom hann aftur að vestan og tók að gera tíðförult að
Húsafelli á fund Kristínar. Foreldrum hennar geðjaðist ekki að heim-
sóknum hans til heitbundinnar stúlku, og ekki bætti úr skák er hún
rifti trúlofuninni. Var ekki laust við að almannarómur tryði því að hún
hefði verið beitt einhverskonar göldrum til að snúa hug hennar. Ekki
gerði það léttara fyrir að Hjörtur Pálsson, en það hét ungi maðurinn,
var harðákveðinn að byggja framtíð sína og fjölskyldu sinnar í
Vesturheimi í órafjarlægð frá fjölskyldu hennar og æskustöðvum. Var
þá gripið til þess ráðs að senda Kristínu til frændkonu móður hennar,
Margrétar á Lækjamóti í Víðidal, og átti hún að bæta við kunnáttu
sína í orgelleik. Þar fékk hún tóm til að gera upp hug sinn. Hún stóð í
bréfasambandi við Hjört með milligöngu frændkonu sinnar og valdi
að fylgja honum vestur að óvilja foreldranna. Margrét fylgdi henni til
skips á Blönduósi þar sem hún hitti mannsefnið.
Saman sigldu þau þaðan 7. ágúst 1901 til Skotlands með viðkomu
á Seyðisfirði og í Færeyjum. Þaðan sendu þau bréf til systkina hennar.
Þau komu til Winnipeg 2. október. Þaðan skrifaði Kristín móður
sinni. Ástríður átti erfitt með að sætta sig við það sem orðið var.
Ástríður Þorsteinsdóttir, Signýjar-
stöðum.
Hún fæddist 18. maí 1887 á
Húsafelli, dóttir Ástríðar Þor-
steinsdóttur og Þorsteins Magnús-
sonar sem bjuggu á Húsafelli.
Hún giftist Jósep G. Elíeserssyni
1898 og bjuggu þau lengst af
á Signýjarstöðum í Hálsasveit.
Hún var gott skáld, orti ljóð um
náttúruna, hesta og vini sína.
Sendibréf hennar bera vott um
næman listamann og ágætan stíl-
ista. Hún var listhög og eftir að
hún hætti að búa og flutti frá Signýjarstöðum bjó hún til hesta úr tuskum, ull og
spýtum og notaði til að gefa vinum sínum. Sumir hestanna voru með reiðtygjum,
aðrir með klyfjar. Hún andaðist 27. september 1961.