Borgfirðingabók - 01.12.2009, Page 94
94 Borgfirðingabók 2009
eða lækki um 150 m.14 Til að gefa gleggri mynd af því hvaða máli
hiti og vindur skipta fyrir afkomu landbúnaðarins má nefna að Páll
Bergþórsson telur að sveiflurnar í veðurfarinu geta orðið til þess að
bæta eða rýra afkomu bænda um 20-40%. Þegar harðæri eru verður
heyfengur minni en búfé þarf að sama skapi meira hey, og þá er bara
eitt til ráða og það er að fækka búfé, og það hefur aftur bein versnandi
áhrif á hag bænda.15 Gísli Gunnarsson hefur bent á að meðaltöl segja
ekki alla söguna hvað heyfeng varðar, því það tekur allt sumarið að fá
mikil og góð hey, en verulegur fjárfellir var helst þegar allt sumarið
var óhagstætt.16
Nýting landsins á landnámsöld
Gera má ráð fyrir að landnámsmenn hafi flutt með sér búskaparhætti
heimaslóða sinna, lítt breytta. Ekki hef ég rekist á frásagnir um
að hér hafi verið stunduð sviðjurækt sem hluti af einhvers konar
sáðskiptakerfi, en skógur var ruddur og brenndur til að skapa pláss
fyrir tún og akra og jafnvel í þeim tilgangi einum að bæta beitiland.
Jarðrækt, þ.m.t. kornrækt með tilheyrandi jarðvinnslu og áburðargjöf,
var í upphafi byggðar meiri en síðar varð, þótt ekki sé talið að akrar
og tún hafi verið mikil að vöxtum á nútímamælikvarða. Afkoma
manna byggðist mest á kvikfjárbúskap og þar sem það var hægt voru
skepnurnar látnar ganga sjálfala allan veturinn. Almennt er talið að
úthey hafi þar að auki verið mikilvægasta uppspretta vetrarforða
allt frá landnámi.17 Það sem auk ræktunarmenningarinnar vekur
helst athygli þegar heimildir um búskaparhætti á landnámsöld eru
skoðaðar, er hinn mikli fjöldi nautgripa sem hér virðist hafa verið.18
14 Markús Á Einarsson, 1976: Veðurfar á Íslandi bls. 21
15 Páll Bergþórsson, 1968: Veðurfar bls. 60-65.
16 Gísli Gunnarsson, 1983: Grasspretta, nýting og heyfengur 1630-1900 samkvæmt
sögulegum heimildum.
17 Jónas Jónsson, 1968: Ræktun landsins, bls. 2
18 Jón Sigurðsson, 1861: Lítil varníngsbók handa bændum og búmönnum á Íslandi, bls. 16