Borgfirðingabók - 01.12.2009, Page 109
109Borgfirðingabók 2009
landbúnaðarframleiðslu í landinu. Aftur á móti telja flestir að of langt
hafi verið gengið í þessari framræslu votlendis, og nú er svo komið
að á láglendi hafa mýrar víðast hvar verið ræstar fram og lítið eftir
af ósnortnu votlendi. Afleiðing þessa er að á stórum svæðum hefur
vatnsbúskapur breyst mikið og verulega dregið úr allri temprun
straumvatna. Afleiðingar framræslunnar eru jafnvel enn alvarlegri
fyrir kolefnisbúskap mýra, því framræslan hefur þau áhrif að lífrænn
jarðvegurinn byrjar að rotna og við það streymir það kolefni sem
mýrarnar hafa safnað í sig í aldanna rás aftur út í andrúmsloftið og
veldur þar gróðurhúsaáhrifum.
Stór hluti framræst votlendis er ekki nýttur að ráði, og á undan-
förnum árum hafa margir bændur og aðrir landeigendur snúið við
blaðinu og hafið endurheimt votlendis með góðum árangri.
Votlendin á Hvanneyri
Á Hvanneyri eru fjölbreytileg votlendi sem hafa margháttaða
þýðingu fyrir náttúru landsins og sögu þjóðarinnar. Þessi votlendi
hafa alþjóðlegt mikilvægi, og stefnt er að því að þau verði brátt í
hópi Ramsar-svæðanna með öðrum mikilvægum votlendissvæðum
jarðar. Aðstæður á Hvanneyri til rannsókna á votlendi eru einstakar á
alþjóðavísu, auk þess sem svæðið er kjörið til hvers kyns útivistar og
fræðslu um lífríki og virkni votlendis.
Votlendin við Hvanneyri eru afar fjölbreytt, allt frá hallamýrum,
flóum og tjörnum til flæðiengja og leira út við ströndina. Hver þessara
votlendisgerða myndar sérstakt vistkerfi, hvert með sín einkenni og
búsvæði fyrir lífverur. Votlendi þar sem saltur sjór flæðir yfir engin
á stórstraumsflóðum eru t.d. afar frábrugðin votlendunum umhverfis
Vatnshamravatn, mýratúnunum eða flæðiengjum Hvítar.
Úr Friðlandi í Flóa. Litlar tjarnir,
nefndar „dælir“ af heimamönnum,
eru einkennandi fyrir svæðið.
Mynd: Jóhann Óli Hilmarsson.