Borgfirðingabók - 01.12.2009, Qupperneq 117
117Borgfirðingabók 2009
einnig gert sér far um að sýna reglulega fyrir eldri borgara. Sérstakar
ferðir hafa verið farnar um landið í þessum tilgangi. Hópurinn hefur
notið ýmissa styrkja fyrir störf sín, svo sem frá Menningarsjóði
Borgarbyggðar og Menntamálaráðuneytinu svo nokkuð sé nefnt.
Auk sýninga hér heima hefur hópurinn farið utan í sýningarferðir
og var sú fyrsta farin árið 1999. Farið hefur verið til eftirtalinna landa:
Kína, Kanada, Bandaríkjanna, Frakklands, Austurríkis, Tékklands,
Ungverjalands og Færeyja. Hópurinn hefur við þessi tækifæri verið í
samvinnu við ýmsa listamenn, svo sem Sigurð Rúnar Jónsson, Báru
Grímsdóttur, Kristján Kristjánsson (KK) og Kristínu Á. Ólafsdóttur.
Í ferðum sínum erlendis hefur hópurinn notið gestrisni landans
eða erlendra danshópa, og gjarnan eru þá haldnar sameiginlegar
dansæfingar. Sem dæmi um þetta má nefna danskvöld með
austurrískum danshópi í Vínarborg, kanadískum hópi í Winnipeg og
kvöld með færeyskum hringdönsum í Þórshöfn. Komið hefur einnig
fyrir að fulltrúar viðkomandi hópa hafi komið til Íslands, og hefur
Sporið þá tekið á móti því fólki og átt með því góðar stundir.
Aðalkennari Sporsins frá upphafi hefur verið Helga Þórarinsdóttir
hjá Þjóðdansafélagi Reykjavíkur, en einnig hafa Ásrún Kristjánsdóttir
og Hafdís Pétursdóttir félagar í Sporinu þjálfað á æfingum, og Kolfinna
Sigurvinsdóttir leiðbeindi hópnum vegna upptökuverkefnisins
haustið 2007. Sporið hefur við ýmis tækifæri notið góðrar aðstoðar
Snorra Hjálmarssonar söngvara, sem m.a. hefur sungið einsöng í
söngdönsum á upptökum með hópnum.
Danshópurinn hefur gert sér far um að miðla þekkingu um
dansana á sýningum, t.d. með því að kynna hvern dans stuttlega fyrir
áhorfendum. Kynningarnar hafa verið fluttar á ýmsum tungumálum
eftir aðstæðum, svo sem ensku, dönsku/norsku/sænsku og þýsku.
Ef um er að ræða áhorfendur sem tala mjög framandi tungumál er
enskan oftast látin duga og kynningar þá frekar hafðar í lágmarki.
Sem dæmi um þetta eru sýningar fyrir Japana, Grænlendinga og
Finna. Ef aðstæður leyfa er fólki gjarnan boðið í gamlan íslenskan
mars með hópnum í lok dagskrár, og gerir slíkt alltaf mikla lukku
meðal áhorfenda.
Hópurinn kemur alltaf fram í íslenskum upphlut og hátíðarbúningi
íslenskra karlmanna, en báðir eru þessir búningar frá 20. öld þótt
breitt bil sé á milli í tíma. Þannig undirstrika félagar í Sporinu þá
afstöðu sína að margir 19. og 20. aldar dansar hafi áunnið sér sterka