Borgfirðingabók - 01.12.2009, Blaðsíða 118
118 Borgfirðingabók 2009
hefð í landinu og geti því flokkast sem þjóðdansar. Það eru því ekki
einungis vikivakar og gamlir söngdansar sem hópurinn vinnur með,
heldur líka ýmsar gerðir af gömlu dönsunum. Sem dæmi um slíkt má
nefna syrpur af rælum og skottísum sem hópurinn hefur sýnt. Einnig
hefur verið vinsælt að sýna söngdans eftir Sigríði Valgeirsdóttur við
hluta af þýðingu Magnúsar Ásgeirssonar á sænsku ljóði Frödings
við lag Lamberts: „Laugardagsköldið á Gili“. Þar staðfærir Magnús
textann og heimfærir hann upp á Borgarfjörðinn, enda var hann frá
Reykjum í Lundarreykjadal. Hún Dóra á Grund í Skorradal var í þá
tíð forkunnarfögur og hún María litla átti heima á Varmalæk. Það var
eitt laugardagskvöld að Pétur á Rauðsgili og Bjössi frá Móabarði í
Reykholtsdal slógu upp balli. Dóri í Deildartungu í Reykholtsdal,
strákur frá Skarði í Lundarreykjadal og mjólkurbílsstjóri úr
Borgarnesi mættu ásamt stórlyndu Siggu og einþykku Stínu og fleira
fólki. Það er talið mjög líklegt að Hofs-Láki æringi austan af landi sé
Eiríkur í Bakkakoti í Skorradal, en hann kom frá Vopnafirði og spilaði
á harmonikku fram yfir nírætt. Hér eru fyrstu tvö erindi þýðingar
Magnúsar birt til glöggvunar:
Það var kátt hérna’ um laugardagskvöldið á Gili,
það kvað við öll sveitin af dansi og spili,
það var hó! það var hopp! það var hæ!
Hann Hofs-Láki, æringi austan af landi,
þar úti í túnfæti dragspilið þandi,
hæ, dúddelí! dúddelí! dæ!
Þar var Dóra á Grund, hún er forkunnar fögur
og fín, en af efnunum ganga’ ekki sögur,
hún er glettin og spaugsöm og spræk.
Þar var einþykka duttlungastelpan hún Stína
og hún stórlynda Sigga og Ása og Lína
og hún María litla á Læk.
Söngurinn á sér ríka hefð í íslenskri dansmenningu, enda hafa ljóð
og aðrar bókmenntir ávallt skipað sérstakan sess meðal þjóðarinnar.
Af þessum ástæðum hefur Sporið oft leitað út fyrir sínar raðir og bætt
við söngvurum á sýningum, og er þá leitað til vina og vandamanna
með hæfileika á þessu sviði. Mikilvægi textans sést í gömlu dönsunum