Borgfirðingabók - 01.12.2009, Page 126
126 Borgfirðingabók 2009
hún þá fallið niður. Hafi þá verið af illri nauðsyn gripið til þess ráðs
að kom á einhverjum ómerkilegum kláf, sem eitthvað hefir bætt úr í
bili, en hann svo ekki heldur haldist við af einhverjum ástæðum, en
þá eða síðar árstrengurinn þarna fengið nafnið Kláffoss, sem síðan
hefir haldist og mun haldast.
Hestar, vöð og fjárrekstrar
Það þarf engum blöðum um það að fletta að það að missa brúna af
Kláffossi hefir verið viðkvæmt mál og bagalegt fyrir Borgfirðinga og
fyrir allt Vestur- og Norðurland, og ekki hefur það gerst nema allar
leiðir væru lokaðar til endurnýjunar.
Nú er svo komið að báðar hinar gömlu brýr eru úr sögunni, enda
þótt ekki verði um það sagt með fullri vissu nær það var, og svo mun
hafa staðið um margra alda skeið. Í stað brúnna taka hestarnir og
vöðin aftur við allri umferðinni. Hvort tveggja það reyndist að mörgu
leyti vel eins og á stóð, en það eins og annað hefir sín takmörk. Oft
,,reyndi á beinin föst og fim“, og oft varð sorglegur endir á þeim
ójafna leik þegar maður og dýr háðu baráttu upp á líf og dauða við
heljarafl og jökulkulda hins æðandi vatnsfalls sem átti rætur sínar og
viðhald á meira en 4000 ferkílómetra svæði. Um það eru til margar
sagnir þegar bjargast var á næstum óskiljanlegan hátt úr heljarklóm
Hvítár sem svarf klappir og molaði björg. Oft komu hestarnir með
riddarann í taglinu til lands, og að minnsta kosti einu sinni kom
dauður hestur með lifandi mann til lands.
Áttundi tugur hinnar nítjándu aldar var einhver sá kaldasti og erf-
iðasti á síðari tímum. Þá þreifuðu Borgfirðingar alleftirminnilega á
brúarleysinu. Reykdælingar og Hálssveitungar keyptu sér upprekstrar-
land á Arnarvatnsheiði og leigðu og önnur lönd þar í nágrenninu,
til dæmis Lambatungur. Sumir Bæsveitingar höfðu og ítök fyrir fé
sitt vestan Hvítár, svo sem Stafholtsey. Gamlir menn sem voru við
fjárgæslu á þessum tímum hafa sagt mér að þeir hafi rekið til fjalls
á svo köldu vori að féð sílaði og fraus er það kom upp úr ánum, en
það varð að reka það yfir fjórar ár hverja eftir aðra áður en Hvítá
var brúuð á Barnafossi. Sumar af þessu ám eru allvatnsmiklar, en
þær eru Kaldá hjá Húsafelli, Geitá, Hvítá og Norðlingafljót. Neðan
við Kalmanstungu eru þær allar sameinaðar í eitt og heita úr því
einu nafni, Hvítá, og oft bætt við í Borgarfirði til aðgreiningar frá