Borgfirðingabók - 01.12.2009, Page 130
10 Borgfirðingabók 2009
svo hægt væri að ná því þó að frost væri í jörð. Að sunnanverðu
vann Bjarni bóndi á Hurðarbaki að grjótflutningi á sama hátt og
jafnvel fleiri. Þeim megin var þó hægt að taka allmikið grjót á
staðnum. Árni Zakharíasson, hinn gamli og góðkunni vegaverkstjóri,
vann að byggingu stöplanna áður en brúarsmiðirnir komu. Þekktur
Reykvíkingur, Helgi Helgason, var þarna aðalsmiður, en honum til
aðstoðar var Guðlaugur Torfason, er síðar fluttist til Reykjavíkur
og vann þar að skipasmíðum og fleiru. Hann var móðurbróðir Torfa
bónda í Hvammi í Hvítársíðu og þeirra bræðra.
Trén í brúna þóttu erfið í flutningum; voru mörg þeirra flutt á
kviktrjám á brúarstaðinn, en mörg þóttu of þung til þess. Þau voru
vaðdregin upp alla Hvítá frá Þingnesi. Voru fengnir til þess valdir
menn. Gistu þeir að Þingnesi og Hvítárbakka, sem þá hét raunar
Bakkakot, og lögðu eldsnemma af stað um morguninn. Óðu þeir með
landi allan daginn og alla nóttina með bönd um herðar sér, votir og
sveittir og náðu að brúarstæðinu eftir sólarhrings erfiði. Fyrir ómakið
fékk hver maður sex krónur og þótti ríflega borgað. Ekki er mér
kunnugt um hve langan tíma brúarsmíðin tók, en líkur benda til að
hún hafi gengið vel og staðið stutt yfir, því talið var að á túnaslætti
hefðu smiðirnir farið suður aftur.
Sú ferð gekk ekki slysalaust og skal þess hér minnst.
Brúin á Kláffossi, byggð 1920, mynd frá 1953. Mynd úr safni Jóns J. Víðis.