Borgfirðingabók - 01.12.2009, Side 132
12 Borgfirðingabók 2009
myndi vegna vel. Ég veit ekki til að nokkurn tíma hafi komið fram
veila eða missmíði í nokkru verki sem honum hefir verið falið, enda
þótt þau hafi verið hin vandasömustu.
Hvítárbrúin hjá Ferjukoti
Þá kem ég að brúnni á Hvítá hjá Ferjukoti. Hvítárbrúnni eins og hún
er oft nefnd í daglegu tali. Það er eins og ekki sé önnur brú til á ánni,
en þetta skilja allir vegna þess að þessi brú ber af öðrum brúm Hvítár,
en þær eru fjórar alls. Hún ber af að stærð og styrkleika, og hún ber
af hinum og af flestum brúm á landinu að fegurð, en þó sérstaklega á
þeim tíma sem hún var byggð og þá líka talin mesta brúarmannvirki á
landi hér. Hún var reist 1928. Hugmyndin um brúna var þá orðin æði
gömul, menn voru orðnir langþreyttir á ferjunni í Ferjukoti, auðvitað
fyrst og fremst ferjumennirnir, sem margoft höfðu lent í hinum mestu
erfiðleikum og lífshættu í vondum veðrum við erfiða aðstöðu, en
auðvitað einnig hinir mörgu sem þarna áttu leið um. Jafnvel hestarnir
urðu guðsfegnir að þurfa ekki lengur að leggjast til sunds í jökulvatnið,
jafnvel um hávetur. Það var ótrúlega erfitt og kostnaðarsamt að hafa
ekki aðra samgöngumöguleika en þetta fyrir svo fjölmenna og góða
byggð eins og hér var um að ræða. Hugsið ykkur að koma þarna að
með fjölda fjár á leið í sláturhúsið, stundum allt að eitt þúsund í einu
og máske þar yfir, eins og var er Lunddælingar ráku í Borgarnes dilka
sína.
Safnað var loforðum um fjárframlög
Bændur og bændasynir og jafnvel heimasæturnar og yfirleitt allt
hugsandi fólk þráði þá stund er elfan yrði brúuð. Borgfirðingar vildu
mikið til vinna. Þeir byrjuðu á veginum hjá Eskiholti sem sýsluvegi
ellefu árum fyrr en brúin var byggð. Að vísu voru báðar sýslurnar
saman um þá framkvæmd eftir vissu hlutfalli sem sýslunefndirnar
komu sér saman um. Farið var af áhugamönnum á hvern bæ í hverri
sveitinni af annarri til að safna gjafafé í veginn, og jafnvel brúna ef það
gæti orðið til að flýta fyrir framgangi málsins, níu eða tíu árum fyrr
en brúin var byggð. Fengust með þessu furðuhá gjafaloforð. Loforð
þessi voru þó aldrei efnd af öllum og lágu til þess tvær höfuðástæður.
Önnur var sú að um þetta sama leyti urðu bændur og búalið fyrir einu
því mesta fjárhagslegu áfalli sem komið hefir um langt árabil. Það var
verðfall aðalbúsafurðanna árið 1920 þegar bændur fengu dilkakjöt sitt