Borgfirðingabók - 01.12.2009, Page 139
19Borgfirðingabók 2009
sú sem frúin í Hraunsási lét brjóta niður. Þegar Hvítá er lítil kemur
steinbogi þessi í ljós, en þegar áin vex fer hann aftur í kaf og sést
ekki. Svo lítil getur áin orðið, og hef ég einnig séð það með eigin
augum að bogarnir eru tveir með litlu millibili. Hverfur áin öll undir
bergið þegar hún er lítil.
Ekki er mér kunnugt um hve lengi þetta hefir verið svo, en að ánni
kom ég fyrir 6-8 árum og sá þetta þá fyrst, en sjálfsagt hefir það ekki
verið nýtt þá, enda þó ég hafi frétt að þessu hafi verið veitt athygli
fyrr. Ætla má að þetta fari heldur vaxandi, heldur en hitt, því dropinn
holar steininn og iðnin við starfið er endalaus, þar er ekki vinnusvik
að ræða. Hvort sem brúin sést af landi eða ekki beljar þarna jafnan
hinn sterki straumur sem á fáa sína líka.
Til þess að staðfesta þessa frásögn skal ég geta þess að einn maður,
aðeins einn svo vitað sé, hefir gengið yfir þessa brú. Það var 1951, í
ágústmánuði að mig minnir, að Guðjón Guðmundsson, bóndasonur
frá Arkarlæk í Skilamannahreppi, fór yfir ána á þessari brú. Ekki vil
ég samt eggja menn á að nota brúna, því bæði er bergið jafnan blautt
og hált af úða fossins og svo er landtakan ekki góð þó komast megi.
Og þess ber að minnast að fallinn er sá sem fótanna missir á þessum
stað og tapaður samferðamönnunum. En vatn rennur þarna ekkert
yfir þegar áin er lítil.
Á myndinn sést steinboginn við Barnafoss sem getið er í greininni.
Mynd Sigvaldi Arason.