Borgfirðingabók - 01.12.2009, Síða 191
191Borgfirðingabók 2009
uppdrætti Björns Gunnlaugssonar til að styðjast við. Greinilegt er að
hann vísar á Króksvatn á kortinu, í stað þess vatns sem hann segir
sennilega Hrólfsvatn, eins og Matthías Þórðarson vekur athygli á.
Lýsing Kålunds á vatninu og tanganum er að öðru leyti rétt. Er þá
miðað við að dalurinn sem Lambadalslækur rennur um, áður en hann
fellur í Hrólfsvatn, vísi til hins litla Lambadals sem Kålund segir að
liggi til norðvesturs [væntanlega misritun fyrir norðausturs] upp í
heiðina, frá Sámsstaðahöfða. Tanganum lýsir hann svo að nes liggi
„frá austri til norðvesturs út í vatnið, fyrst mjótt, síðan breiðara, og er
talið að þetta sé staðurinn, þar sem sagan segir, að þeir hafi varist.“
Kålund nefnir ekki nyrðra vígið, en Brynjúlfur Jónsson frá Minna-
Núpi bætir úr því: „Nyrðra vígið á þessari leið hefði þá átt að vera
tangi í Krókavatni, nálægt Sléttafelli.“
Gamla kenningin um Hrólfsvatn sem bardagastaðinn byggist á
því að Barði hafi farið vestari leiðina um Tvídægru, en hún er mun
ógreiðfærari en Núpdælagötur og sumir segja nánast ófær ríðandi
mönnum að sumri til.
Hrólfsvatn er úr leið (nema ef farið hefur verið upp í gegn um
Lambadal eins og Kålund gefur til kynna) og telja verður með ólík-
indum að norðanmenn hafi þekkt aðstæður þar nógu vel til að skipu-
leggja vígi. Hrólfsvatn er syðst þeirra vatna sem nefnd hafa verið sem
hugsanlegir bardagastaðir, og ólíklegt má telja að eftirreiðarmenn
hafi náð vígamönnunum svo fljótt, þótt auðvitað megi geta þess sem
fram kemur í sögunni að félagar Barða voru ekkert að flýta sér, voru
bardagafúsir, og alltaf var gert ráð fyrir því að barist yrði á heiðinni.
Það mælir og á móti þessum stað að þaðan hefur Barði ekki séð nógu
snemma til ferða Illuga svarta og félaga til að geta forðað sér í tæka
tíð.
Loks má geta þess að Hrólfsvatn er ekki í Vatnaflóa og fellur því
ekki að sögunni að því leyti.
Kvíslavatn nyrðra
Í Kvíslavatni nyrðra er tangi sem svarar vel til lýsingar í sögunni.
Tanginn er tæpir 18 metrar á breidd, þar sem hann er mjóstur, og
frammi í honum er gott pláss fyrir hestana.
Brynjúlfur frá Minna-Núpi telur líklegra að Barði hafi farið
Núpdælagötur, það sé mun betri leið en sú vestari og liggi beinna við