Borgfirðingabók - 01.12.2009, Síða 203
20Borgfirðingabók 2009
Kveðja til sveitarinnar minnar
Nú hef jeg verið átta löng ár í útlandi, langt fjarri sveitinni minni
með fjallakransinn – Norðurárdalnum. Langt fjarri heimahögum þar
sem jeg þekki hverja þúfu og hvern stein, fólkinu sem jeg ann og
sem jeg heyri til, leiðinu lága í kirkjugarðinum í Hvammi, þar sem
pabbi og mamma sofa undir grænni torfu, svefninum hinsta í Jesú
nafni. – Átta ár í sífelldri baráttu við að koma sjer áfram, ryðja sjer
braut fram í óskalönd gæfunnar, sækja með öllu afli viljans áfram,
áfram, en þó oft hjálparvana og þreyttur, biðjandi Guð um kraft til
að stríða og ná takmarkinu. Jeg er unglingurinn sem 18 ára skildi við
dalinn og fólkið, sem jeg aldrei gleymi og fór út til ókunnugs lands,
en kom þó á fornar slóðir feðra minna. Því Noregur er þó þrátt fyrir
allt „móðir minnar móður.“ En ennþá er jeg sonur þinn sveitin mín.
Jeg er ennþá drengurinn sem ljek sjer að leggjum og völum á græna
balanum fyrir ofan kotbæinn, drengurinn sem hjelt í höndina hans
pabba þegar hann gekk til og frá starfi sínu. Jeg er smalinn sem eltist
við óþægan fjenað í hlíðunum og um holtin og hæðirnar þar heima.
Já jeg er barn sveitarinnar minnar fátæklegu heima á Íslandi, enda
þótt jeg sje nú æskulýðsskólakennari í Noregi.
Dalurinn minn, veit jeg, er fátækur, en fyrir mig var hann þó ríkur.
Auðæfin sem hann gaf mjer voru meira virði en silfur og gull. Þú
gafst mjer að njóta fegurðar þinnar. Nú geymi jeg þá fögru mynd,
sem verður mjer æ kærri með ári hverju. Í minni mínu eru ef til vill
fjöllin himinháu og grundirnar grænu, svanahljómurinn, silungsáin
ALBERT ÓLAFSSON FRÁ DESEY