Feykir - 16.03.2022, Blaðsíða 8
Takk haus!
ÁSKORANDAPENNINN | palli@feykir.is
Hæ, ég heiti Hrafnhildur.
Ég er með ADHD.
Hausinn á mér er gerður
til að finna endalausar
lausnir við vandamálum.
Búa til ferla sem láta
hlutina ganga betur og
hraðar fyrir sig. Ég er, já
eða var, brjálæðislega
góð í að gera marga
hluti í einu. Ég finn mjög
sterkt, ekki bara mínar
tilfinningar, heldur allra
annarra líka.
Það hefur stundum
komið mér í vandræði
því að fyrsta viðbragð
er að bjarga og hjálpa.
Ég hef í gegnum ævina
oft fundið mig á kafi í
aðstæðum sem hafa í
raun ekkert með mig að
gera, ég er bara komin
í björgunargallann og
ætla mér að redda þessu.
Fólk nefnilega skiptir mig
máli og hefur alltaf gert.
Sérstaklega fólkið sem
er komið inn fyrir skelina
mína og mér þykir vænt
um.
Mér hefur alltaf
fundist ofboðslega
erfitt að hugsa til þess
að einhverjum gæti
hugsanlega þótt ég
leiðinleg, eða verið illa
við mig. Hausinn á mér
hefur verið sérstaklega
frábær í að hjálpa mér að
hafa áhyggjur af þessu.
Takk fyrir það haus!
Ég er eldklár og var
frábær námsmaður
enda heilinn minn þeim
hæfileikum búinn að geta
skilið, sorterað og munað
ótrúlega mikið í stuttan
tíma. Ég massaði prófin
alltaf, en ef þú spurðir
mig um námsefnið viku
eftir próf er afar líklegt að
ég hafi horft á þig tómum
augum. Heilinn var búinn
að henda upplýsingunum
úr ruslinu, hann þurfti
að nota plássið í annað.
Það var ekki að sjá utan
á mér að í höfðinu á mér
væru 500 verkstjórar
sem allir töluðu í einu.
Ég var róleg, kurteis,
ábyrgðarfull, vinnusöm,
afar samviskusöm...
Jesús minn hvað ég var
samviskusöm.
Vissir þú að þannig birtist
ADHD oft hjá stelpum, í
samviskusemi, brjálaðri
vinnusemi, ofurathygli
á viðfangsefnið,
ofhugsunum og
endalausum kvíða? Við
erum góðar að taka
ábyrgð og fáum því oft
mikla ábyrgð. Það er ekki
endilega gott fyrir okkur.
Okkar skjól er oftar en
ekki í einhvers konar
sköpun því þar getum við
slökkt á heilanum og búið
til okkar ævintýraheim. Ef
við fáum ekki tækifæri til
að skapa í raunheimum
sér heilinn okkar um
að skapa fyrir okkur.
Stundum búum við meira
í ævintýraheimum sem
höfuðið býr til en í því lífi
sem við fæddumst inn í.
Það er bara oft svo miklu
friðsælla að búa þar. Ég
hef stóran part af lífinu
átt annað líf í höfðinu
sem ég gat alltaf flúið til.
Þetta er góður eiginleiki
fyrir listamann að hafa,
en stundum „pínulítið“ til
trafala. Takk haus!
Ég veit ekki alveg af
hverju ég er að segja
ykkur þetta. Kannski
er ég að biðja ykkur
um að passa upp
á samviskusömu
stelpurnar ykkar. Það
að vera dugleg þýðir
ekki endilega að manni
líði vel. Að geta tekið
ábyrgð þýðir ekki
endilega að maður eigi
að fá endalaust af henni.
Geymdu þetta bak við
eyrað, frá mér til þín. Ég
hugsa svo margt...
takk haus!
- Ég skora á Helgu
Hinriksdóttur í
Noregshreppi að skrifa
næsta pistil.
Hrafnhildur Víglundsdóttir frá Dæli í Víðidal
Hrafnhildur Ýr. MYND AÐSEND
Einhversstaðar austan við þig sjálfan
er á sínum forna stað,
feðra þinna og mæðra upphafs álfan,
aldrei kemstu þar í hlað.
Milli þín og hennar eru aldir,
allir straumar fyrir löngu kaldir,
þótt þú kannski eitthvað annað haldir!
Þú ert kominn langan veg í vestur,
veist þó hvergi handaskil.
Og kannski ertu á öllum stöðum gestur,
ekkert heimasetur til?
Ef líf þitt á nú aðeins villuslóðir
og engir kostir bjóðast lengur góðir,
þú sækir enga glóð í gamlar hlóðir!
Það kulnað er sem kveikti forðum neista
og kalið sérhvert strá.
Og nú er ekki neinu hægt að treysta,
það næðir þér um brá.
Því kuldalegt er bæði úti og inni
og ekkert til sem lífgar gömul kynni
sem hlýjuðu áður hjarta og vitund þinni!
AÐSENT | Rúnar Kristjánsson skrifar
Rótarslit
A T H U G I Ð !
Áskorendapennar eru á þremur svæðum þ.e. í
sitt hvorri Húnavatnssýslunni og í Skagafirði og
gengur út á það að skorað á annan á sama svæði
eða tengist því á einhvern hátt. Vel hefur gengið að
halda keðjunni óslitinni en einstaka sinnum kemur
það fyrir að hún slitnar og þarf þá að finna nýjan til
að koma áskorandapennanum af stað á ný og það er
hún Hrafnhildur að gera í þessum pistli og fær þökk
fyrir frá Feyki.
Blönduós
5G er komið
í þéttbýlið
„5G er komið í þéttbýli Blönduóss,“ segir í
tilkynningu á heimasíðu sveitarfélagsins en þeir sem
eru með nýjustu útgáfu símtækja frá Apple, Samsung
og Nokia geta nú loksins tengst því kerfi. Fyrstu 5G
sendar Símans fóru í loftið á dögunum en um er að
ræða 30 senda frá sænska fjarskiptafyrirtækinu
Ericsson og eru þeir flestir á höfuðborgarsvæðinu en
einnig hafa verið settir upp sendar á Egilsstöðum,
Þorlákshöfn og Blönduósi.
5G tæknin færir notendum enn meiri hraða, styður enn
fleiri tæki í einu og minnkar svartíma sem mun umbylta
notkunarmöguleikum, segir á heimasíðu Símans sem
vinnur að uppbyggingu þessarar fimmtu kynslóðar far-
símakerfa.
„Samhliða enn frekari þéttingu á 4G kerfi Símans um
land allt tryggir hinn nýi samningur hraðari uppbyggingu á
5G, nýjustu kynslóðar farsímakerfa en Síminn hefur í dag
sett upp 30 virka 5G senda,“ segir í frétt Símans en
undirritaður var fimm ára samstarfssamningur Síminn og
sænska fjarskiptafyrirtækið Ericsson um áframhaldandi
uppbyggingu og rekstur á farsímakerfi Símans.
„5G kerfi Ericsson mun færa viðskiptavinum Símans enn
meiri hraða og ánægjulegri upplifun enda Ericsson leiðandi
framleiðandi 5G farsímakerfa í heiminum. Samningurinn
gerir Símanum einnig kleift að þróa vöruframboð sitt enn
frekar og bjóða upp á nýjungar í farsíma og farneti á
næstunni.“ /PF
8 11/2022