Feykir


Feykir - 16.03.2022, Blaðsíða 9

Feykir - 16.03.2022, Blaðsíða 9
SÖFNIN OKKAR | Gunnar Rögnvaldsson hjá Byggðasafni Húnvetninga og Strandamanna á Reykjum í Hrútafirði skrifar Hákarlaskipið Ófeigur Einn merkasti safngripur sem Íslendingar eiga er hákarlaskipið Ófeigur sem hefur verið í eigu Þjóð- minjasafnsins síðan 1940 en varðveittur í Byggða- safninu á Reykjum við Hrútafjörð. Ófeigur á sér merka sögu, allur smíðaður úr inn- lendu efni af Jóni Jónssyni á Krossnesi í Árneshreppi árið 1875 fyrir Guðmund Pétursson í Ófeigsfirði sem þá var rétt rúmlega tvítugur. Guðmundur mun hafa efnað niður rekavið í skipið og allan saum og önnur járn smíðaði hann sjálfur. Segir sagan að Jón, við annan mann, hafi lagt eitt umfar borða á dag og lokið þannig við byrðinginn á hálfum mánuði. Ófeigur er tíróinn áttæringur, súðbyrðingur með breiðfirsku bátalagi, 11,9 metrar að lengd og 3,3 metrar á breidd, bar um fimmtíu og fimm tunnur lifrar eða um sjö tonn. Var honum haldið úti til hákarlaveiða í 33 vertíðir, en eftir það notaður til viðarflutninga á Húnaflóa í tuttugu ár. Ófeigur kom á safnið 1961 þegar lokið var að byggja yfir hann hús sem var fyrsti áfangi Byggðasafnsins. Ástand bátsins er gott og var hann gerður upp að hluta s.s. lifrar- kassinn og pallar og er hann í öndvegi í húsi sínu ásamt skemmtilegri og fræðandi sýningu um hákarlaútveg. Mikil verðmæti voru í lifrinni sem brædd var í lýsi og flutt út, m.a. sem ljósgjafi. Ófeigur var happafleyta en harðdrægt hefur verið að liggja úti á opnum báti dægrum saman við misgóðan kost og veður. Þó ekki hafi það verið um borð í Ófeigi þá bar það til í febrúar 1848 að kona ól barn um borð í báti sem róið var í hákarl úr Árneshreppi. Fæddi einn hásetanna, Jófríður Hans- dóttir þá stúlkubarn sem skírð var Guðrún. Fæðing- in gekk vel en Guðrún litla lést engu að síður ríflega ársgömul. Mikinn fróðleik er að finna um hákarlaútveg í ýmsum bókum og má þar nefna Íslenska sjávarhætti, Í verum eftir Theódór Friðriksson og skemmtilega grein eftir Gunnstein Steinsson frá Ketu í Skag- firðingabók 6. bindi 1973. Ófeigur á byggðasafninu. Efst til hægri: Ófeigur undir seglum (mynd af Sarpi). Fyrir neðan: Ófeigur, væntanlega þegar hann kom að Reykjum 1961. Hjá honum stendur Kári B Helgason AÐSENDAR MYNDIR Á Melum í Hörgárdal sýnir Leikfélag Hörgdæla frumsamið verk Péturs Guðjónssonar Í fylgd með fullorðnum sem jafnframt leikstýrir verkinu. Verkið byggir á lögum og textum Bjartmars Guðlaugssonar og fjallar um ævi Birnu sem er komin að ákveðnum kaflaskilum í lífi sínu og rifjar upp líf sitt allt frá bernsku til fullorðinsára. Leikkonurnar eru fjórar sem skipta hlutverki Birnu á milli sín og ein þeirra er Skagfirðingurinn Matthildur Jónsdóttir á Flugumýri. Feykir hafði samband við leikkonuna ungu og for- vitnaðist um þátttöku hennar í þessu skemmtilega leikriti. Í fylgd með fullorðnum var frumsýnt sl. fimmtudag fyrir fullu húsi og stemningin var hreint út sagt mögnuð. Hver kjaftur þekkir lögin sem lifað hafa með þjóðinni í áratugi og ekki hafði undirritaður áttað sig á hve vel þau lýsa tíðarandanum á lífshlaupi Birnu og hennar samferðafólks. Sagan er súrsæt, oft skemmtilegt hjá Birnu en hver ákvörðun og gjörðir hennar og þeirra sem í kringum hana eru hefur afleiðing- ar sem horfast verður í augu við. Ekki er það ætlunin að skrifa einhverja leik- húsgagnrýni hér en óhætt er að mæla með leikhúsferð í Hörgárdalinn og hverfa aftur til hinna dásamlegu daga þegar bjórinn var bannaður en vodki í kók og sígó var málið og vinnan hafði forgang á stúdentshúfuna. Leikurinn var ansi skemmtilegur en alls stigu 17 leikarar á svið, sumir alvanir en aðrir að stíga sín fyrstu skref, eins og segir í kynningu. Einn þeirra er ung og efnileg leikkona, Matthildur Jónsdóttir, Ingimarssonar og Margrétar Óladóttur á Flugumýri í Blönduhlíð. Hún leikur 13 ára Birnu sem er að kynnast ástinni og fara í gegnum unglingaveikina í leikritinu. Matthildur segist alltaf hafa verið spennt fyrir leikhúsinu og að taka þátt í uppsetningu á söngleik eða leikriti. „Svo ég fór bara í prufu og fékk hlutverk. Þó ég eigi heima á Flugumýri þá bý ég líka á Akureyri og er þar í skóla. Ég fæ alltaf far með einhverjum því við búum Ung skagfirsk leikkona í Í fylgd með fullorðnum Hefur alltaf verið spennt fyrir leikhúsinu Brugðið á leik; Matthildur t.v. ásamt Særúnu Elmu Jakobsdóttur, sem leikur Birnu 21 árs. AÐSEND MYND. eiginlega öll á Akureyri sem erum í leikritinu,“ segir Matthildur aðspurð um aðkomu sína að leikritinu. „Við byrjuðum að æfa seinnipartinn í janúar og mér finnst gaman hvað hópurinn nær vel saman. Það eru búnar að vera mjög margar æfingar en það er alltaf jafn gaman hjá okkur. Á frumsýningunni var ég pínu stressuð en svo gekk þetta bara allt vel. Mér líður bara alltaf vel á sviði. Það var góð stemning og allir voru spenntir og glaðir,“ segir hún. Það er mikið um að vera hjá Matthildi því auk þess að leika æfir hún á píanó, söng og blak og þess á milli er hún mikið fyrir það að fara á snjóbretti. En hvað er framundan? „Nú eru bara sýningar framundan á föstudögum og laugardögum og svo ætla ég að fermast 24. apríl. Svo er bara að reyna að komast á bretti upp í fjall inn á milli. Svo verðið þið bara öll að koma og horfa ef þið viljið vita eitthvað meira!“ segir hún í lokin. Í fylgd með fullorðnum er sýnt á föstudags- og laugardagskvöldum og miða er hægt að nálgast á Tix.is svo er hægt að fylgjast með framvindunni á Facebook-síðu Leikfélags Hörgdæla. /PF 11/2022 9

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.