Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2023, Page 62

Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2023, Page 62
60 Tímarit hjúkrunarfræðinga | 2 . tbl. 99. árg. 2023 Áhyggjur og kvíði nemenda beindist meðal annars að áhrifum faraldursins á námsframvindu og árangur í námi (Michel o.fl., 2021) og því hvort þeir næðu að útskrifast á réttum tíma (Suliman o.fl., 2021). Þá fundu nemendur til vonbrigða vegna þess hvernig þeir höfðu séð fyrir sér hjúkrunarnámið og hvernig það raunverulega varð (Laczko o.fl., 2022). Erlendar rannsóknir hafa sýnt að nemendur höfðu áhyggjur af því að ónóg klínísk þjálfun gæti skert framtíðaratvinnutækifæri þeirra (Fogg o.fl., 2020; Michel o.fl., 2021; Ramos-Morcillo o.fl., 2020; Suliman o.fl., 2021) og möguleika til framhaldsnáms (Fogg o.fl., 2020) en víða erlendis höfðu nemendur takmarkað aðgengi að færni- og hermisetrum sem og klínískri þjálfun á heilbrigðisstofnununum og dæmi voru um að klínískri þjálfun inni á heilbrigðisstofnunum væri skipt alfarið út fyrir rafrænt herminám (Fogg o.fl., 2020; International Council of Nurses, 2021). Þrátt fyrir að nemendur hafi verið þakklátir breytingum sem gerðar voru á skipulagi námsins í faraldrinum, til dæmis að breyta klínísku námi í herminám (Fogg o.fl., 2020) og færa bóklegt nám yfir á rafrænt form (Laczko o.fl., 2022) þótti mörgum yfirþyrmandi að þurfa að skipta fyrirvaralaust yfir í fjarnám. Nemendur höfðu áhyggjur af námsárangri sínum og íhuguðu jafnvel að hætta námi (Suliman o.fl., 2021). Reynsluleysi kennara í fjarkennslu reyndist mörgum nemendum erfið (Wallace o.fl., 2021) og þeir fundu oft til óöryggis og erfiðleika í sambandi við rafræn samskipti, svo sem hvernig ætti að spyrja spurninga og nálgast kennara (Ramos-Morcillo o.fl., 2020). Þá kvörtuðu nemendur yfir að tölvupósti væri ekki svarað, skorti á viðverutíma kennara, og að umsagnir um verkefni væru litlar og kæmu seint (Wallace o.fl., 2021). Aðrar rannsóknir hafa þó sýnt að nemendur fundu sjaldan fyrir skorti á samskiptum við kennara (Achmad o.fl., 2021). Fjallað hefur verið um skjáþreytu tengdu fjarnámi og nemendur hafa lýst minnkuðum námsáhuga (Achmad o.fl., 2021; Ramos-Morcillo o.fl., 2020), einbeitingarerfiðleikum, óþægindum í augum og syfju (Hu o.fl., 2022). Þá hefur miklum tæknilegum erfiðleikum vegna fjarnáms á tímum faraldursins verið lýst (Fogg o.fl., 2020; Hu o.fl., 2022; Suliman o.fl., 2021). Tæknilegir örðugleikar virðast hafa magnast að einhverju leyti á prófatímabilum og nemendur hafa lýst rafrænum prófum sem þreytandi og kvíðavaldandi (Elsalem o.fl., 2020) ásamt því að þeir höfðu áhyggjur af afleiðingum tæknilegra örðugleika á útkomu prófa (Wallace o.fl., 2021). Áhrif þess að skipta yfir í fjarnám með litlum sem engum undirbúningi nemenda og kennara við aðstæður líkar því sem sköpuðust í COVID-19 hafa lítið verið skoðuð á Íslandi. Markmið rannsóknarinnar var því annars vegar að lýsa áhrifum COVID-19-faraldursins á líðan og nám hjúkrunar- og ljósmóðurfræðinemenda og hins vegar að lýsa viðhorfum nemenda til breytinga sem gerðar voru á námsumhverfi þeirra á tímum faraldursins. AÐFERÐ Áhrif COVID-19 faraldursins á líðan hjúkrunar- og ljósmóðurfræðinemenda og viðhorf þeirra til námsumhverfis í samkomutakmörkunum Notuð var lýsandi eigindleg aðferðafræði þar sem tekin voru fjögur hálfstöðluð rýnihópaviðtöl. Rannsóknin er hluti af stærra rannsóknarverkefni þar sem jafnframt var safnað gögnum í langtíma þversniðsrannsókn meðal nemenda á Heilbrigðisvísindasviði Háskólans á Akureyri (HA) og í Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild Háskóla Íslands (HÍ). Niðurstöður þeirrar rannsóknar gáfu til kynna að mikilvægt væri að rýna í efnið af meiri dýpt og fá fram upplifun þátttakenda af námi og líðan á tímum faraldursins (Hrund Sch. Thorsteinsson o.fl., 2022; Sveinsdóttir o.fl., 2021). Framkvæmd Kynningarbréf ásamt beiðni um þátttöku í rannsókninni var sent í tölvupósti til nemenda sem valdir voru af handahófi úr hópi nemenda í grunn- (n=20) og framhaldsnámi (n=20) við HA og HÍ á vormisseri 2021. Þar sem svörun var lítil var ákveðið að senda tölvupóst á alla nemendur fyrrnefndra deilda (n=985) og óska eftir þátttöku í rýnihóp. Alls samþykktu 22 nemendur þátttöku í rýnihópaviðtölum. Fyrir viðtölin afboðuðu tveir nemendur sig og fimm mættu ekki. Um var því að ræða 15 þátttakendur í fjórum rýnihópum sem tekin voru jafnmörg viðtöl við. Rýnihópaviðtölin voru tekin af sérfræðingi við Rannsóknar- miðstöð Háskólans á Akureyri (RHA) í gegnum Zoom á tímabilinu maí–júní 2021 og fylgdi sérfræðingur RHA viðtalsramma sömdum af rannsakendum. Talið var mikilvægt að óháður aðili tæki viðtölin til að hindra áhrif rannsakenda á tjáningu nemenda í rýnihópaviðtölum, en þeir vinna allir við kennslu í umræddum háskólum. Viðtölin hófust með því að nemendur voru beðnir að lýsa því hvað kæmi helst upp í hugann varðandi námið á meðan á faraldrinum stóð miðað við „hefðbundið nám“ fyrir tíma COVID-19. Þeir voru einnig beðnir um að lýsa reynslu sinni af nýjum kennsluaðferðum sem teknar voru upp í faraldrinum, hvernig það var að vera nemandi, hvernig þeim leið, hvaða stuðning þeir töldu sig þurfa og hvaða stuðning þeir fengu á þessum tíma. Jafnframt voru þeir beðnir um að lýsa reynslu sinni af bóklegu og klínísku námi. Þátttakendur Þátttakendur í rannsókninni voru nemendur við Hjúkrunar- fræðideild HA og Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild HÍ, fjórtán konur og einn karl. Fimm nemendur stunduðu grunnnám í hjúkrunarfræði við HA, fimm stunduðu grunnnám í hjúkrunarfræði við HÍ og fimm framhaldsnám við HÍ. Engir nemendur sem stunduðu framhaldsnám við HA buðust til að taka þátt í rannsókninni. Meðalaldur þátttakenda var 33,5 ár (spönn 20-60 ár). Frekari lýsingar á þátttakendum verða ekki tilgreindar þar sem mikilvægt var fyrir framkvæmd rannsóknarinnar, að allar upplýsingar sem koma fram í rannsóknarniðurstöðum væru ópersónugreinanlegar. Gagnagreining Viðtölin voru skrifuð orðrétt upp af sérfræðingi RHA og þemagreind af rannsakendum (MHS og BGF) samkvæmt sex þrepum Braun og Clarke (2012). Í fyrsta þrepinu kynntu rannsakendur sér gögnin með því að lesa margsinnis yfir upprituð viðtöl og skrifa niður sínar fyrstu hugmyndir af þemum. Í öðru þrepi voru lykilsetningar sem tengdust

x

Tímarit hjúkrunarfræðinga

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Tímarit hjúkrunarfræðinga
https://timarit.is/publication/1159

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.