Skinfaxi

Árgangur

Skinfaxi - 01.03.2022, Blaðsíða 15

Skinfaxi - 01.03.2022, Blaðsíða 15
 S K I N FA X I 15 vinirnir lékum okkur úti meira eða minna allan daginn í alls konar leikj- um. Ég hafði sérstaklega mikinn áhuga á fótbolta, var alltaf með bolta og skaut honum þá í hlöðudyr því það var jú hvergi neitt fótboltamark að finna í bænum,“ segir Valdimar. Mörgum árum síðar átti hann eftir að koma því til leiðar að í bænum var gerður grasvöllur, frjálsíþrótta- völlur og upplýstur sparkvöllur fyrir fótboltakappa á öllum aldri. Rassskellti skipherrann Eins og margir af eldri kynslóðum vita og muna voru leikir barna á árum áður margir stórhættulegir. Valdimar og leikfélagar hans voru meðal þeirra barna sem lifðu sannarlega á brúninni í litlu sjávarplássinu. Þeir gerðu ótal margt sem væri stranglega bannað í dag, meðal annars að sigla á ísjökum með því að stjaka sér áfram á bambusstöng út á sjó. Valdimar kann margar æsilegar sögur úr ævintýrum æskunnar. Hér er ein: „Einu sinni vorum við þrír litlir félagar að sigla á svona einhvern vet- urinn og náttúrulega vorum við miklir skipherrar. Ég man að ég sigldi Bismarck og svo voru vinir mínir á öðrum þekktum „skipum“. Við flut- um þarna eitthvað fram og til baka en svo gerðist það að einn vinur minn fór of djúpt þannig að bambusstöngin hans náði ekki lengur til botns. Hann rak bara út og það endaði auðvitað með því að hann fór að hágráta. Blessunarlega átti maður leið þarna hjá sem kom til bjargar. Hann var að keyra eftir fjallshlíðinni heim í hádegismat þegar hann sá skipherrann grenjandi á herskipinu, fljótandi langleiðina á haf út. Maður- inn brunaði niður í fjöru, kom hlaupandi niður bakkann, kastaði sér út í sjó og synti að jakanum til að bjarga félaganum. Synti svo með hann í land, en þar reif hann niður um strákinn brækurnar og rassskellti sjálfan skipherrann. Hann hundskammaði hann og sagði að þetta skyldi hann aldrei gera aftur!“ segir Valdimar og skellir upp úr en heldur svo áfram að þetta hafi ekki stöðvað neinn: „Eftir þessa uppákomu fylgdumst við alltaf grannt með því hvort mað- urinn væri einhvers staðar sýnilegur því auðvitað létum við okkur ekki segjast og héldum siglingum áfram. Það sem mér finnst svo fallegt við þetta er hversu vel er passað upp á krakka í svona litlu samfélagi. Það koma allir að uppeldinu og taka ábyrgð.“ Tuttugu gámar af möl – jafn margir úr hjálpar- sveitinni Þegar Valdimar var hættur að lifa áhættusömu lífi á ímynduðum her- skipum í Arnarfirðinum og kominn til vits og ára rann upp fyrir honum að algjör skortur var á aðstöðu til íþróttaiðkunar í Bíldudal. Slíkt gengi auðvitað ekki lengur, svo hann fékk nokkra í lið með sér til að stofna félag. „Það hét einfaldlega Íþróttafélag Bíldudals og við fórum beint í að byggja upp frjálsíþróttavöll. Allt af mikilli hugsjón og í hreinni sjálfboða- vinnu og við gerðum allt sem mögulega hægt var að gera til að koma vellinum upp, sumt sem má reyndar ekki færa í prent,“ segir hann og kímir, en það er óhætt að fullyrða að hann hafi verið alveg framúrskar- andi ráðagóður þegar kom að því að leita lausna. Þegar kom að því að búa til hlaupabraut reyndist til dæmis engin möl til á svæðinu, svo að Valdimar tók upp símann og hringdi í fyrirtæki í Reykjavík sem hét Sandur. „Ég spyr hvort þau eigi svona efni og segist þurfa tuttugu gáma. Þau áttu það til en þá var það pælingin hvernig í andskotanum ætti að koma tuttugu gámum af möl alla leiðina vestur frá Reykjavík! Ég hringdi þá í skipafélag sem sigldi vikulega vestur frá höfuðborginni og sagðist hringja frá íþróttafélaginu á Bíldudal. Ég sagði: „Við erum með tuttugu gáma af sandi en eigum engan pening. Getið þið hjálpað okkur?“ Það gerðu þeir án þess að taka neitt fyrir. Það var svo margt svona sem gerðist. Allir til í að hjálpa öllum. Eins og til dæmis þegar við vorum að tyrfa fótboltavöllinn. Það gekk hálf brösuglega, svo ég brá á það ráð að hringja í Hjálparsveit skáta í Kópa- vogi. Þar sagði ég að mig vantaði svona tuttugu manns sem gætu kom- ið vestur eina helgi og hjálpað okkur að tyrfa völlinn. „Ég get borgað fimmtíu þúsund. Eruð þið til?“ Svarið var bara þrefalt já. Þau voru sko aldeilis til. Svo ég hringi í flug- félagið og segi að ég þurfi að koma tuttugu sjálfboðaliðum vestur sem ætli að hjálpa okkur að tyrfa fótboltavöllinn. Spyr hvort þau geti hjálp- að með því að fljúga þeim á Bíldudal fyrir ekki neitt. Þeir sögðust ætla að skoða þetta, svo var hringt aftur skömmu síðar: „Heyrðu, við þurf- um að skreppa klukkan fjögur og vélin er tóm. Við getum gert þetta. Svo að tuttugu hjálparsveitarmeðlimum var flogið vestur og allir fóru í að tyrfa. Svona gerðum við alveg ótrúlega hluti,“ segir Valdimar og nýtur þess að rifja upp lífið fyrir vestan – og lausnirnar sem varð að grípa til því ekkert gerist af sjálfu sér. Sparkvöllur í staðinn fyrir rækjur Að íþróttakennaranámi loknu fór Valdimar aftur vestur á Bíldudal til að kenna íþróttir. Hann ætlaði sér fyrst að vera bara í einn vetur en fjöl- skyldan kunni svo vel við sig að þeir urðu átta. Á þessu tímabili var stöð- ugt verið að betrumbæta íþróttaaðstöðuna og þá var farið í að byggja sparkvöllinn sem nefndur var hér að framan með hárri girðingu og flóð- lýsingu. En hvernig var það fjármagnað? Jú, með rækjum. „Á Bíldudal voru gerðir út tíu rækjubátar. Ég fór að kvöldlagi, þegar orðið var mjög dimmt, og heimsótti alla skipstjórana. Sagði þeim hvað ég hugðist gera og spurði hvort þeir væru tilbúnir í að gefa mér einn kassa af rækju sem yrði landað framhjá vigtinni á hverjum föstudegi. Ég útskýrði fyrir þeim að ég væri þegar búinn að tala við vigtunarmann- inn og langaði því næst að vita hvort skipstjórarnir væru til í að gefa mér rækjur út veturinn. Það reyndust allir til, svo ég fór og heimsótti verkstjórann í rækjuverksmiðjunni og tilkynnti honum að ég fengi tíu kassa af nýrri rækju á hverjum einasta föstudegi og spurði hvort hann væri til í að skipta; láta mig hafa einn kassa af unninni rækju fyrir hvern kassa af óunninni. Hann græddi á því og ég græddi sannarlega á því þar sem ég var búinn að semja við hótel í Reykjavík um að kaupa tíu kassa í hverri viku og þannig fjármögnuðum við þennan völl! Þetta var náttúrlega vita ólöglegt. En það er allt í lagi að liðka aðeins til þegar málstaðurinn gagnast öllu samfélaginu. Þetta hefur skilað sér margfalt til samfélagsins,“ segir Valdimar. Haukur Valtýsson, fyrrverandi formaður UMFÍ, afhendir Valdimar hvatningarverðlaun UMFÍ sem UMSK fékk 2018. Valdimar tók þátt í að skipuleggja Drulluhlaup UMFÍ sem haldið var í Mosfellsbæ í sumar.

x

Skinfaxi

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skinfaxi
https://timarit.is/publication/334

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.