Stuðlaberg - 01.06.2014, Qupperneq 19
STUÐLABERG 1/2014 19
bragfræðikennslu. Mér finnst þetta yfirleitt
ganga ljómandi vel. Málin eiga það hins vegar
til að flækjast svolítið þegar á að spreyta sig
á túlkun ljóða og þekkja alls kyns hugtök
sem tengjast slíkri vinnu svo sem vísun,
endurtekningar, minni, myndhverfingar,
viðlíkingar og fleira slíkt. Bragfræðin sjálf er
sjaldnast flókin.
Verður þú vör við aukinn áhuga nemenda á hefð-
bundnum ljóðum eftir að þeir hafa lært bragfræði?
Mér finnst þeir hafa aukna ánægju af því
að hlusta á hefðbundin ljóð lesin. Væntanlega
tengist það m.a. hrynjandi ljóðsins sem
kennari getur komið til skila en nemandi áttar
sig ekki alltaf á sjálfur. Hrynjandin er auðvitað
mikilvæg hvað varðar innihald og samhengi.
Það er hlutverk grunnskóla að leggja sem
fjölbreyttastan grunn til framtíðar og svo er
misjafnt hvaða hluti grunnsins nýtist hverjum
og einum. Við eigum misjafnt líf fyrir höndum
og því dýrmætt að eiga fjölbreytt veganesti,
m.a. úr grunnskóla.
Hvert er uppáhaldsskáldið, hefðbundið að
sjálfsögðu?
Það veltur á líðan og stemningu hverju
sinni hvert ég leita og reyndar líka eftir til-
gangi. Ég nota ljóð talsvert, t.d. í leiðsögn
með Íslendinga. En frá unglingsárum hef ég
haldið mjög upp á Tómas Guðmundsson og
Stein Steinarr. Ég hreifst af ljóðum þeirra og
þau hrífa mig enn. En það gera líka mörg
fleiri ljóðskáld. Ég hef t.d. oft leitað í smiðju
Hákons Aðalsteinssonar og held líka mikið
upp á Vatnsenda-Rósu.
Yrkir þú sjálf?
Nei, því miður. Ég hef ekki komist upp á
lag með það og heldur ekki lagt mig eftir því
að neinu gagni. Ég er þokkalegur smiður fyrri
parta ferskeytlna en mér lætur síður að botna.
Telur þú ástæðu til að auka vægi bragfræðinn-
ar í grunnskólum?
Ung kona benti mér á að „allt sem stuðlar
er satt“. Með þeim rökum er svo sannarlega
ástæða til að auka vægi bragfræðinnar. En að
öllu gamni slepptu þá er alltaf hægt að gera
betur en ég þekki ekki til hvernig þessu er
háttað í öðrum grunnskólum. Hér í Foldaskóla
kennum við bragfræði í öllum árgöngum ung-
lingastigs og þegar nemendur koma í 8. bekk
þekkja þeir þegar grunnatriði svo sem rím og
hrynjandi. Í nýrri aðalnámskrá grunnskóla
segir meðal annars að nemendur eigi að geta
notað algeng hugtök í bragfræði í umfjöllun
um bundið mál og óbundið, lesið og túlkað
ljóð af ýmsum toga og frá ýmsum tímum. Ég
reikna fastlega með að á þetta sé lögð áhersla í
öllum grunnskólum. Hér í Foldaskóla verjum
við líklega um það bil tveimur kennslustund-
um á viku, einn þriðja af skólaárinu, í brag-
fræði og ljóðavinnu og mér hefur fundist það
hæfilegt og skemmtilegt.
RIA.
Inga Rósa hefur mikinn áhuga á móðurmáls-
kennslu og útivist.