Stuðlaberg - 01.04.2022, Side 7

Stuðlaberg - 01.04.2022, Side 7
STUÐLABERG 1/2022 7 Nú er mínu lokið láni, líf og dauði benda mér, sumar, vetur, sól og máni að sjá mig stöðugt eftir þér. Alla hjartans æðarslætti, allt ég heyri, sé og finn, gjörðir, orð og andardrætti endurtaka missi þinn. Stundum setur hann söknuðinn í felu­ búning og yrkir náttúruljóð: Nú er þögnuð lindin litla er lengst hefur þig svæft og vakið, aldrei mun þín eyru kitla aftur hennar mjúka kvakið. Fjörið hnígur fyrir elli, frostið hitann lítils metur svo lítil verður lind að svelli og langur hennar dauðans vetur. Ekki þarf að skoða þessar breiðhendur lengi til að skynja hvaða tilfinningar liggja þar að baki. Margir hafa líka haldið því fram að ljóðið um hrísluna og lækinn sé ástarljóð til Ragnhildar. En Ragnhildur kom aftur austur á Hérað og samband þeirra hélst óbreytt næstu ár. Ljóðin verða til eitt eftir annað og fundum þeirra ber saman af og til. Stutt er frá Hallfreðarstöðum í Eyjólfsstaði og Páll gisti þar gjarnan þegar hann átti leið um vegna embættis síns sem umboðsmaður konungsjarða. Þar bjó Bergljót, móðir Ragnhildar, og ekki annað að sjá en þessi ástfangni embættismaður væri þar velkominn: Æ, mér leiðist, ástin mín, æ, mig langar sárt til þín. Fá ei bækur, fljóð né vín friðað sálu mína. Eins og fossinn fleygir sér fyrir björg og hvað sem er, viljinn, hjartað, vonin mér varpa í kjöltu þína. Árið 1880 lést Þórunn Pálsdóttir. Það sama ár, nánar tiltekið á afmæli Ragnhildar, þann 5. nóvember, ganga turtildúfurnar í hjónaband, orðin nokkuð fullorðin eins og fyrr kom fram. Séra Stefán Halldórsson, sonur Þórunnar af fyrra hjónabandi, gaf þau saman. Og í apríl fæðist þeim sonur sem skírður er Björn Skúlason Pálsson. Þá er Ragnhildur flutt í Hallfreðarstaði og með henni móðir hennar, Bergljót, náfrænka konunnar sem Páll hafði misst og syrgði, eða hvað? Sagan segir að næstu ár hafi verið mesti hamingjutíminn í lífi hans. Hann yrkir ferskeytt: Ástin þín er ekki dyggð, ekki skylda heldur, hún er ekki heldur tryggð, hún er bara eldur. Páll notar þekktan bragarhátt sem reyndar hefur aldrei fengið nafn. Hann yrkir létt og leikandi og er fullur af ást og hamingju: Læt ég fyrir ljósan dag ljós um húsið skína, ekki til að yrkja brag eða kippa neinu í lag heldur til að horfa á konu mína. En lífið fór ekki alltaf mildum höndum um Pál og Ragnhildi. Barnaveiki kom upp á Hallfreðarstöðum árið 1886 og tveir synir þeirra dóu í sömu vikunni. Elsta soninn, Björn Skúlason, misstu þau árið 1882. Páll tók dauða sona sinna afar nærri sér og hann fylltist af depurð og kvíða. Hann gerðist nú gamall og heilsuveill og búskapurinn gekk ekki eftir væntingum, harðindi þjökuðu bændasamfélagið undir lok nítjándu aldar og skáldið finnur til vanmáttar síns. Þunglyndið kemur glöggt fram í ljóðum hans en nú er Ragnhildur eina haldreipið. Svona er þó ég sofni blund sama og þá ég vaki, hjartað um þig hverja stund heldur dauðataki.

x

Stuðlaberg

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Stuðlaberg
https://timarit.is/publication/1892

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.