Stuðlaberg - 01.04.2022, Qupperneq 11

Stuðlaberg - 01.04.2022, Qupperneq 11
STUÐLABERG 1/2022 11 Og bárurnar berast að landi Nýjar bækur Skvetta, falla, hossa og hrista Á síðasta ári kom út bókin Út yfir stað og stund eftir Valgeir Sigurðsson, fyrrum kennara á Seyðisfirði (1924–1995). Útgefandi er Félag ljóðaunnenda á Austurlandi. Um er að ræða úrval úr verkum höfundarins sem einkum var þekktur fyrir sérdeilis vel gerða dægurlagatexta. Ingólfur Steinsson ritar inngang. Fyrsti hluti bókarinnar heitir Þekktir textar og minna þekktir. Margir af textum Valgeirs náðu miklum vinsældum. Þar má nefna smelli eins og Litla, sæta ljúfan góða sem Vilhjálmur Vil­ hjálmsson söng með hljómsveit Ingimars Eydal; Skvetta, falla, hossa og hrista sem gert var fyrir Svavar Gests og Ragnar Bjarnason gerði vinsælt; Blátt oní blátt sem Óðinn Valdimarsson söng með tilþrifum; Manstu, vinur sem Anna Vilhjálms flutti með sinni ljúfu og fallegu rödd og Þú varst sem blíðasti blærinn sem sá eftirminnilegi bassasöngvari, Þorvaldur Halldórsson, skilaði inn á plötu. Allir þessir textar og fjölmargir fleiri birtast í bókinni. Annar kafli bókarinnar heitir Ljóð og kvæði. Þar getur að líta falleg og vel gerð ljóð. Eitt þeirra heitir Spor: Ég geng eftir svörtum sandi og sjá, hér er ekkert spor því bárurnar berast að landi og brotna við fótspor vor. Og bárurnar berast að landi og bjóða oss heim til sín. Ég geng eftir svörtum sandi og sjá, hér er vegferð mín. Valgeir á það til að vera stuttorður og gagnorður. Þetta ljóð heitir Húsin: Sum eru húsin hlaðin úr steini höggnum með fleini. Traust eru húsin, harður er steinninn, harðari fleinninn. Lokakafli bókarinnar heitir Seyðisfjörður, pólitík, síldin og jólin. Þar eru aftur ljóð í léttum dúr, meðal annars textar frá síldarárunum ásamt ýmsu skemmtilegu úr bæjarlífinu. Valgeir var einn af þeim sem gaf dægur­ tónlistinni menningarlegt yfirbragð og lét lagasmiðum og hljóðfæraleikurum sveita­ ballanna í té vel unna, skemmtilega og gríp­ andi texta. Það framlag hans til íslenskrar tungu verður seint fullþakkað. Allt um kring er kyrrð og ró Bókaútgáfan Sæmundur hefur sent frá sér bókina Ég er nú bara kona eftir Emblu Rún Hakadóttur. Embla Rún er þekkt fyrir skemmtilegar og vel gerðar vísur sem hafa meðal annars oft birst hér í blaðinu (sjá viðtal við hana í Stuðlabergi 2/2013, bls. 5–6). Bókin er rösklega sjötíu blaðsíður. Ljóðin eru flest opin, stutt og hnitmiðuð. Embla Rún er fljúgandi hagmælt og hefur gaman af að leika sér með orðin og bragarhættina. Í fyrsta kafla bókarinnar getur að líta bæði mannsöng og mansöng. Þar er líka stutt ljóð sem heitir Kynlegar vísur: Hún er fyndin, stór og sterk, stolt og öflug, þorin, hávær, iðin, heilbrigð, merk og huguð tekur sporin. Hann er fagur, friðsæll, mjór, feiminn, þægur, blíður. Ljúfur, góður, lítill, rór, léttur, smár og fríður.

x

Stuðlaberg

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Stuðlaberg
https://timarit.is/publication/1892

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.