Stuðlaberg - 01.04.2022, Page 32

Stuðlaberg - 01.04.2022, Page 32
32 STUÐLABERG 1/2022 Þegar glittir í gulan mána Lausavísnaþáttur Við byrjum þáttinn á vorvísum eftir Kristin Bjarnason frá Ási: Þó að fenni um fjallasvið, frost sé enn að verki, rumski menn og vakni við vorsins kennimerki. Lækir smáir, gil við gil, glymja háum rómi, grípur áin undirspil, allt svo nái hljómi. Vægir rosa og veðraþyt, vermist flos á steini. Gegnum mosans gróðurlit Guð er að brosa í leyni. Og fleiri hugsuðu til vorsins í vetur. Gunnar J. Straumland yrkir hringhend og refhverf sléttubönd á þorra: Hlána fannir vetrar vart, vonir manna dvína. Mána skjanni blikar bjart, brimsins hrannir skína. Þeir sem enn vona að einhvern tímann hláni eiga þess kost að lesa vísuna afturábak: Skína hrannir brimsins bjart, blikar skjanni mána. Dvína manna vonir vart, vetrar fannir hlána. Sigurbjörn Ásgrímsson varð fyrir því að áskrift að Stuðlabergi féll niður fyrir mis­ skilning. Þegar þessu hafði verið kippt í lag sendi hann vísu: Mín áskriftin steytti á steini, að Stuðlabergs­heftinu góða. En djúpt í mér lá hún í leyni, löngunin æsta í gróða úr orðaflaum andríkra sjóða. Gunnar Bjarnason hrossaræktarráðunautur var á fundi með hrossaræktendum fyrir austan. Honum urðu á þau mismæli að tala um þegar hryssurnar færu að bera. Hann áttaði sig á þessu og baðst afsökunar. Hjalti bóndi á Hólum í Hornafirði orti: Hryssan mín er full með fyl sem fáir munu lasta. Ætli hún beri ekki um það bil sem ærnar fara að kasta. Óskar í Meðalheimi var ásamt Dagbjarti Dagbjartssyni á vísnakvöldi í Víðihlíð. Hann orti: Mannkyninu er mikilsvert að meistarans snilld það lýsi en Drottinn hefur Dagbjart gert dálítið öðruvísi. Jón Þ. Björnsson, kennari og organisti í Borgarnesi, setti saman limru þar sem hann var að leika sér með stóran og lítinn staf: Steingrímur Stefánsson, Laug, staðhæfði að séð hefði’ann draug hamast í heyi á hásumardegi. Steingrímur Stefánsson laug. Sigrún Haraldsdóttir orti myndræna vísu: Þegar glittir í gulan mána er gaman að fara á krána, finna þar flón og bjána og fá sér í aðra tána. Guðmundur Arnfinnsson kvað í einhverju illviðrinu nýlega: Batt ég niður bátinn minn, bjó mig undir rokið, trampólínið lét ég inn, en lánstraustið er fokið.

x

Stuðlaberg

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Stuðlaberg
https://timarit.is/publication/1892

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.