SÍBS blaðið - 01.11.2023, Blaðsíða 12
12
SÍBS-blaðið
Margar þær áskoranir sem íslenskt samfélag stendur frammi
fyrir í dag og í nánustu framtíð krefjast sameiginlegra aðgerða
stjórnvalda og samfélagsins alls þar sem unnið er þvert
á geira og stjórnsýslustig. Dæmi um slíkar áskoranir eru
meðal annars loftslagsbreytingar, gervigreind, breytt aldurs-
samsetning þjóðarinnar, ýmsar ógnir við andlega líðan og
ójöfnuður til heilsu. Almennt er viðurkennt að það er hægt er
að bregðast við og vinna að úrlausnum þessara flóknu mála
á áhrifaríkan hátt með samþættingu í opinberri stefnumótun,
áætlanagerð og vinnulagi þar sem öll málefnasvið og aðrir
hagaðilar hafa hlutverk í vegferðinni að sameiginlegum mark-
miðum.
Heilsa er allt í senn andleg, líkamleg og félagsleg vellíðan.
Samanber áhrifaþætti heilbrigðis og vellíðanar (mynd 1), er
algjör lykilforsenda að heilsa og líðan fólks ráðist af flóknu
samspili einstaklinga við sitt nánasta umhverfi og aðstæður.
Einstaklingar þurfa að búa yfir viðeigandi forsendum til að
líða vel og taka sem bestar ákvarðanir fyrir sig og jörðina
(hvíti og guli boginn) og á endanum snýst lýðheilsa um það
í hvers konar samfélagi fólk býr. Góður samhljómur er á milli
grunnstoða sjálfbærrar þróunar og áhrifaþátta heilbrigðis
sem eru allt í senn félags-, efnahags- og menningarlegar
aðstæður sem og byggt og náttúrulegt umhverfi (græni, rauði
og appelsínuguli boginn). Auk heilbrigðisþjónustu eru þættir
eins og atvinna, húsnæði, menntun, félagsþjónusta, loftgæði,
tækifæri til að tilheyra og taka þátt í samfélagi og öryggi í
víðasta skilningi dæmi um hornsteina heilsu sem er mikilvægt
að standa vörð um sama hvaða samfélagslegu áskoranir er
um að ræða.
Heilsa í allar stefnur
Í viðleitni við að ýta undir þverfaglegt samstarf og lausnir hefur
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) skilgreint Heilsu í
allar stefnur (HíAS) (Health in all policies = HiAP) sem nálgun
við opinbera stefnu, þvert á geira. Áhersla er á að taka kerfis-
bundið tillit til áhrifa ákvarðana á heilsu í því skyni að bæta
ekki aðeins heilsu sumra heldur allra íbúa (Health for all).
Þrátt fyrir umtalsverða útbreiðslu HíAS í ýmsum löndum á
heimsvísu, hefur innleiðing nálgunarinnar ekki verið auðveld.
Að skilja og takast á við undirliggjandi áhrifaþætti heilsu er
áskorun því áhrif þessara þátta er oft á tíðum óbein, marg-
þætt og flókin. Það veldur því til tildæmis að sumir ganga enn
út frá því að heilsa sé fyrst og fremst „eign“ og viðfangsefni
heilbrigðisgeirans. Sem fyrr segir er heilbrigðiskerfið vissulega
afar mikilvægt en aðeins hluti af heildarmyndinni þegar heilsa
og líðan fólks er annars vegar, samanber regnbogann á mynd
1. Sú staða getur einnig komið upp að til dæmis lýðheilsumark-
mið stangist á við markmið á öðru sviðum. Að vinna þvert á
geira krefst þess meðal annars að hugsa hlutina út fyrir boxið
og nálgast þá með nýjum hætti og það getur reynst þrautin
þyngri í gamalgrónum kerfum sem eru vön því að vinna í sínu
„sílói“. Borgaralegt samfélag getur gegnt mikilvægu hlutverki
við að kalla eftir sterkari heildstæðari samvinnu stjórnvalda.
Saga árangurs í lýðheilsumálum sýnir okkur að borgaralegir
aðilar eru oft sterkustu talsmenn HíAS (HiAP).
Lýðheilsumat
Hvað lýðheilsumat varðar er almennt mikilvægt að meta
hvaða áhrif ákvarðanir stjórnvalda hafa á samfélagið. Meta
þarf möguleg jákvæð og neikvæð áhrif stefnu og aðgerða á
velsæld umhverfisins og fólksins og í framhaldinu leita leiða
til að hámarka jákvæð áhrif og lágmarka þau neikvæðu. Í
þessu felst meðal annars að meta bein og óbein áhrif á heilsu
og líðan hópa fólks almennt og einnig ýmissa undirhópa.
Þegar kostnaður er metinn er því ekki fullnægjandi að meta
beinan kostnað heldur þarf einnig að taka með í myndina
mögulegan óbeinan kostnað fyrir þessa þætti. Við innleiðingu
áhrifamata eins og lýðheilsumats hefur reynslan leitt í ljós
mikilvægi þess að samræma þau og einfalda eins og hægt er
til framkvæmd þeirra verði raunhæf á öllum stigum stjórn-
sýslu.
Velsældarhagkerfi
Hugmyndafræði velsældarhagkerfis (e. wellbeing economy)
hefur verið að ryðja sér til rúms á síðustu árum og hefur
fengið meðbyr víða. Eitt af því sem þessi nálgun á að leiðrétta
er að aukinn hagvöxtur hefur ekki alltaf jákvæð áhrif á sam-
félagið þar sem hagvöxtur vex með alls konar þáttum sem
hafa neikvæð áhrif á heilsu og samfélagið eins og til dæmis
með aukinni sölu á áfengi og tóbaki og mengandi iðnaði. Hag-
fræðilegum mælikvörðum eins og vergri þjóðarframleiðslu var
ekki ætlað að mæla velsæld þjóða og hagfræðingurinn sem
hannaði þann mælikvarða varaði sérstaklega við því að nota
mælikvarðann til þess. Hagvöxtur átti að vera leið að aukinni
velsæld sem er lokamarkmið en einhvern veginn hafa hlut-
irnir þróast þannig að hagvaxtamælingarnar hafa víða orðið
að lokamarkmiði stjórnvalda. Hugmyndafræði velsældarhag-
kerfis er sett fram til að leiðrétta þessa þróun.
Grein
Dóra Guðrún Guðmundsdóttir
sviðsstjóri lýðheilsusviðs hjá
embætti landlæknis
Lýðheilsa í
velsældarhagkerfi
Gígja Gunnarsdóttir
verkefnastjóri heilsueflandi
samfélags hjá embætti landlæknis