Framkvæmdafréttir Vegagerðarinnar - 19.06.2023, Page 12

Framkvæmdafréttir Vegagerðarinnar - 19.06.2023, Page 12
12 Framkvæmdafréttir nr. 725 3. tbl. 31. árg. Tíminn í mælingunum var lærdómsríkur og Magnús segir þetta hafa verið góðan grunn fyrir framtíðina. Til dæmis kynntist hann Norðurlandi mjög vel. Þá kynntist hann fjölmörgum vegagerðarmönnum sem voru honum samtíða síðar hjá Vegagerðinni. „Fyrsta sumarið kynntist ég Birni Ólafssyni sem var þá nýútskrifaður verkfræðingur og síðar yfir þjónustudeild. Einnig vil ég nefna Guðmund Svavarsson, umdæmisverkfræðing á Akureyri, Birgi Guðmundsson, sem lengi starfaði sem umdæmisstjóri í Borgarnesi, Guðmund Heiðreksson, hönnuð á Akureyri og Sigurð Oddsson, byggingatæknifræðing á Akureyri.“ Eftirminnilegasti tími Magnúsar sem mælingamaður var sumarið 1975. „Þá var ég við Mývatn þar sem var verið að leggja vegi. Við leigðum herbergi í skólanum á Skútustöðum og gistum þar megnið af sumrinu. Þá var í gangi hið svokallaða Kröfluævintýri sem snerist um að byggja fyrstu gufuaflsvirkjunina í Kröflu, rétt austan við Mývatn. Það var því mikill uppgangur á svæðinu, allt fullt af verktökum og ungu fólki í vinnu. Þessi virkjun var heitt mál á sínum tíma en það fór þó ekki betur en svo að það fór að gjósa í Kröflu og þetta hálf klúðraðist allt saman. En fyrir mig var þetta yndislegur tími og í minningunni var alltaf gott veður.“ Útskriftarverkefni tengt Vegagerðinni Þar sem Magnús þekkti vel til í Vegagerðinni þótti tilvalið að hann ynni lokaverkefni sitt í byggingarverkfræðinni í tengslum við hana. Á þessum tíma, rétt fyrir 1980, fór af stað átak í að leggja bundið slitlag, svokallaða klæðingu, á malarvegi. „Byrjað var að prófa þessa aðferð fyrst árið 1978 og ég vann lokaverkefni mitt um klæðingar. Á þeim tíma var ég mikið niðri í Vegagerð og kynntist mönnum eins og Rögnvaldi heitnum Jónssyni og Sigursteini Hjartarsyni, sem voru miklir gúrúar í þessum fræðum og leiðbeinendur mínir í verkefninu.“ Magnús var því orðinn nokkuð vel að sér í vegagerð þegar hann útskrifaðist úr MBA-náminu 1981. „Þá hringdi Jón Birgir Jónsson, sem þá var forstöðumaður framkvæmdadeildar, í mig og bauð mér vinnu. Hann hefur líklega verið búinn að sjá að ég væri nothæfur,“ segir Magnús glettinn en hann hafði ekkert frekar hugsað sér að fara að vinna hjá Vegagerðinni eftir útskrift. „En ég þekkti vel til, sem var þægilegt, og því tók ég þessu góða boði.“ ↓ Magnús Valur á ferð um Vestur-Húnavatnssýslu með rekstrardeildinni í mars 1995. Með honum á myndinni eru Richard A. Hansen og Þórarinn G. Ólafsson.

x

Framkvæmdafréttir Vegagerðarinnar

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Framkvæmdafréttir Vegagerðarinnar
https://timarit.is/publication/1142

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.