Framkvæmdafréttir Vegagerðarinnar - 19.06.2023, Blaðsíða 19

Framkvæmdafréttir Vegagerðarinnar - 19.06.2023, Blaðsíða 19
Framkvæmdafréttir nr. 725 3. tbl. 31. árg. 19 Umferðargreinir sem mælir þungaumferð Stefnt er á kaup á nýjum umferðargreini sem getur mælt þyngd ökutækja með meiri nákvæmni. „Þessi nýi umferðargreinir er einfaldur í uppsetningu og lítið mál að færa hann á milli staða. Tækið er fest undir brýr í tvær til þrjár vikur í senn og mælir þyngd ökutækja og stærð þeirra. Nákvæmni tækisins er meiri en annarra umferðargreina þar sem það getur mælt þyngd ökutækja niður á hvern öxul,“ lýsir Birkir. Vonir standa til að tækið verði tekið í notkun í sumar. Hugmyndin er að prófa tækið fyrst á Kotstrandabrúnni á nýja Suðurlandsveginum. „Okkur langar að mæla þungaumferðina út frá Reykjavík en í framhaldinu stefnum við á að setja tækið upp á stöðum þar sem við erum að fara að hanna vegi. Með því að vita hver þungaumferðin er á vegkaflanum getum við með betri nákvæmni hannað veg og sinnt viðhaldi hans.“ Birkir segir umferðargreininn ekki aðeins nýtast við hönnun og viðhald heldur muni einnig geta nýst öðrum deildum Vegagerðarinnar á borð við umferðardeild, umferðaröryggisdeild og þjónustudeild auk þess sem hugmyndir eru uppi um samstarf við lögreglu. Jarðsjárdróni eykur nákvæmni rannsókna „Með jarðsjárdrónanum verður stigið stórt skref í hugbúnaði og úrvinnslu jarðsjárgagna,“ segir Birkir. Hingað til hefur jarðsjá, sem eru hluti af hátæknimælibíl Vegagerðarinnar, verið notuð til að meta þykkt laga á vegum. „Sú jarðsjá hefur hjálpað okkur töluvert en með jarðsjárdróna aukast möguleikarnir til muna til að sjá dýpra á nýjum veglínum.“ Dróninn kemst mun víðar en hefðbundin jarðsjá og hann má nota til að auka öryggi í rannsóknum, auka nákvæmni áætlana og magntöku. „Við getum til dæmis skoðað tilvonandi vegsvæði og áætlað með betri hætti hvar við tökum rannsóknarholur, hvar best er að fara í rannsóknarboranir og fengið betri upplýsingar um legu klappa. Með upplýsingum úr jarðsjárdróna er hægt að draga úr því að upp komi óvæntar aðstæður við framkvæmdir,“ segir Birkir og tekur dæmi; „Segjum sem svo að tvær rannsóknarholur gefi til kynna að stutt sé niður á klöpp. Við framkvæmdir kemur síðan í ljós að milli holanna tveggja er allt annar jarðvegur. Með jarðsjárdróna getum við séð fyrir slíkar aðstæður, metið hvaða möguleikar eru í stöðunni og gert ráðstafanir fyrirfram í stað þess að bregðast við á staðnum. Þannig verður hægt að gera ráð fyrir þessu í kostnaðaráætlun.“ Með jarðsjárupplýsingum er einnig hægt að fækka þeim holum sem þarf að bora auk þess sem hægt er að para saman niðurstöður úr jarðsjá og tilraunaborunum sem gerir rannsóknir mun skilvirkari. Þá getur dróninn einnig búið til þrívíddarmyndir af jarðlögum. Dróninn sem stefnt er á að kaupa og taka í notkun í sumar er um 2,5 m í þvermál. Nokkur vandi er að stýra svo stórum dróna en Birkir segir starfsfólk innan Vegagerðarinnar hafa góða reynslu af því fljúga drónum, en þó ekki af þessari stærð. ↑ Hátæknimælibíll Vegagerðarinnar. Framan á bílnum er jarðsjá sem hingað til hefur verið notuð til að meta þykkt laga á vegum. Nýr jarðsjárdróni sem til stendur að kaupa mun komast mun víðar en hefðbundin jarðsjá og hann má nota til að auka öryggi í rannsóknum, auka nákvæmni áætlana og magntöku.

x

Framkvæmdafréttir Vegagerðarinnar

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Framkvæmdafréttir Vegagerðarinnar
https://timarit.is/publication/1142

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.