Sjómannablaðið Víkingur

Árgangur

Sjómannablaðið Víkingur - 01.09.2023, Síða 34

Sjómannablaðið Víkingur - 01.09.2023, Síða 34
34 | Sjómannablaðið Víkingur Hormóni og fleira fólk Nýlega kom út hjá Bókaútgáfunni Hólum bókin Hormóni og fleira fólk – missannar sagnir frá síðustu öld. Höfundurinn er Halldór Ólafsson sem lengi starfaði sem tæknimaður hjá Norrænu eldfjalla- stöðinni og koma margir þjóðþekktir einstaklingar hér við sögu. Grípum niður í eina frásögnina: LÍTIL FRÁSÖGN ÚR BÆJARLÍFI REYKJAVÍKUR Þegar Ólafur faðir minn kom heim frá Spáni vorið 1922 hóf hann bókhaldsstörf fyrir ýmis fyrirtæki. Um svipað leyti og hann kom til landsins leyfði Alþingi innflutning léttra vína frá Spáni og Ítalíu. Þar með voru bannlögin svonefndu frá 1909 að hluta til numin úr gildi og sú ráðstöfun varð til þess að Verzlunarráð Íslands taldi mjög nauðsynlegt að fjölga spænskumælandi verslunarfólki hér á landi. Þannig kom það til að Verzlunarráð fór þess á leit við Ólaf, föður minn, að hann tæki að sér spænskukennslu við Verzlunar- skóla Íslands en Verzlunarráðið hafði tekið við rekstri skólans sumarið 1922. Ólafur þáði starfið og hóf kennslu strax um haustið. Samhliða kennslu og bókhaldsstörfum var Ólafur oft túlkur fyrir heildsala og skipamiðlara þegar erlend skip höfðu viðdvöl í Reykja- víkurhöfn. Einn þeirra manna, sem hann aðstoðaði, var fornvinur hans frá skólaárum, Theódór Jakobsson, er síðar varð skipamiðlari en var um þessar mundir framkvæmdastjóri hjá fyrirtækinu Kol og Salt. Theódór var einnig stundakennari við Verzlunarskólann og þar munu þeir hafa endurnýjað vinskap sinn. Frásögnin hér á eftir er komin frá Gunnari Andrew Jóhannessyni, bekkjarbróður föður míns í Menntaskólanum í Reykjavík, en hann hafði hana eftir Theódóri Björnssyni Líndal sem seinna varð prófessor í lögum við Háskóla Íslands. Þegar þessi saga gerðist var Theódór nýútskrifað- ur lögfræðingur og starfsmaður á lögmannsstofu Lárusar Fjeldsted. Hér kemur sagan: Skömmu eftir að leyfður var innflutningur á Spánarvínunum svokölluðu kom inn til löndunar í Reykjavíkurhöfn spænskur salt- flutningadallur með farm til fyrirtækisins Kol og Salt. Skipstjórinn var illa mæltur á enska tungu svo að Theódór fékk Ólaf, vin sinn, sér til halds og trausts ef upp kæmu einhver vafa- mál. Þeim var strax boðið til káetu kapteinsins og fór vel á með honum og félögunum íslensku enda bauð hann upp á snafs og snarl meðan gengið var frá pappírum; urðu þeir allir góðglaðir að því starfi loknu. Skipstjóri, sem var höfðingi í lund, leysti þá félaga út með kassa af góðu rauðvíni og sitt hvorri pottflöskunni af viskíi, en það var að sjálfsögðu á bannlista íslenskra yfirvalda. Þar sem þeim vinunum höfðu nú áskotnast dýrindis drykkjarföng, sem voru ekki á hvers manns borði, vildu þeir halda gleðskapnum áfram. Theódór bauð því skip- stjóra og Ólafi til skrifstofu sinnar sem var nærri höfninni. Ekki voru þremenningar langt komnir áleiðis þegar þeir mættu tveimur íturvöxnum lögreglumönnum á eftirlitsgöngu. Því miður voru vín- föngin of mikil fyrirferðar til að hægt væri að leyna þeim og þessir laganna verðir voru furðu fljótir að átta sig, höfðu snör handtök og færðu hina slompuðu kumpána inn á lögreglustöð við Pósthús- stræti þar sem áfengið var gert upp- tækt. Að því loknu voru þremenningarnir færðir niður í „Kjall- arann“ en það var sá staður hvar rónar bæjarins voru iðulega hýst- ir um nætur. En nú var illt í efni og góð ráð dýr því að Theódór var kvæntur dóttur Páls Einarssonar, hæstaréttardómara og fyrrverandi bæjarstjóra Reykjavíkur. Theódór átti orðið eitt barn með konu sinni, er hér var komið sögu, svo að það var bagalegast fyrir hann að komast ekki heim um nóttina. Eins og í pottinn var búið gat það haft alvarlegar afleiðingar fyrir Theódór ef fréttir af þessari uppákomu bærust um bæinn. Ólafur hafði fullan skilning á hversu erfiðar aðstæður vinar hans voru og tók því á sig alla sök í málinu við yfirheyrslur morguninn eftir enda engum bundinn líkt og Theódór. Hann sagði Theódór ekki eiga neinn þátt í afbrotinu, hann hefði verið staddur á kæjanum þetta kvöld eingöngu starfa sinna vegna og væri strangheiðarlegur mað- ur eins og allir vissu. Þetta var tekið gilt, Theódór umsvifalaust leystur úr haldi og beðinn innvirðulega afsökunar á þessum leiðu mistökum. Strax eftir hádegi þennan dag áttu réttarhöld í máli Ólafs og Spánverjans að fara fram því að ekki þótti forsvaranlegt að halda skipstjóra frá fleyi sínu lengur en nauðsyn krefði. En þá kom heldur betur babb í bátinn; enginn spænskumælandi maður fannst sem gat túlkað mál Spánverjans fyrir dóminum. Sem sagt, spænsk- an dómtúlk var hvergi að finna í bænum. Þetta var grafalvarlegt mál því að annar sakborninga gat ekki komið sjónarmiðum sínum á framfæri við réttinn nema í gegnum túlk. Eftir miklar vangaveltur og djúpar lögfræðilegar pælingar starfsmanna réttarins var þess far- ið á leit við íslenska sakborninginn í málinu að hann tæki að sér hlutverk túlksins. Ólafur kvað það auðsótt mál fyrst honum væri treyst til þess. Er nú skemmst frá því að segja að skipstjórinn rausnarlegi var sýknaður af öllum sakargiftum en Ólafur fundinn sekur um smygl á tveimur pottflöskum af viskíi og dæmdur í fjár- sekt. Þá sekt borgaði Theódór með glöðu gleði. Theódór Líndal var ritari réttarins þegar málið var tekið fyrir og sagði seinna að það hefði vakið mikla kátínu innan reykvísku lögfræðingastéttarinnar enda ekkert fordæmi fyrir því að sakborningur væri dómtúlkur í sakamáli sem hann átti sjálfur hlut að.

x

Sjómannablaðið Víkingur

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Sjómannablaðið Víkingur
https://timarit.is/publication/335

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.