Víkurfréttir


Víkurfréttir - 26.06.2024, Blaðsíða 8

Víkurfréttir - 26.06.2024, Blaðsíða 8
Hólmfríður er að norðan, hún kemur frá Grenivík við Eyjafjörð og lagði stund á leikskóla- kennaranám við Háskólann á Akureyri. Hún kynntist eiginmanni sínum, Hannesi Jóni Jónssyni, þegar hann þjálfaði meistaraflokk Reynis en hann er umsjónarmaður fasteigna hjá Suðurnesjabæ í dag. Hólmfríður starfaði sem skólastjóri Sandgerðisskóla en saknaði leikskólastarfsins og ákvað að snúa aftur í leikskólann. Hún sótti um starf leikskólastjóra og tók við stjórn leikskólans Holts nú í vor. Víkurfréttir ræddu við Hólmfríði um starfið með börnum og þá framtíðarsýn sem hún hefur í leikskólamálum. Langaði að breyta til „Við bjuggum í fimm ár í Sand- gerði og ég var skólastjóri þar. Svo langaði mig að breyta til og fór í pólitíkina, þá er maður farinn að hugsa sér til hreyfings þannig að ég hugsaði: „Mig langar að fara að gera eitthvað annað en að vera skólastjóri. Þannig að ég sótti um starf í Há- skóla Íslands og fékk það. Nú bý ég í Keflavík þannig að ég var að keyra á milli. Það átti ekki við mig. Mér fannst ég bara vera að eyða tíma við það að sitja undir stýri. Mér finnst alveg gaman að keyra, er gömul björgunasveitamanneskja og við vorum mikið að keyra um öll þessi ár sem maður var þar. Fara í einhverjar leitir um allar trissur fyrir norðan. Ég hef mikið keyrt, var t.a.m. að kenna í Háskólanum á Akureyri meðan ég bjó á Grenivík. Þetta var samt ekkert fyrir mig, að keyra brautina á hverjum einasta degi.“ Að loknu leikskólanámi fór Hólmfríður nánast beint í leik- skólastjórastöðu í nýstofnuðum leikskóla á Akureyri en eftir að hafa unnið í eitt ár í leikskólaum- hverfinu ákvað hún að bæta við sig grunnskólakennanáminu. „Ég fór í grunnskólann því ég átti tvö börn í leikskóla og hugsaði með mér að ég ætlaði bara að sinna mínum börnum eftir vinnudaginn. Svo hefur mig langað að fara aftur í leikskólann, kannski af því að grunnskólinn er svo mikið að gleypa til sín leikskólakennarana. Ég fann það núna þegar ég var að skipta um starf að mig langaði ekki að fara aftur í grunnskóla. Ég var södd af því og hugsaði með mér að tækifærin eru í leikskólanum, í frelsinu og vinnu með ungum börnum sem er svo opin, einlæg og einhvern veginn til í allt – og ég var ótrúlega heppin að hafa fengið þetta starf. Þetta er bara drauma- starfið mitt.“ Draga fram kraftinn, seigluna og þrautseigjuna Ég ákvað að breyta til núna í janúar og sótti um leikskólastjórastöðuna í Holti. Ég vildi bara fara í þennan tiltekna leikskóla af því að hann fylgir stefnunni sem ég aðhyllist í leikskólamálum. Ég fékk stöðuna og byrjaði hérna í hlutastarfi í apríl og svo í fullu starfi 1. maí. Þannig að ég er búin að vera mjög stutt hérna.“ Stefnan sem Hólmfríður að- hyllist er kennd við Reggio Emilia á Ítalíu og á bak við hana er mjög barnamiðuð hugmyndafræði. „Allt leikskólastarf er það náttúrulega en oft er talað um að þessi stefna byggi á því að börn hafi hundrað mál, sem sagt hundrað aðferðir til að tjá sig, og það sé gjarnan skóli, menning og samfélagið sem taki af þeim hvert málið á fætur öðru og geri þau í raun eintóna eða ein- mála,“ segir Hólmfríður. „Og það er í raun eitthvað sem við viljum forðast. Við viljum halda sem lengst í sköpunarkraftinn, hug- myndir þeirra og þessa barnslegu sýn þeirra á veröldina.“ Hólmfríður segir að hugmynda- fræði stefnu Reggio Emilia taki mið af menningunni á hverjum stað og á Ítalíu séu það gjarnan skúlptúrar, listaverk og annað. „Hérna á Íslandi myndi ég segja að það væru þulur, sögur og ljóð – og líka auðvitað þessi myndlist og í raun allt sem snýr að sköpun.“ Þannig að þið eruð svolítið að reyna að halda í menningar- arfinn hérna með þessu? „Já, þetta snýst svolítið um það. Það er líka hugmyndafræðin og tungumálið, það er hægt að tjá sig á marga vegu en tungumálið er svo dýrmætt. Að vera fær og leikinn í að nota tungumálið. Sem dæmi voru nemendur hérna að taka skimunar- prófið Hljóm- 2, sem er til að kanna hljóðkerfis- og málvitund barna barna og sjá hversu reiðubúin þau eru fyrir lestrarnám. Öll börnin hérna á efsta ári eru í tveimur efstu þrepunum. Það er mjög gott. Þau eru að fara héðan með ótrú- lega mikið í bakpokanum upp á næsta skólastig. Þannig viljum við hafa það – örva þau, styðja og að þau þroskist sem mest hérna hjá okkur.“ Svo fara þau héðan í kassann sem grunnskólinn er. „Já, sumir myndu segja það. Það var þannig en grunnskólinn er svo mikið að breytast – og er búinn að breytast,“ segir Hólmfríður. „Ég segi til dæmis að þeir grunnskólar sem eru með hugmyndafræði byrj- endalæsis taka vel á móti okkar nemendum. Það er svolítið eins og þetta, fjölbreyttar aðferðir og þeir kennarar sem fara í gegnum tveggja ára nám í byrjendalæsi fá fullt af verkfærum, tólum og alls- konar leiðum til að mæta nem- endum út frá þeirra áhuga. Það er númer eitt, tvö og þrjú. Við vitum það öll að ef við höfum ekki áhuga á einhverju þá er miklu erfiðara að tileinka sér það eða læra. Þess vegna er svo mikilvægt að börn fáist við áhugaverða hluti, að við þekkjum þau og vitum áhuga- málin þeirra og hvað þeim finnst skemmtilegt. Þá dregur maður fram kraftinn, seigluna og þraut- seigjuna með þeim og kennir þeim að nýta sér það sem er áhugavert. Áhugann er svo hægt að yfirfæra svo ótrúlega víða. Þetta snýst um að hefja leikinn eða starfið á ein- hverju sem þau hafa áhuga á og síðan læra þau smámsaman að yfirfæra það á eitthvað annað,“ segir leikskólastjórinn og það má heyra á ákefðinni í máli hennar að þetta er henni hjartfólgið. Hólmfríður segir að þegar börnin hafi gaman að því sem þau eru að fást við þá eru þau frekar til í að prófa nýja hluti. „Í gleðinni erum við tilbúin í allskonar,“ segir hún og bætir við að aðferðafræði bæði Reggio Emilia og byrjenda- læsis sé mjög einstaklingsmiðuð og horfi til einstaklingsins, áhugasviðs hans og getu og byggi svo ofan á það sem einstaklingurinn býr yfir. „Svo erum við alltaf að hvetja börnin til að fara aðeins lengra, aðeins út fyrir þægindarammann. Ekki þannig að þú verðir óöruggur og takir of stór skref og hrökklist til baka heldur aðeins að kanna og prófa. Þess vegna þarf allt það sem þau eru að fást við að vera pínu- lítið ögrandi, ekki ofar þeirra getu en allt að því. Fólk rís undir ábyrgð og ef börn fá tækifæri og svigrúm til að taka þátt, eins og með hugtakið lýðræði, ef börnin fá að taka þátt eða hug- myndir þeirra eru virtar, verkin þeirra séu til sýnis upp á veggjum – allt þetta eykur sjálfstraust og styrkir sjálfsmyndina. Þetta er svo hollt og gott fyrir börn – og þau eru svo hugmyndarík.“ Í gleðinni erum við tilbúin í allskonar – segir Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir, sem var nýlega ráðin leikskólastjóri á leik- skólanum Holti í Reykjanesbæ, en hún telur að gjaldfrjálsir leikskólar komi til með að lyfta faglegu starfi þeirra á hærri stall. VIÐTAL Jóhann Páll Kristbjörnsson johann@vf.is Hólmfríður á ferðalagi með betri helmingi sínum, Hannesi Jóni Jónssyni. Mynd af Facebook-síðu Hólmfríðar ... oft er talað um að þessi stefna byggi á því að börn hafi hundrað mál, sem sagt hundrað aðferðir til að tjá sig, og það sé gjarnan skóli, menning og samfélagið sem taki af þeim hvert málið á fætur öðru ... Hólmfríður segir að hún sé í draumastarfinu. Hér er hún á útileiksvæði leikskólans á Holti. VF/JPK 8 // víkurFrÉttir á SuðurnESjuM

x

Víkurfréttir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Víkurfréttir
https://timarit.is/publication/1102

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.